Kristín Hjartar, fulltrúi í Seðlabanka Íslands, fæddist 12. desember 1941 í Reykjavík. Hún lést 31. mars 2025 á Droplaugarstöðum.

Foreldrar hennar voru Loftur Guðni Hjartar húsasmiður, f. 8. febrúar 1898 á Gerðhömrum í Dýrafirði í V-Ísafjarðarsýslu, d. 8. október 1980 í Reykjavík, og kona hans, Guðrún Árnadóttir Hjartar húsmóðir, f. 5. júlí 1901 í Reykjavík, d. 28. júní 2001 í Garðabæ. Þau giftust 15. nóvember 1930.

Systur Kristínar eru Steinunn, f. 26. júní 1931, og Dóra, f. 30. maí 1937, d. 2. maí 2022.

Fyrri maður Kristínar var Skúli Grétar Guðnason, f. 21. júlí 1939 í Reykjavík, löggiltur endurskoðandi, d. 28. október 2015 í Kópavogi. Þau giftust 2. júní 1962 (skildu). Foreldrar hans voru Guðni Skúlason, f. 15. júní 1910 í Flagbjarnarholti í Landsveit í Rangárvallasýslu, d. 29. desember 1987 í Reykjavík, leigubílstjóri, og k.h. (skildu) Þóra Guðmundsdóttir, f. 6. desember 1915 á Brekku í Þykkvabæ í Ásahreppi í Rangárvallasýslu, d. 25. júlí 1969 í Reykjavík, húsmóðir.

Sonur Kristínar og Skúla er Magnús Árni, fæddur í Reykjavík 31. janúar 1969. Sambýliskona (skildu) Nína (Gíslína Hrefna Rósamunda) Magnúsdóttir, f. 20. október 1969 á Akranesi. Börn þeirra eru a) Jónatan Sólon, fæddur í Reykjavík 7. mars 1996. Eiginkona hans er Ísfold Líf Ágústsdóttir, f. 15. apríl 1994 í Reykjavík. Sonur þeirra er Hilmir Ares, f. 26. júlí 2021 í Kaupmannahöfn. b) Úa Sóley, f. 28. mars 2002 í Reykjavík. Unnusti hennar Ari Kaprasíus Kristjánsson, f. 15. ágúst 2002 í Danmörku.

Síðari maður Kristínar var Þorfinnur Egilsson, f. 26. ágúst 1940 á Ísafirði, d. 14. október 1998 í Reykjavík, lögmaður. Þau giftust 30. ágúst 1986 (skildu). Foreldrar hans voru Egill Þorfinnsson, f. 27. desember 1913 á Spóastöðum í Biskupstungum í Árnessýslu, skipasmíðameistari og framkvæmdastjóri, d. 30. maí 2004 í Keflavík, og k.h. Ástrún Sumarrós Jónsdóttir, f. 25. apríl 1910, frá Neðri-Miðbæ í Norðfjarðarhreppi í S-Múlasýslu, d. 7. maí 2003 í Keflavík, húsmóðir.

Ferðafélagi og vinur Kristínar var Þorvarður Alfonsson, fæddur í Hnífsdal 23. júní 1931, hagfræðingur.

Útför Kristínar fer fram frá Dómkirkjunni í dag, 14. apríl 2025, klukkan 13.

Amma mín var mér afar kær og minning hennar mun ávallt eiga öndvegissæti í huga mínum. Margt gekk á á hennar ævi svo ekki skortir efniviðinn eins og við fjölskylda hennar, vinir og aðrir sem urðu henni samferða á lífsleiðinni, munum vitna um. Fremur en að reyna að endursegja sögurnar sem hún sagði best, kýs ég hér að lýsa ömmu út frá mínu sjónarhorni. Þannig eru stundirnar sem við deildum saman og innlitið sem ég fékk í hennar lífssýn og viðmót í gegnum þær í brennidepli.

Hún hafði breitt áhugasvið en þar á meðal var hámenning af ýmsum toga en hún kunni vel að meta myndlist og var tíður gestur í leikhúsum borgarinnar og á tónleikum Sinfóníuhljómsveitarinnar. Hún las og söng ötullega fyrir mig vísur, sálma og ljóð frá blautu barnsbeini. Til marks um það er að hún missti ekki móðinn þar til ég gat farið með Vísnabókina ólæs en hjálparlaust. Síðar kynnti hún mér ýmis skáld og rithöfunda og vitnaði jafnan til ljóða sem voru henni ofarlega í huga á hverjum tíma, bæði munnlega sem og í bréfum sem skrifuð voru til manns á hátíðisdögum.

