Spenna Jóhannes Haukur Jóhannesson og Ólöf Halla Jóhannesdóttir í hlutverkum sínum í Kulda. Fjórir spennuþættir verða sýndir um páskana.
Spenna Jóhannes Haukur Jóhannesson og Ólöf Halla Jóhannesdóttir í hlutverkum sínum í Kulda. Fjórir spennuþættir verða sýndir um páskana.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Það er hrollvekjandi þráður sem fer í gegnum alla söguna eins og Yrsa gerir svo ofsalega vel. Það getur auðvitað verið taugatrekkjandi að horfa á en ég held að þegar fólk er búið með lambalærin og páskaeggin verði gott að fá smá taugakippi og leyfa adrenalíninu að flæða

Höskuldur Daði Magnússon

hdm@mbl.is

„Það er hrollvekjandi þráður sem fer í gegnum alla söguna eins og Yrsa gerir svo ofsalega vel. Það getur auðvitað verið taugatrekkjandi að horfa á en ég held að þegar fólk er búið með lambalærin og páskaeggin verði gott að fá smá taugakippi og leyfa adrenalíninu að flæða. Ég held að þetta sé fullkomið efni til að sýna yfir páskana,“ segir Erlingur Óttar Thoroddsen kvikmyndaleikstjóri.

Erlingur vísar þarna til Kulda sem hann gerir eftir sögu Yrsu Sigurðardóttur. Kvikmyndin Kuldi var sem kunnugt er frumsýnd árið 2023 og naut mikilla vinsælda í íslenskum kvikmyndahúsum, sat í nokkrar vikur í efsta sæti aðsóknarlistans, og fékk sex tilnefningar til Edduverðlaunanna.

Nú ber svo við að gerð hefur verið ný og lengri útgáfa af myndinni fyrir sjónvarp. Alls er um að ræða fjóra 40 mínútna þætti sem sýndir verða í Ríkissjónvarpinu um páskana. Sýningar verða fjögur kvöld í röð, frá skírdegi og fram á páskadag, en þættirnir verða svo aðgengilegir í gegnum sjónvarpsveitur og spilara.

Leikstjórinn segir að svona nokkuð hafi ekki verið gert á RÚV áður, það er hvort tveggja að kvikmynd sé breytt í fjögurra þátta seríu og að hún sé sýnd fjögur kvöld í röð. „Þetta er því pínu tilraun fyrir alla sem koma að þessu,“ segir hann.

Hann segir að möguleiki á lengri útgáfu hafi opnast snemma í ferlinu við gerð myndarinnar. Eins og fleiri sögur Yrsu gerist Kuldi á tveimur tímasviðum, annars vegar í nútímanum og hins vegar á afbrotaheimili fyrir unglinga árið 1984.

Teygja kvikmyndina út

„Við tókum myndina í tveimur hollum, sumarið 2021 og svo aftur yfir veturinn. Eftir sumartökurnar áttuðum við okkur á því að við vorum búin að taka upp mynd í fullri lengd. Við ákváðum þó að halda sömu stefnu og lögðum upp með að ef myndin yrði á endanum mjög löng væri hægt að gera lengri útgáfu seinna.

Síðan enduðum við á að vera með mynd sem var alveg rúmir þrír tímar. Það var reyndar sú útgáfa sem ég var ánægðastur með en hún hefði aldrei gengið. Því klipptum við hana niður í um hundrað mínútur,“ segir leikstjórinn.

Hann segist þó ekki hafa getað slitið sig frá þeirri hugsun að út af stæði fullt af góðu efni og að vel athugðu máli hentaði best að gera fjóra fjörutíu mínútna þætti. Skilin á milli hvers þáttar voru frekar augljós, segir Erlingur.

„Ég var mjög ánægður með myndina eins og hún var í bíó. En það er alltaf verið að rífa myndirnar frá okkur leikstjórum, maður er aldrei alveg búinn, og því er gaman að fá tækifæri til að vinna þetta aðeins öðruvísi. Þarna náum við að teygja myndina út og leyfa henni að anda.“

Hann segir að fullt af nýjum atriðum bætist nú við og aðalleikararnir Jóhannes Haukur Jóhannesson og Elín Hall fái að skína aðeins skærar í þessari útgáfu. Þá verði einnig bæði fleiri og lengri senur með þeim Selmu Björnsdóttur og Halldóru Geirharðsdóttur sem báðar voru tilnefndar til Edduverðlauna fyrir leik sinn í Kulda.

Erlingur hefur haft í nógu að snúast við að kynna Kulda úti í heimi eftir að myndin var frumsýnd hér heima. Hann er þó fyrir löngu farinn að leggja drög að næstu verkefnum.

Fleiri verkefni með Yrsu

„Jájá, ég er að vinna með Yrsu í svolitlu en ég má ekki segja mikið um það. Ég var mest stressaður yfir því hver viðbrögð Yrsu yrðu við Kulda enda var ég að aðlaga bók hennar að bíóforminu. Við náðum hins mjög vel saman og hún var ánægð með myndina. Við höfum síðan ferðast svolítið saman og kynnt myndina erlendis. Á þessum ferðalögum hafa komið ýmsar hugmyndir sem við getum vonandi sagt frá síðar.

Annars er alltaf fullt af verkefnum í gangi, þetta veltur allt á því að fá inn leikara eða fjármagn. Nokkur þessara verkefna eru komin það langt að aðeins er beðið eftir vilyrði um fjármagn til að geta lagt af stað.“

Höf.: Höskuldur Daði Magnússon