Stórleikur Tinna Guðrún Alexandersdóttir, sem átti glæsilegan leik fyrir Hauka, sækir á körfu Grindavíkur. Hin danska Ena Viso verst henni.
Stórleikur Tinna Guðrún Alexandersdóttir, sem átti glæsilegan leik fyrir Hauka, sækir á körfu Grindavíkur. Hin danska Ena Viso verst henni. — Morgunblaðið/Eyþór
Valur tryggði sér sæti í undanúrslitum Íslandsmóts kvenna í körfubolta með heimasigri á Þór, 75:70, í fjórða leik liðanna á Hlíðarenda í gærkvöldi. Valur vann einvígið 3:1 og eru Þórsarar komnir í sumarfrí

Körfuboltinn

Jóhann Ingi Hafþórsson

johanningi@mbl.is

Valur tryggði sér sæti í undanúrslitum Íslandsmóts kvenna í körfubolta með heimasigri á Þór, 75:70, í fjórða leik liðanna á Hlíðarenda í gærkvöldi. Valur vann einvígið 3:1 og eru Þórsarar komnir í sumarfrí.

Leikurinn var kaflaskiptur því Valur vann fyrsta leikhlutann 22:16. Þór svaraði og var með 38:34 forskot í hálfleik. Þór var svo yfir stærstan hluta seinni hálfleiks en Valskonur sneru taflinu við, náðu forystunni í lokin og héldu henni þar til lokaflautið gall.

Jiselle Thomas skoraði 25 stig fyrir Val og Dagbjört Dögg Karlsdóttir gerði 19 en þær voru drjúgar á lokakaflanum. Maddie Sutton skoraði 26 stig og tók 14 fráköst fyrir Þór og Amandine Toi gerði 14 stig.

Haukar unnu spennutrylli

Haukar jöfnuðu einvígið sitt við Grindavík með útisigri í Smáranum, 86:81, í miklum spennuleik. Liðin mætast því í oddaleik á miðvikudagskvöldið.

Grindavík kom á óvart og vann tvo fyrstu leiki einvígisins en Haukar hafa svarað með tveimur sigrum. Þrír leikir af fjórum í einvíginu hafa verið afar spennandi og hefur það verið hið skemmtilegasta.

Staðan var 76:76 þegar rúm mínúta var eftir. Þá skoraði Tinna Guðrún Alexandersdóttir tvær þriggja stiga körfur með stuttu millibili og Haukarnir fögnuðu naumum sigri.

Tinna átti stórleik, því hún skoraði 32 stig. Þrátt fyrir ungan aldur hefur Tinna spilað afar vel á síðustu tveimur tímabilum og er orðin einn mest spennandi leikmaður Íslands.

Hjá Grindavík var Daisha Bradford atkvæðamest með 31 stig og 13 fráköst. Í fjarveru Isabellu Óskar Sigurðardóttur og Huldu Bjarkar Ólafsdóttur voru Grindvíkingar fámennir og lykilmenn fengu litla hvíld.

Það reyndist dýrkeypt að lokum og Haukar gengu á lagið á lokakaflanum.

Höf.: Jóhann Ingi Hafþórsson