Friðrik Ólafsson fæddist 26. janúar 1935 í Reykjavík. Hann lést á líknardeild Landspítalans 4. apríl 2025.
Foreldrar hans voru Ólafur Friðriksson, f. 1905, og Sigríður Ágústa Dóróthea Símonardóttir. Systkini Friðriks eru Margrét, f. 1930, og Ásta, f. 1932.
Eiginkona Friðriks er Auður Júlíusdóttir, f. 1941. Dætur þeirra eru tvær: 1. Bergljót Friðriksdóttir, f. 1962, maki Friðrik Halldórsson. 2. Áslaug Friðriksdóttir, f. 1969. Barnabörnin eru fimm: Auður Friðriksdóttir, f. 1984, Esther Friðriksdóttir, f. 1994, Íris Friðriksdóttir, f. 1997, Brynja Björt Óskarsdóttir, f. 1998, og Friðrik Snær Óskarsson, f. 2001. Barnabarnabörn eru Ugla, Yrsa, Ylfa Sigríður, Iðunn og Bergur.
Friðrik lauk stúdentsprófi frá MR 1955 og lögfræðiprófi frá HÍ árið 1968. Hann var fulltrúi í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu frá 1968-1974, forseti Alþjóðaskáksambandsins 1978-1982, ritstjóri Lagasafns Íslands 1982-1983 og skrifstofustjóri Alþingis 1984-2005.
Friðrik átti stórbrotinn skákferil að baki og varð sex sinnum Íslandsmeistari í skák, fyrst árið 1952. Hann varð Norðurlandameistari 1953 og 1971, alþjóðlegur skákmeistari 1956 og fyrsti íslenski stórmeistarinn í skák árið 1958. Hann varð sigurvegari á skákmótinu í Hastings 1955 og 1956, í Beverwijk í Hollandi 1959, í Marianske Kasne í Tékkóslóvakíu 1961, á alþjóðlegum skákmótum í Reykjavík 1966, 1972 og 1976 og á Wijk an Zee í Hollandi 1975. Friðrik veitti forstöðu Skákskóla Friðriks Ólafssonar 1982-1984.
Friðrik var sæmdur riddarakrossi Hinnar íslensku fálkaorðu 1972 og stórriddarakrossi Hinnar íslensku fálkaorðu 1980. Árið 2015 var hann útnefndur heiðursborgari Reykjavíkur og gerður aðalheiðursfélagi Alþjóðaskáksambandsins. Friðrik gaf út þrjár bækur um skák.
Útför Friðriks fer fram frá Hallgrímskirkju í dag, 14. apríl 2025, klukkan 11. Útförinni verður streymt á
https://www.streyma.is
Elsku pabbi, það er víst komið að kveðjustund.
Það var alltaf glatt á hjalla í kringum þig. Þú hafðir svo einstaklega góða og þægilega nærveru. Það er margs að minnast úr bernsku okkar systra og ekki síst úr ferðalögum áður fyrr hvort sem það tengdist skákinni eða öðru.
Seinni árin notaðir þú vel til að sinna hugðarefnum þínum svo sem að skoða uppruna og sögu skákarinnar sem leiddi þig inn á aðrar áhugaverðar brautir.
Þú gafst þér alltaf tíma til að fylgjast með hvað við afkomendurnir vorum að gera og sýndir því áhuga. Alltaf gott að leita til þín til að fá góð ráð og hvatningu. Góð fyrirmynd fyrir okkur öll.
Elsku pabbi, þín verður saknað en þegar við hugsum til baka eigum við svo margar fallegar minningar af samverustundum okkar til að ylja okkur við og það munum við svo sannarlega gera.
Hvíl í friði.
Kveðja, þínar dætur,
Bergljót og Áslaug.
Við kveðjum tengdaföður minn eftir stutt veikindi.
Ég kynntist Friðrik árið 1979 þegar við Bergljót fórum að hittast en við vorum mikið í Bauganesinu þar sem Friðrik og Auður áttu gott heimili. Fljótlega tókum við nafnarnir eina skák. Taflið var reyndar styttra en ég hafði áætlað, ef ég man rétt þrír leikir, ca. 30 sekúndur, og ég var fallinn. Þetta var eina skákin sem við áttum saman. Hann talaði aldrei um afhroð mín að fyrra bragði og það lýsti vel hans innri manni.
