Sviðsljós
Höskuldur Daði Magnússon
hdm@mbl.is
Birgitta Haukdal er vinsælasti rithöfundur landsins ef litið er til útlána á bókasöfnum í fyrra. Bækur hennar voru lánaðar út um 34 þúsund sinnum á síðasta ári.
Það er nokkru meira en bækur helstu keppinauta hennar í vinsældum, þeirra Yrsu Þallar Gylfadóttur og Ævars Þórs Benediktssonar. Bækur Yrsu Þallar voru lánaðar út 30 þúsund sinnum en bækur Ævars Þórs 29 þúsund sinnum. Þriðji vinsælasti höfundurinn er Bjarni Fritzson með 22 þúsund útlán en bókaormar fengu bækur Gunnars Helgasonar að láni um 20 þúsund sinnum. Þetta eru helstu niðurstöður talnagreiningar sem Landskerfi bókasafna vann að beiðni Morgunblaðsins.
Eðli málsins samkvæmt hrundu útlán á bókasöfnum á covid-árunum. Þau hafa ekki tekið við sér eftir að faraldrinum lauk og lítils háttar fækkun varð á milli ára. Þessar breytingar má meðal annars rekja til aukinna vinsælda hljóðbóka og minni lesturs á kiljum. Skráðir lánþegar á bókasöfnum voru 152 þúsund talsins árið 2024. Útlán voru tæpar 2,3 milljónir um landið allt. Tveir þriðju lánþega eru konur en þriðjungur karlar. Vinsælustu bækurnar eru sem fyrr barnabækur.
Mikla athygli vakti að árið 2023 sló Ragnar Jónasson sjálfum Arnaldi Indriðasyni við í vinsældum. Ragnar heldur efsta sætinu yfir flest útlán skáldsagnahöfunda á bókasöfnum í fyrra, alls 8.830. Arnaldur kemur skammt á eftir með 8.225 útlán. Því næst koma þær Eva Björg Ægisdóttir og Yrsa Sigurðardóttir en Stefán Máni er fimmti vinsælasti höfundur landsins.
Ef horft er til einstakra skáldsagna trónir Heim fyrir myrkur eftir Evu Björgu Ægisdóttur á toppnum með 2.132 útlán. Snjór í Paradís eftir Ólaf Jóhann Ólafsson er í öðru sæti með 1.785 útlán og Sæluríkið eftir Arnald Indriðason fékk 1.751 útlán. Því næst komu Hvítalogn eftir Ragnar Jónasson og DJ Bambi eftir Auði Övu Ólafsdóttur.
Vinsælustu þýddu skáldsögurnar voru Nú ertu kominn aftur eftir Jill Mansell, Sólarsystirin eftir Lucindu Riley og Vöffluhúsið í fjöllunum eftir Karin Härjegård.
Dav Pilkey átti sex vinsælustu barnabækurnar. Fimm þeirra voru um Hundmann en sú sjötta um Kattmann. Prumpusamloka! eftir Yrsu Þöll Gylfadóttir og Iðunni Örnu er eina íslenska barnabókin sem ratar inn á topp tíu. Ef horft er annarra flokka en skáldverka þá njóta bækur um íþróttamenn sem ætlaðar eru börnum mikilla vinsælda. Fjórar vinsælustu bækurnar í fyrra voru um fótboltakappana Mbappe, Messi, Håland og Salah.
Þá er vert að geta þess að tímarit njóta enn mikilla vinsælda á bókasöfnum. Þau eru í raun það efni sem mest er lánað út enda eru gjarnan mörg tölublöð af hverjum titli sem hægt er að grúska í. Vikan var lánuð út 7.257 sinnum í fyrra og naut mestra vinsælda. Því næst komu Syrpur um ævintýri Andrésar andar og félaga með 6.597 útlán. Þar á eftir kom Hús og híbýli, Andrés önd, Alt for damerne, Hendes verden, Gestgjafinn, Bo bedre, Lifandi vísindi og Norsk ukeblad.
Vinsældir Rafbókasafnsins jukust til muna á síðasta ári en þar er að finna fjölbreytt úrval raf- og hljóðbóka. Ástæðu aukinna vinsælda má rekja til þess að tímarit bættust við safnkostinn árið 2024. Heildarfjöldi útlána tvöfaldaðist á milli ára og var í fyrra um 60 þúsund. Þar af var þriðjungur tímarit. Vinsælasta tímaritið var The New Yorker.