Hún var þolinmóð og alltaf viljug til að svara spurningum manns eftir bestu getu og var það mér mikilsvert, sérstaklega á bernskuárunum. Sumar spurningarnar kröfðust sýnikennslu, eins og sú er hárrúllurnar varðaði, öðrum fylgdu einnig skemmtilegar sögur. Til dæmis má nefna ýmsar gersemar sem amma hafði tekið með sér úr ævintýrum sínum víða um heim: skrautvasa, skartgripi, myndlist og búddíska söngskál frá Kína. Amma hafði lag á að segja sögur, bæði af merkisviðburðum sem höfðu átt sér stað á hennar ævi og af persónulegum upplifunum sínum. Hún kom einstaklega vel fyrir sig orði og í hennar nærveru var mikið hlegið. Minnisstætt er, þegar gengið var til rekkju, maður kom sér fyrir undir sænginni með iljarnar í dýnuna og hnén standandi upp í loftið en svefninn virtist ekki ætla að koma, að hún sagði manni að standa ekki í lappirnar enda gæti maður ekki sofið ef maður væri á fótum. Oft skutlaðist hún með systur mína Úu og mig og gantaðist með að vera algjör Über-amma þótt tvíræðnin væri ekki metin til fulls af okkur ungum, vart þýskumælandi systkinunum.

Amma var mikill ættfræðingur og voru gefnar út eftir hana tvær bækur þess efnis en hún var líka öflug í góðgerðastarfi fyrir Kvenfélagið Hringinn og Oddfellowregluna. Þá spilaði hún golf og naut bæði og útbjó fyrirtaksmat og hugaði því ekki bara að andlegu hliðunum heldur einnig þeim veraldlegu. Þar með ól hún ekki aðeins upp í okkur fjölskyldunni bókmenntaþekkingu heldur einnig eldamennsku og bakstur. Nefna ber einnig þá góðu háttsemi og þá siði sem hún hafði í fyrirrúmi auk afburðasnyrtimennsku, enda sjálf alltaf óaðfinnanleg og íburðarmikil. Maður skyldi ekki skarta sorgarröndum og þá heldur hunskast umsvifalaust í bað með naglaburstann að vopni.

Síðar á ævinni lærði maður meira um konuna sjálfa, aftur vegna hennar frásagnarfærni sem fékk mann til að hlusta af athygli. Kímnigáfan var sjaldan langt undan en einnig voru tekin fyrir alvöruþrungin málefni. Einkennandi fyrir ömmu var að ekki mátti finna vott af eftirsjá eða svartsýni í lýsingum hennar á jafnvel átakanlegum atburðum; að minnsta kosti ekki eins og þeim var miðlað til sonarsonar hennar. Þannig sýndi hún hvernig læra mætti af reynslunni og snara því erfiða til jákvæðrar framvindu. Hún hélt huga sínum opnum og sló varnagla við sínum skoðunum væri hún ekki fullviss í sinni sök, sem að mínum dómi felur í sér mikla visku.

Í síðasta stórævintýri okkar, fyrir rétt rúmum fimm árum síðan, fór amma með okkur systkinunum og föður okkar Magnúsi í þriggja vikna ferðalag til Japans. Við dvöldum bæði í Tókýó og í Kýótó, en sóttum einnig fleiri staði heim, og upplifðum þar saman annan menningarheim og nutum japanskrar matargerðar. Við skoðuðum japanska náttúru, menningarminjar og helgistaði, sumir hverjir kröfðust langrar göngu um holt og hæðir þó amma léti það ekki aftra sér. Þannig mun ég muna hana, eins og þegar við vorum í Japan. Þannig var hún. Hún var ævintýragjörn og kraftmikil, kunni að njóta sín og vakti gleði hjá þeim sem umgengust hana. Hún hafði jákvætt viðhorf til lífsins og ég er og mun æ vera þakklátur fyrir að hafa fengið að sjá það með hennar augum. Ég elska þig og sakna þín, amma mín.

Þinn sonarsonur,

Jónatan Sólon.

Erfiðum vetri er lokið og nú þegar vorið er á næsta leiti hefur Kristín okkar fengið hvíldina. Í örfáum orðum langar okkur að minnast einstakrar konu. Hún var frænka annarrar okkar og vinkona okkar beggja. Við vorum saman í frænkuklúbbi sem var í miklu uppáhaldi hjá okkur.

