Hanna Katrín Friðriksson
Hanna Katrín Friðriksson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Hanna Katrín Friðriksson atvinnuvegaráðherra fékk á föstudag á sig fyrirspurnir um fyrirhugaða tvöföldun veiðigjalda. Eins og fyrri daginn kannaðist ráðherra ekki við að verið væri að hækka skatta, það væri bara verið að „leiðrétta“ reikniformúlurnar á bak við skattana

Hanna Katrín Friðriksson atvinnuvegaráðherra fékk á föstudag á sig fyrirspurnir um fyrirhugaða tvöföldun veiðigjalda. Eins og fyrri daginn kannaðist ráðherra ekki við að verið væri að hækka skatta, það væri bara verið að „leiðrétta“ reikniformúlurnar á bak við skattana. Ein aðferðin við að „leiðrétta“ útreikningana er að nota norskt fiskverð, sem ráðherrann heldur fram að sé raunverulegt markaðsverð og ber fyrir sig ónafngreinda norska hagfræðinga. Allur er sá málflutningur með miklum ólíkindum og kallar á frekari skýringar, ekki síður en fullyrðingar um að greiningar hafi verið unnar.

Formaður Sjálfstæðisflokksins, Guðrún Hafsteinsdóttir, og varaformaður flokksins, Jens Garðar Helgason, voru meðal fyrirspyrjenda. Þau viku meðal annars að því að fram hefði komið í minnisblöðum sérfræðinga stjórnarráðsins úr stjórnarmyndunarviðræðunum, sem Morgunblaðið birti á dögunum, að varað væri við því að leggja fram frumvarp um breytt veiðigjaldakerfi án vandaðrar greiningar og samráðs.

Sérfræðingar stjórnarráðsins hafi einnig varað við því að miða við fiskmarkaðsverð í Noregi, en erfitt sé að fullyrða um að það sé í raun markaðsverð. En það verklag Norðmanna að slíta í sundur veiðar og vinnslu hefur meðal annars orðið til þess að meirihluti aflans þar er fluttur úr landi óunninn. Gefur það ekki vísbendingu um fiskverðið þar?