Ég held að fáir menn hafi náð jafn langt í að sætta aðila í skákheiminum gegnum forystu hans í FIDE en hann náði á sinn einstaka hátt að róa deilur sem kristölluðust í gegnum skákina. Það finnst mér ein bestu merki þess hversu góður maður hann var.
Annað var húmorinn. Hann hafði gaman að grínast og fann hann oftast spaugilega hlið að hinum ýmsu málum. Hann gat alltaf fundið jákvæða hluti og lét það neikvæða fram hjá sér fara. Það voru miklir hæfileikar.
Nú kveðjum við alveg einstakan mann.
Friðrik Halldórsson.
Minning um afa Friðrik.
Margir þekktu hann sem skákmanninn Friðrik, en við systurnar þekktum hann einfaldlega sem afa Friðrik.
Okkur fannst alltaf gaman að sjá hann í sjónvarpinu þegar hann vann sem skrifstofustjóri Alþingis – við kveiktum oft bara til að heilsa honum. En bestu stundirnar voru þegar hann kenndi okkur mannganginn á fína skákborðinu sínu … og leyfði okkur að vinna. Alltaf með klassíska tónlist í bakgrunni og í afaskóm. Hann var ótrúlega klár og skemmtilegur, með gestaþrautir á kantinum, og mögulega er það honum að þakka að við systurnar höfum svipaða ást á sudoku og lógískum þrautum.
Afi var einstaklega hlýr, orðheppinn og hnyttinn maður. Við eigum eftir að sakna prakkarahlátursins og skemmtilega afa okkar.
Auður, Esther og Íris.
Elsku afi okkar, Friðrik Ólafsson, er fallinn frá. Þrátt fyrir mikinn söknuð verðum við ævinlega þakklát fyrir allar þær stundir sem við áttum saman og allt það sem hann kenndi okkur.
Allir þeir sem þekktu afa vita hversu einstakur hann var. Afi var hlýr og góður maður, alltaf tilbúinn að veita hjálp og góð ráð. Hann var einstaklega vel að sér í mörgu, eins og stærðfræði, og gátum við systkinin alltaf komið og fengið hjálp. Þetta átti við um allt, við verðum alltaf þakklát fyrir alla þá hjálp sem við fengum og allt það sem við lærðum af honum, að ógleymdum mannganginum að sjálfsögðu. Betri fyrirmynd er erfitt að eiga og erum við heppin að hafa haft hann í lífi okkar í öll þessi ár.
Við munum ætíð vera þakklát fyrir að eiga hann sem afa okkar. Við munum alltaf minnast hlátursins hans, hlýjunnar í röddinni og þess hvernig hann bar virðingu fyrir öllum.
Hvíl í friði.
Brynja og Friðrik.
Ég var tíu ára gamall þegar ég tók fyrst eftir honum. Þetta hófst allt með fréttum frá millisvæðamótinu í Portoroz 1958, sem voru fyrirferðarmiklar í útvarpi og blöðum og ég fylgdist af áfergju með góðu gengi hans á mótinu. Það var eitthvað heillandi við þennan skákheim sem blasti við mér og Friðrik átti sinn stóra þátt í því. Hann var góð fyrirmynd.
Ég reyndi að lesa allt um skák sem ég komst yfir og skoðaði skákir Friðriks sérstaklega vel. Hann tefldi skemmtilega og kryddaði skákirnar með alls konar brellum. Tímahrakið átti oft sinn þátt í því.
Það var mikill hvalreki þegar Friðrik fór að skrifa skákþætti í dagblaðið Tímann. Þá kynntist ég betur hugsunarhætti hans og skoðunum í skákinni. Allt þetta las ég samviskusamlega og klippti síðan út úr Tímanum og geymdi vandlega í vindlakassa.
Svo liðu árin. Ég hitti hann fyrst árið 1965 í skákmóti sem Freysteinn Þorbergsson var aðalhvatamaður að. Friðrik kom mér fyrir sjónir sem háttvís, glettinn og vingjarnlegur maður. Við skákborðið reyndist hann mér erfiður andstæðingur. Eitthvað varð til bragðs að taka. Ég lagðist því í rannsóknir á tapskákum hans og reyndist það góð ákvörðun. Ég fór að sjá til sólar þegar fundum okkar bar saman.