Kristín var einstök kona sem lifði fallegu og innihaldsríku lífi. Hún var mikill listunnandi og fagurkeri. Hún naut þess að fara á tónleika, hérlendis og erlendis, og hvers kyns menningarviðburðir glöddu hana. Hún var heimskona sem naut þess að ferðast og þau voru mörg ferðalögin sem hún fór í. Síðasta stóra ferðalagið hennar var ferðin til Japans. Ferðafélagarnir voru þeir allra bestu og Kristín naut svo sannarlega ferðarinnar; hún vildi skoða heiminn. Hún var víðsýn og áhugasöm um fjölmarga þætti tilverunnar.

Bókmenntir og lestur áttu líka huga hennar. Símtöl um bókmenntir;bækurnar sem voru nýkomnar út eða rétt ókomnar út vöktu áhuga og sannarlega hægt að ræða innihald verkanna út frá mörgum sjónarhornum. Sama gilti reyndar um tónleikana og listviðburðina. Hluti af því að njóta var að deila með öðrum og heyra fleiri skoðanir. En það var fleira sem átti huga Kristínar. Hún var trúuð og kirkjurækin. Guðsþjónustur og samvera í kirkjunni var mikilvægur þáttur í hennar lífi. Þangað sótti hún styrk og gleði. Kristín var prýdd ótal kostum og miklum persónutöfrum. Hún var athugul og klár, sterk og sjálfstæð, dugleg, skemmtileg og orðheppin í meira lagi. Kristín var virk í félagsstarfi, hún var mannblendin og lagði sitt af mörkum í nokkrum góðgerðafélögunum. Hún var traustur vinur vina sinna, heiðarleg og orðvör. Þó svo að félagsmálin hafi skipt Kristínu miklu máli var ekkert sem skipti hana eins miklu máli og fjölskyldan. Hún var stolt móðir, amma og langamma. Hún gladdist innilega yfir hversu vel barnabörnunum hennar gekk. Þau völdu sér ólíkar leiðir en Kristín gladdist yfir þeim báðum. Litli langömmudrengurinn hennar er lifandi eftirmynd afa Magnúsar; bjarteygur og fallegur drengur. Ættfræði og ættrækni var líka ofarlega í huga Kristínar. Árið 1993 leit dagsins ljós Niðjatal Árna Árnasonar og Kristínar Ólafsdóttur. Þau Árni og Kristín eru móðurafi og amma Kristínar. Ritið tók Kristín saman ásamt Ingibjörgu Olgu, eiginkonu náins frænda. Innan fjölskyldunnar kallast bókin „græna biblían“ og er hún jafnan innan seilingar. Bækurnar um ættfræði urðu fleiri og vitna um mikinn áhuga hennar á greininni.

Kristín var glæsileg kona; gullfalleg og heillandi. Fallegasta frænkan hefur nú kvatt okkur. Við sjáum hana fyrir okkur; fríska og brosandi, á yndislega heimilinu hennar þar sem útsaumsmyndin hennar prýðir vegg, píanótónlist Víkings Heiðars hljómar og fallegt kertaljós logar í glugga. Við vitum að minningin um hana mun lifa í hjörtum allra sem hana þekktu.

Þorvarði, ástvini Kristínar, Magnúsi syni hennar, Úu, Jónatan og fjölskyldunni allri vottum við okkar dýpstu samúð.

Far þú í friði,

friður Guðs þig blessi,

hafðu þökk fyrir allt og allt.

(V. Briem)

María Solveig Héðinsdóttir, Hrönn Hjaltadóttir.

Hann er ógleymanlegur dagurinn sem ég hitti Kristínu fyrst, fyrir langalöngu. Hún gekk inn í herbergið, hávaxin með sínar liðmjúku hreyfingar, glampa í augum og bros á vör. Hún átti við mig erindi um fyrirliggjandi málefni. Með sinni einstöku nærveru og glettni og skopskyn að vopni kom hún auga á lausnir á hverju því sem að höndum bar.

Þarna urðu til á milli okkar órofa strengir sem hafa fylgt okkur gegnum lífsgönguna. Mörg verkefni höfum við leyst í sameiningu, krufið lífsgátuna yfir súpudiski á Lækjarbrekku eða í heitu pottunum.

