Kona um þrítugt situr í gæsluvarðhaldi vegna rannsóknar á andláti manns í heimahúsi á höfuðborgarsvæðinu á föstudaginn. Konan er dóttir mannsins samkvæmt heimildum blaðsins.
Í tilkynningu frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í gærmorgun sagði að snemma á föstudagsmorgun hefði lögreglunni borist tilkynning um meðvitundarlausan karlmann í heimahúsi á höfuðborgarsvæðinu. Viðbragðsaðilar héldu strax á staðinn, en karlmaðurinn var þungt haldinn þegar að var komið. Hann var fluttur á slysadeild og lést þar síðar um daginn.
Elín Agnes Kristínardóttir hjá miðlægri rannsóknardeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu vildi ekki tjá sig um málið í gær en hún segir rannsókn þess í fullum gangi.
Konan hefur verið úrskurðuð í gæsluvarðhald fram á miðvikudag.