Við fórum saman á mörg skákmót erlendis þegar fram liðu stundir en Ólympíumótið í Havana á Kúbu 1966 er mér minnisstæðast þeirra allra. Þar var Friðrik kóngurinn sem dró okkur inn í úrslitin. Hann tefldi vel en lenti stundum í tímahraki og þá engdist maður sundur og saman enda bara strákur á stuttbuxum eins og einn góður maður sagði. Allt var þetta með miklum ólíkindum. Hver sveit fékk bíl og bílstjóra ásamt leiðsögumanni. Við fengum hana Alínu, sem varð vitanlega yfir sig hrifin af okkar manni en hann stóðst allar atlögur með sóma. Ekki skemmdi það fyrir að hitta Fidel Castro við setningu mótsins. Veislur voru á hverju kvöldi fyrir þá sem ekki þurftu að tefla daginn eftir. Allir voru sammála um þetta væri toppurinn. Næstu Ólympíumót voru ekki svipur hjá sjón.
Margs er að minnast. Við fórum oft tveir saman á mót utan landsteina. Hann var góður ferðafélagi og það var jafnan ánægjulegt að sitja yfir góðum kvöldverði og ræða um skákir dagsins og andstæðinga morgundagsins eða bara um heima og geima. Stundum var okkur boðið í veislu þegar frí var daginn eftir en þær voru sjaldnast eftirminnilegar.
Eitt sinn var okkur boðið til sendiherra Íslands. Þetta var hið virðulegasta boð þótt fámennt væri. Um var að ræða langt glerborð. Sendiherrann sat fyrir enda borðsins og við hvor sínum megin. Þegar máltíðin stóð sem hæst átti sér stað smá „fingurbrjótur“ hjá einum okkar með þeim afleiðingum að vænn skammtur af hrísgrjónum rann út af disknum og valt eftir endilöngu glerborðinu. Fyrir vikið varð borðhaldið bara enn skemmtilegra.
Tifið í klukkunni er þagnað. Ég þakka fyrir langa og góða vináttu og sendum við hjónin Auði, Bergljótu og Áslaugu innilegar samúðarkveðjur. Guð blessi minningu Friðriks Ólafssonar.
Guðmundur Sigurjónsson og Stella Gróa Óskarsdóttir.
Það var fullkominn dagur fyrir nokkrum vikum. Hægra megin við mig sat mikill heiðursmaður, hinn bráðum níræði og goðsagnakenndi Friðrik Ólafsson. Hugsun hans var gædd visku. Hann talaði af hógværð og rifjaði upp hlýjar minningar um atburði sem spanna mun lengri tíma en ég hef lifað. Á meðan greindi hann mjög flókin skákafbrigði á skjánum á símanum mínum.
Eftir hina rómuðu viðureign Fischers og Spasskís tryggði Friðrik Ólafsson Íslandi mikilvæga stöðu í skákheiminum og þjónaði stoltur bæði Alþjóðaskáksambandinu (FIDE) og heimalandi sínu.
Sem einn af þeim fáu sem gegnt hafa stöðu forseta FIDE í 100 ára sögu samtakanna setti hann besta mögulega fordæmi fyrir mig, sem einn af eftirmönnum hans, um hvernig á að þjóna öllu skáksamfélaginu með sanngirni og skilvirkni að leiðarljósi. Allt skáksamfélagið og ég þökkum þér fyrir það, kæri herra forseti.
Sem einn af fremstu skákmönnum síns tíma hefur Friðrik Ólafsson veitt yngri kynslóðum íslenskra og evrópskra skákiðkenda innblástur til að keppa við þá allra bestu. Hann hefur miðlað reynslu sinni til hinna yngri – nokkuð sem sérhver skákmaður í fremstu röð ætti að taka sér til fyrirmyndar.
Stórbrotnar minningar um hann munu lifa að eilífu í hjörtum allra skákunnenda og vina hans. Hvíl í friði, herra forseti.
