Svanbjörn Jón Garðarsson fæddist 14. mars 1950. Hann lést 29. mars 2025.

Útför hans fór fram 11. apríl 2025.

Mín fyrstu kynni af mági mínum voru er ég var 13 ára, en þá höfðu þau Sísí og Jón gefið mér folald í fermingargjöf sem fékk nafnið Gutti grís. Ég fór vestur í Hjaltadal en þá bjuggu þau Sísí og Jón á Ingveldarstöður. Þarna var ég um tíma að fortemja Gutta undir haldgóðri leiðsögn Jóns. Þarna leit maður á Jón sem mikinn hestamann og bónda og ég sogaði í mig viskuna frá honum. Síðar fór ég í starfskynningu til Jóns, var þá sennilega í 8. eða 9. bekk. Þá bjuggu þau Jón og Sísí á Sauðárkróki og var Jón með hesthús á Hofi og var ég að kynna mér það sem hann hafði fram að færa tengt tamningum. Síðar fluttu þau Sísí og Jón á Neðri Ás og byggðu sér þar hús og fóru að búa. Fyrst með nokkrar beljur, hross og kindur. Þar var maður tíður gestur með fjölskylduna, oft tengt veiði í Hjaltadalsánni.

Árlega fórum við vestur til að aðstoða við sauðburð og fleira og vinnu við að koma upp tjaldstæðinu Ásflöt, sem er í dag sumardvalarstaður Ásflatameðlima eins og þeir eru kallaðir. Jóni þótti alltaf mjög vænt um flötina og naut þess að sjá fólkið sitt hlaða batteríin í þessari sólarvin Hjaltadals. Þau Sísí og Jón fluttu síðar til Dalvíkur í Kirkjuveginn og undu sér vel þar. Jón komst fljótt inn í vinahóp sem kallaði sig „Tíkallarnir“ en þeir stunda holla útivist. Einnig var Jón kominn með fingurna í fjárbúskap með Otta Jak. og brölluðu þeir margt saman.

Góðar minningar á ég um Jón er hann kom með mér á grásleppu eða strandveiðitúra. Hann hafði sérlega gaman af því.

Eitt af því góða í fari Jóns var það hvað hann var orðvar, hlustaði meira en að segja eitthvað óhugsað. Man alltaf eftir því er hann hélt ræðu í brúðkaupsveislu okkar Lilju og var að tala um kvenfólk, en sagði svo í lokin að sér hefði alla tíð fundist gömlu merarnar bestar og beindi þá orðum sínum til mömmu og tengdamömmu.

Hvíl í friði kæri Jón.

Innileg samúð elsku Sísí og fjölskylda.

Júlíus Magnússon og fjölskylda.

Elsku afi okkar, það er sárt að hugsa til þess að nú sértu farinn frá okkur. Við munum aldrei gleyma dýrmætu stundunum með þér. Þú varst besti afi sem við gátum hugsað okkur. Það var endalaust hægt að plata þig í alls konar vitleysu og þú varst alltaf til í að gera hvað sem er fyrir okkur. Það voru aldrei nein vandamál, bara lausnir, og jú, hlátur og grín. Það var best í heimi að koma til ykkar í sveitina í Skagafjörðinn. Þar var alltaf nóg að gera. Þar fórum við oft í hesthúsin með þér, á fjórhjólið, að binda rúlluenda og rúntuðum um á gamla súbbanum. Eftir fjör dagsins var svo veislumatur kominn á borð heima í Neðra-Ási.Við hugsum oft til þess hvað við vorum heppin að þú og amma ákváðuð að flytja nær okkur 2018 og með því græddum við helling af tíma og samverustundum með ykkur. Þú varst alltaf til í að brasa eitthvað með okkur, hvort sem það var að spila, skutlast hingað og þangað, fara í berjamó eða fjöruferð, þrífa pottinn fyrir pottaferð, ísferð í Olís eða hlæja, spjalla og segja sögur. Það var líka einstaklega gaman þegar við fórum öll saman út til Kanarí, páskana 2023.

Afi, þú varst bestur í alla staði, einstaklega góður við okkur barnabörnin, skilningsríkur, stríðinn, hjálpsamur, flugklár, hnyttinn og skemmtilegur. Þú fórst frá okkur alltof snemma og varst algjör hetja og fyrirmynd í gegnum þessi erfiðu veikindi og það sáu allir. Það er erfitt þegar líkaminn gefur sig og hausinn er enn í toppstandi. Það var alltaf örstutt í hláturinn og grínið. Þú elskaðir að heyra sögur og fréttir frá okkur og við vissum fátt betra en að heyra skemmtisögur frá þér. Þú ert og verður alltaf fyrirmynd okkar. Við erum endalaust þakklát fyrir þig og allar minningarnar saman. Við vitum að þú munt fylgjast með okkur áfram og leiðbeina okkur. Takk fyrir allt, elsku afi okkar, við elskum þig endalaust.

Þín trippi,

Íris Björk, Hákon Daði og Katla Hrönn.