Elías Sveinbjörn Sveinbjörnsson fæddist í Reykjavík 20. janúar 1943. Hann lést 4. apríl 2025 á Heilbrigðisstofnun Suðurlands.
Foreldrar hans voru hjónin Sveinbjörn Þórarinn Einarsson frá Jaðri í Vestmannaeyjum, f. 19. júlí 1919, d. 8. desember 1995, og Kristín Elíasdóttir frá Oddhól á Rangárvöllum, f. 23. desember 1918, d. 22. maí 2005.
Elías var elstur þriggja systkina, hin eru Einar, f. 10. júlí 1947, og Kristín Steinunn, f. 7. október 1950.
Elías kvæntist 2. mars 2002 Eddu Vilborgu Guðmundsdóttur, f. 23. desember 1943, hún er dóttir Guðmundar Ágústssonar, f. 2. september 1918, d. 2. desember 2001, og Magneu Hannesdóttur Waage, f. 21. desember 1922, d. 4. júlí 2017. Bæði voru frá Vestmannaeyjum.
Edda á tvö börn frá fyrra hjónabandi: Lindu Björk Holm, f. 18. júní 1961, og Arnar Serafim Holm, f. 14. desember 1964. Elías átti fyrir tvö börn, Berglindi Höllu, f. 23. desember 1967, og Guðmund Magnús, f. 8. febrúar 1972.
Barnabörn Elíasar eru orðin tíu og barnabarnabörnin eru tvö.
Elías fór snemma á sjóinn eða 14 ára, fyrst á fiskibátum en síðan á millilandaskipum og öðrum skipum. Í allmörg ár vann hann á varðskipum Landhelgisgæslunnar og tók virkan þátt í þorskastríðinu svonefnda. Eftir að hann hætti á sjónum starfaði hann í Áburðarverksmiðjunni allt þar til henni var lokað. Síðustu starfsárin vann hann á geðdeild Landspítalans.
Elías var mikill músíkunnandi og hafði fallega rödd. Árið 1986 gekk hann í Karlakórinn Fóstbræður þar sem hann söng 1. bassa. Starfið í kórnum var honum mikilvægt; góður söngur og góður félagsskapur þar sem kórfélagar tengdust sterkum böndum.
Elías og Edda höfðu stefnt að því að þegar starfsævinni lyki myndu þau flytja úr borginni og það gerðu þau og áttu góð ár á Flúðum í Hrunamannahreppi.
Útför Elíasar fer fram frá Skálholtskirkju í dag, 14. apríl 2025, klukkan 14.
Streymt verður frá útförinni.
Þegar Elías Sveinbjörnsson og eiginkona hans, sem reyndar er systir mín, fóru á eftirlaun létu þau gamlan draum rætast: að flytjast út á land. Þau reistu sér hús á Flúðum án þess þó að hafa nein tengsl við þá byggð önnur en þau að Elías hafði í æsku verið í sveit á bæ í Biskupstungunum. Þessir rótgrónu borgarbúar áttu einfaldlega þá ósk heitasta að vera fjarri borgarskarkalanum.
Þetta reyndist góð og skynsamleg ráðstöfun. En hefðu þau brugðið á eitthvert annað ráð er ég viss um að það hefði líka reynst gott og skynsamlegt. Þau hefðu getað átt gott líf hvar sem er á landinu. Þau höfðu nefnilega hvort annað.
Í mínum augum var helsti kostur Elíasar sá hve einlæglega hann dáði konu sína. Hann sannaði það daglega með orðum sínum og gjörðum að það er ekkert eðlilegra en að vera áttræður og ástfanginn. Ég tel fullvíst að hún hafi borið sama hug til hans en hún flíkaði því kannski ekki í sama mæli og hann. Elías hætti seint að dásama þá heppni sína að hafa dottið í þennan lukkupott hjónabandsins.
Elías vann ýmis störf um ævina, fór til dæmis strax á unglingsaldri til sjós. Þá sjaldan hann rifjaði upp gamla tíma staldraði hann einna helst við árin þegar hann var í Landhelgisgæslunni og sigldi um á varðskipum. Þar bar vitaskuld hæst Þorskastríðið gegn Bretum sem Elías tók virkan þátt í. Mér er minnisstæð ljósmynd af honum þar sem hann stóð við stýrið í brúnni ásamt skipherra sínum.
Elías var um árabil í karlakórnum Fóstbræðrum enda söngmaður góður. Hann var félagslyndur að eðlisfari og á Flúðum kynntist hann snemma nágrönnum sínum á svipuðu reki. Hópur roskinna manna hafði þann vana að hittast reglulega í morgunkaffi í einu búð staðarins. Þegar kaffihorninu þar var lokað tók einn úr hópnum sig til og breytti bílskúrnum sínum í kaffistofu fyrir kunningjana. Þar er nú einum kaffigestinum færra.
Mér er næst að halda að viska ellinnar felist í einfaldleikanum, að geta glaðst yfir því smáa þrátt fyrir minnkandi þrótt og vaxandi stirðleika á öllum sviðum. En talandi um það smáa: Elías fékk sér lítinn hund sem hann ól af slíkri alúð og natni að dýrið vann til verðlauna á hundasýningu. Þannig gekk lífið sinn vanagang og ekki undan neinu að kvarta, lengi hægt að una við fjölskylduna, vinina, náttúruna og ástina – þar til heilsan brast.
