Tinna Hrund Birgisdóttir fæddist 5. desember 1982. Hún lést 20. mars 2025. Útförin fór fram 3. apríl 2025.
Elsku mamma.
Mamma var mjög mikilvæg í mínu lífi, hún kenndi mér allt sem þarf að kunna í eldhúsinu, samskiptum og mörgu fleiru. Mamma passaði alltaf að öllum í kringum sig liði vel þrátt fyrir að hún væri ekki að eiga góðan dag. Mamma gaf mér alltaf von og kenndi mér að allt það slæma myndi batna.
Þinn sonur,
Elías Óli Tinnuson Björnsson.
Á fimmtudag fylgdi ég minni bestu vinkonu til grafar.
Mér líður eins og það hafi bara verið í gær sem við gengum hringinn okkar kringum Ástjörn og þú kveinkaðir þér í síðunni og sagðist ætla að fara til læknis á morgun. Sú læknisheimsókn varð upphafið að 18 mánaða baráttu við keisara allra sjúkdóma.
Þú varst alltaf svo orkumikil, hafðir sérstakt göngulag þar sem þú gekkst næstum á tánum, komst við hjá mér til að fá súru, alltaf að flýta þér. Ég vissi ekki að þú talaðir frönsku fyrr en þú svaraðir símtali eitt sinn og bara skiptir um tungumál; þú varst að selja bretti af íslensku smjöri til lúxusverslunar í Frakklandi bara þarna á fimmtudagseftirmiðdegi í bílnum með mér. Enda kallaði ég þig alla tíð athafnakonu.
Lyfin fóru svo vel í þig, eins og mantran okkar sagði, og megnið af tímanum varst það þú sem dróst mig út á kaffihús eða göngutúr eða veitingastað sem bauð góðan fisk. Alltaf fisk. Þú hafðir unun af mat og last uppskriftabækur eins og aðrir lesa skáldsögur. Á allri okkar vegferð um heilsufæði og frumlega matargerð til að ráða niðurlögum selsins, eins og þú kallaðir meinið, fannst ekki það innihaldsefni sem þú þekktir ekki eða hafðir ekki eldað úr áður og var ég þó enginn nýgræðingur. Uppskriftir voru þér einungis innblástur, í eldhúsinu varstu skapandi gyðja.
Eftir að þú greindist var ég svo heppin að vera atvinnulaus og svo í fæðingarorlofi en það gaf okkur svo mikinn tíma til að bralla eitthvað saman meðan allir aðrir voru í vinnu. Sumarið okkar í Hafnarfirðinum, ég með bumbu og þú með skalla, er ógleymanlegt. Þú varst sú fyrsta sem fékkst að heyra þegar litla vinkona þín fæddist og þú komst til okkar þegar hún var bara sex klukkustunda gömul og ég svaf. Seinna, þegar veikindin voru farin að taka sinn toll, vakti ég yfir þér.
Hugrakkari konu hef ég ekki hitt og ég horfði á þig standa andspænis meðferðum, aðgerðum, bakslögum og sjálfum dauðanum en þú hvikaðir hvergi. Vonin gaf þér styrk sem brást þér aldrei. Við gerðum ótrúlegustu hluti og ég lofaði að ég myndi fylgja þér hvert sem þetta tæki þig. Sem ég og gerði. Við göldruðum grænt, kyrjuðum möntrur og kölluðum fram peninga, okkur dreymdi skjaldbökur og við lásum í tunglið. Hvað sem er, allt sem þú taldir að gæti hjálpað. En oft gat ég ekki annað en staðið til hliðar, verið vitni og dáðst að þessari vinkonu minni í stærsta verkefni sem hægt er að leggja á nokkra manneskju. Það voru mín forréttindi að fylgja þér. Vinátta okkar var skrifuð í skýin, sagðir þú einu sinni við mig og ég held þú hafir rétt fyrir þér. Einu sinni hélst þú mér uppi og ég vona að ég hafi náð að gera það sama fyrir þig.
Það er von mín að dætur okkar og synir vaxi úr grasi saman og ég veit að þú munt mæta 15 ára Kolbrúnu í anda á gula blómaenginu eins og þú sást svo oft fyrir þér og sagðir mér frá.
Ég pantaði handa þér hlýjar móttökur í löndum morgunroðans og ég tel nokkuð víst að þú sért búin að slá upp partíi þar núna. Ég skála við þig héðan úr þessari tilveru.
„Au revoir.“
Rósa.