Ósjaldan sá hún með sinni einstöku ráðsnilli akkúrat bestu leiðina. Ef viðfangsefnin voru óvenju snúin gat hún horft á marga bolta á lofti í einu og hlegið að öllu saman, sínum einstaka ógleymanlega hlátri, þessum klingjandi bjölluklukknahlátri.

Um leið og ég kveð þig með söknuði og þakklæti votta ég aðstandendum og vinum mína dýpstu samúð.

Rut Ríkey Tryggvadóttir.

Það er komið að kveðjustund.

Ég kveð kæra vinkonu mína, Kristínu Hjartar, en góðar minningar lifa.

Kristín var einstaklega glæsileg kona. Hún var falleg, brosmild, hávaxin með ljóst og mikið hár.

Við Kristín Hjartar hittumst fyrir 25 árum í ferð um Como-vatn á Ítalíu.

Við náðum strax vel saman og urðum miklar vinkonur.

Þegar hún heyrði að ég væri virk í Hringnum kvenfélagi fékk Kristín einnig áhuga á að starfa þar og gekk í hún félagsskapinn og starfaði þar ötullega í 20 ár.

Takk fyrir góðar minningar þaðan og frá gönguferðum okkar um Fossvogsdalinn sem við gerðum reglulega ásamt fleiri ferðum með eldri borgurum út á land að ógleymdum sumarbústaðaferðum.

Kristin var mikill bókaunnandi og las mikið. Hún tók að sér að setja saman bók um ætt sína; Hjartarættina. Það er gaman að fletta upp í þeirri bók en mikil vinna lá þar að baki.

Ég mun sakna þess að geta ekki hringt í Kristínu og spjallað um allt og ekkert.

Ég kveð hana með söknuði.

Fjölskyldu hennar sendi ég hjartanlegar samúðarkveðjur.

Gerður Birna.

Vinir mínir fara fjöld, orti Bólu-Hjálmar. Það er ekki langt síðan ég heyrði í henni Kristínu minni og nú er hún horfin yfir á æðri svið. Leiðir okkar lágu saman í Ættfræðifélaginu fyrir margt löngu. Fljótlega fundum við út að við vorum fjórmenningar, báðar komnar af Eiríki Hjörtssyni, sem ég fylgdi í grúskinu mínu frá vöggu til grafar. Hann var langalangafi okkar beggja. Kristín var öllu stórtækari og endaði ættfræðivinnuna sína á heilli bók, Hjartarættin, Niðjatal hjónanna Steinunnar Guðlaugsdóttur og Hjartar Bjarnasonar. Þar var sannarlega vandað til verka með efni, myndir og frágang. Þar rakti hún ættirnar frá afa sínum og ömmu. Ómetanlegur fróðleikur ættarinnar og komandi kynslóða. Margar ánægjustundirnar áttum við Kristín saman í grúskinu okkar með espólínið, dómabækurnar og kirkjubækurnar. Þar var aldrei dauð stund og mikið spáð og spekúlerað. Á heimili Kristínar var gott að vera og vart gat meiri smekkvísi en þar. Hver hluturinn öðrum fegri og fáar konur hef ég hitt með meiri reisn og glæsileik en hana. Ég tengdist henni svo einnig frá annarri hlið þegar sonur hennar, augasteinninn Magnús, varð nemandi minn í Menntaskólanum í Reykjavík. Svo komu barnabörnin og hamingjan umvafði Kristínu mína. Meðan heilsan leyfði var hún dugleg að mæta á fundi í félaginu okkar og hún lét sig ekki vanta í vorgöngur félagsins árum saman. Ég þakka henni góð og gengin spor og votta Magnúsi og afkomendunum mína dýpstu samúð. Góð kona er gengin.

Guðfinna Ragnarsdóttir.

Elsku Kristín mín, hvað ég sakna þín.

Öll þín góðu verk og það sem ég hlaut frá þinni hálfu ylja mér þrátt fyrir að þú sért farin. Okkar vinátta nær allt til 1960, viðveran, spjallið og trúnaðurinn var svo gefandi öll þessi 65 ár.

Þegar næðir í mínu hjarta og í huga mér engin ró

og ég þrái að sjá hið bjarta sem að áður í mér bjó

þá er lausnin ávallt nálæg, ef um hana í auðmýkt bið

og með bæninni kemur ljósið og í ljósinu finn ég frið.

Ó, svo dapur er dagur vaknar, dægurþrasið svo fjarri er.