Því tók Elías af karlmennsku eins og öðru í lífinu. Hann vissi að hverju dró og sá ekki ástæðu til að hafa um það mörg orð.
Nú er þessi hógværi öðlingur allur. Þar fór drengur góður.
Ágúst Guðmundsson.
Elskulegur mágur minn, Elías Sv. Sveinbjörnsson, kvaddi þessa jarðvist 4. apríl. Það er líklega um aldarfjórðungur síðan þau Edda systir fóru að rugla saman reytum og Elli kom inn í fjölskylduna. Það var strax ljóst að hér var mikill öðlingur á ferð. Auk þess var greinilegt að honum þótti undurvænt um Eddu og ætlaði þeim gott líf saman. Það gekk sannarlega eftir. Þau hjónin áttu afar laglega íbúð á Kleppsveginum og þangað var notalegt að koma í Þorláksmessuafmæli Eddu. Síðan byggðu þau gullfallegt hús á Flúðum og fluttu þangað alfarið þegar þau höfðu hætt að vinna. Þau nostruðu við heimilið og hjálpaðist þar að einstök smekkvísi Eddu, natni Ella og snyrtimennska þeirra beggja. Á meðan móðir okkar lifði fór hún reglulega og gisti nokkrar nætur hjá Eddu og Ella. Þau dekruðu við hana og hún naut þessara heimsókna mjög. Eftir að hún féll frá tóku Edda og Elli upp þann sið að bjóða fjölskyldu Eddu í árlega sumargleði. Elli mætti okkur alltaf glaðbeittur og virtist njóta þess að taka á móti hópnum. Síðasta skipti sem við hittumst var um jólaleytið í fjölskylduboði hjá mér. Þá var Elli búinn að ganga í gegnum erfiða aðgerð og höfðu veikindin sett mark á hann. Hann var engu að síður enn sami maðurinn, glettinn og hlýr. Ég mun sakna þessa ljúfa viðmóts. Missir Eddu er mikill og ég bið henni styrks og blessunar.
Elísabet.
Svo er því farið:
Sá er eftir lifir
deyr þeim sem deyr
en hinn dáni lifir
í hjarta og minni
manna er hans sakna.
Þeir eru himnarnir
honum yfir.
(HP)
Leiðir okkar þriggja lágu saman í Gagnfræðaskóla Vesturbæjar í húsi Stýrimannaskólans gamla. Eftir Gaggó Vest skildi leiðir hvað skólagöngu varðar en vináttubönd drengjanna hafa haldið alla tíð. Elli fór að vinna, eins og það var kallað. Við fiskvinnslu og síðar mest á sjó. Við veiðar, fragtsiglingar, á rannsóknaskipi og mörg ár á varðskipum. Alls staðar harðduglegur, vandvirkur og góður félagi. Hann var maður hávaxinn og myndarlegur á velli.
Elli var að nálgast fertugt er hann vann glímuna við Bakkus. Það var gæfuspor. Í hógværð sagði hann síðar við vin sinn: Ætlarðu ekki að fara að hætta að …? Viltu koma með á fund? Sannarlega var hann glaður er vinurinn fór loks að ráðum hans.
Áhugamálin voru mikilvæg. Hann gekk til liðs við Karlakórinn Fóstbræður og í hestamennsku endurnýjuðust tengsl við náttúruna frá bernskuárum í sveit á Gýgjarhóli.
Í ævisögu Guðmundar Kærnested, skipherra hjá Landhelgisgæslunni, kemur fram að Elli var maður sem hann treysti. Elli var á víraspilinu á Tý 6. maí 1976 þegar togvíraklippurnar ógnuðu breskum togurum og herskipið Falmouth sigldi af fullu afli á varðskipið – beinlínis til að taka það úr umferð. Týr lagðist nánast á hliðina og mennirnir við spilið fóru á kaf í sjó. Harðfylgi þeirra kom í veg fyrir mannskaða. Eflaust voru þetta háskalegustu átök þorskastríðanna. Elli vann áfram á varðskipum til 1981. Kominn í land vann hann um árabil í Áburðarverksmiðjunni í Gufunesi og eftir að starfsemi hætti þar vann hann til eftirlaunaaldurs sem starfsmaður á geðdeild Landspítalans.
Mikið gæfuspor var það er þau Edda Guðmundsdóttir tóku saman. Þau bjuggu í Reykjavík en létu drauma rætast og eignuðust hús og fallegt heimili á Flúðum. Á síðasta ári kom í ljós mein sem Elli óttaðist þó ekki. Eftir aðgerð leit út fyrir betri tíma en á síðustu mánuðum seig á ógæfuhliðina. Hann tók því með karlmennsku og stillingu. Við leiðarlok minnumst við æskuvinar með hlýhug og þakklæti. Eddu og ástvinum öllum vottum við samúð okkar. Vertu sæll vinur og ljósinu falinn.
Jón Ólafsson, Þorvaldur Jónasson og fjölskyldur.