Mundu þegar þú sárast saknar og sólin skín hvergi nálægt þér

að í bæn er falinn máttur er þig magnar þúsundfalt

því með bæninni kemur ljósið og í ljósinu lagast allt.

(Páll Óskar/
Brynhildur Björnsdóttir.)

Jónatan og Úa, Magnús, litli Hilmir og Ísfold Líf, guð veri með ykkur alla tíð.

Kristjana Aðalsteinsdóttir (Didda).

Ég átti mikið og gott samstarf við Kristínu Hjartar þegar hún var ritari minn nær allan þann áratug sem ég var aðalhagfræðingur Seðlabankans (1994-2004). Hún hóf störf í Seðlabankanum snemma á áttunda áratugnum og var þar alla starfsævina sem ritari í hagfræðitengdum deildum. Ég kom hins vegar til starfa í hagfræðideild bankans tæpum áratug síðar, eða haustið 1980. Þá kynntist ég auðvitað Kristínu eins og öðrum sem fyrir voru, en þar sem ég var hvorki yfirmaður, né með mikla þörf fyrir ritaraþjónustu, var samstarf okkar mun minna en síðar varð. Auk þess fór hún úr deildinni í greiðslujafnaðardeild nokkrum árum síðar og ég var svo einnig nokkur ár í burtu, fyrst í Cambridge á Englandi og svo í fjármálaráðuneytinu.

Í minningu minni var Kristín yfirleitt glaðvær og hafði gaman af samskiptum við samstarfsfólk, enda stundum líflegt og glatt á hjalla í gamla Seðlabankanum. Það kom fyrir að hún gerði góðlátlegt grín að þeim sem áttu það skilið, en var yfirleitt á lágværum nótum og stundum dugði sposkt bros. Almennt var hún brosmild og það situr sérstaklega í minningunni um þær stundir sem við Elsa áttum með henni frá 1994 og allt til enda.

Kristín gegndi starfi sínu fyrir mig af stolti og kostgæfni. Ein lítil spaugileg saga er til dæmis um það sem undirstrikar um leið þá ríkulegu kímnigáfu sem hún var gædd. Við buðum eitt árið til norræns aðalhagfræðingafundar og Kristín hafði veg og vanda af hagnýtri umsýslu fundarins. Unnið var með leiðbeiningar frá rekstrarsviði bankans á því í hvaða kostnað mætti leggja. Þar var ekki með talið koníak eftir kvöldmatinn og við hugðumst fylgja því í hvívetna. Einn aðalhagfræðingurinn, sem síðar náði enn meiri metorðum innan síns banka, hafði það hins vegar fyrir sið að sitja á verönd, reykja sígarettu og drekka koníak í lok góðra kvölda. Kristín sagði mér með sposku stolti að hún hefði fengið hann með harðri hendi til að greiða reikninginn. Ég hafði gaman af og lét kyrrt liggja.

Eftir að ég og fjölskyldan fórum til Basel á miðju ári 2004 og hún fór skömmu síðar á eftirlaun frá Seðlabankanum rofnuðu tengsl okkar við Kristínu um hríð, en þau endurnýjuðust eftir að við komum til baka 2009. Hún var dugleg að mæta á viðburði fyrir fyrrverandi starfsmenn bankans og leiðir okkar lágu saman við margvísleg önnur tækifæri, eins og t.d. á samkomum á vegum frænda hennar Ólafs Ragnars Grímssonar. Það sem einkenndi þau samskipti var brosið, áhugi fyrir okkar fjölskyldu og stoltið yfir syni sínum, Magnúsi Árna, og hans fjölskyldu, en Magnús Árni hafði lokið M.Phil-gráðu frá háskólanum í Cambridge eins og ég hafði gert nokkrum áratugum fyrr. Eftir að ég lauk störfum um mitt ár 2019 urðu samskiptin minni, meðal annars vegna þess að covid setti strik í reikninginn. Það voru því vonbrigði að frétta fyrr á árinu af miklum veikindum hennar sem báru tiltölulega brátt að. Nú er það tímaglas tæmt.

Við Elsa kveðjum góða vinkonu og sendum Magnúsi Árna og fjölskyldu hans innilegar samúðarkveðjur.

Már Guðmundsson.

hinsta kveðja

Elsku amma, takk fyrir allan stuðning, styrkinn og ástina sem þú hefur gefið. Takk fyrir bíltúrana, samveruna, hláturinn og alla viskuna sem ég mun taka með mér í lífið. Sakna þín og elska þig.

Þín

Úa Sóley.