Arkady Dvorkoich,
forseti FIDE.
Frá okkur er gengin ein mesta hetja íslenskrar nútímasögu og einn merkasti sonur íslenska lýðveldisins. Við hjá Taflfélagi Reykjavíkur syrgjum nú fyrsta stórmeistara Íslands og goðsögn íslenskrar skáksögu.
Sjálfur heyrði ég fyrst af Friðriki sem ungur skákmaður – annað var ekki hægt. Eins og flestir eignaðist ég bókina „Við skákborðið í aldarfjórðung“ og drakk hana í mig. Þótt mér væri ljóst að hann væri stórmeistari í orðsins fyllstu merkingu áttaði ég mig ekki á því hversu mikil goðsögn hann var – það skildi ég síðar á lífsleiðinni.
Fyrstu raunverulegu kynni okkar áttu sér stað árið 2001 á Minningarmóti Jóhanns Þóris Jónssonar. Friðrik hafði þá ekki teflt á kappskákmótum lengi, en vildi heiðra minningu Jóhanns. Við mættumst seint á mótinu. Fram að því hafði mér gengið glimrandi vel, var taplaus – en fyrsta og eina tapið kom gegn Friðriki, sem auðvitað sneri á mig þegar hann var kominn í tímahrak.
Sú viðureign markaði upphaf að okkar persónulegu kynnum. Eftir skákina heilsaði Friðrik mér alltaf með virktum. Mér leið eins og við hefðum þekkst í áraraðir. Hann gerði aldrei mannamun – kom fram við alla af virðingu. Nærvera hans var ávallt hlý og gefandi. Síðar fékk ég að heimsækja hann á „kóngsvænginn“, eins og hann kallaði sinn hluta heimilisins á Kirkjusandi. Fyrir tilstilli Hrafns Jökulssonar fékk ég þann heiður að slá inn fjölda skáka meistarans úr handskrifuðum stílabókum, sem höfðu varðveist ótrúlega vel þrátt fyrir áratugi í geymslu.
Friðrik bjó yfir einstöku minni og yfirburðayfirsýn yfir skáksöguna. Eftir að kynni okkar urðu nánari þótti mér vænt um tölvupósta og símtöl þar sem hann benti á skákir íslenskra skákmanna og fann gjarnan hliðstæður við eigin viðureignir gegn sterkum skákmönnum liðinna áratuga.
Það er óhugsandi að ræða Friðrik án þess að nefna tryggð hans við Taflfélag Reykjavíkur. Þar ólst hann upp sem skákmaður, tefldi sín fyrstu mót og hélt ævilanga tryggð við félagið. Hann er trúlega sá félagsmaður sem lengst hefur verið samfleytt í félaginu.
Tryggð Friðriks verður seint endurgoldin, en félagið mun þó um ókomna tíð tefla í Friðrikssal, honum til heiðurs, eins og tilkynnt var á 90 ára afmæli hans í janúar síðastliðnum. Friðrikssalur ber nafn sitt með stolti.
Afrek Friðriks á skákborðinu munu lifa um ókomna tíð. Hann lagði fleiri heimsmeistara en nokkur annar Íslendingur og komst alla leið í áskorendamótið 1959. Þrátt fyrir það voru mannkostir hans engu síðri. Hann var alltaf vel til fara, hafði næman húmor og persónutöfra sem erfitt er að lýsa. Einstakur maður sem kom fram af heiðarleika og sýndi hversu langt má komast með auðmjúkri, virðulegri framkomu.
Við í Taflfélagi Reykjavíkur kveðjum Friðrik með djúpu þakklæti. Án hans væri félagið ekki á þeim stalli sem það er í dag.
Ingvar Þór Jóhannesson, formaður Taflfélags Reykjavíkur.
Friðrik Ólafsson hefur nú kvatt eftir langan og giftusamlegan æviferil. Við vorum nánast jafnaldrar, fæddir á sama árinu, og leiðir okkar lágu saman á hluta æviskeiðsins. Samtímis námum við hvor í sínum menntaskóla þeirrar tíðar hérlendis, hann frá æskuheimili sínu syðra, en ég í hópi margra Austfirðinga nyrðra.
Á Akureyri lágu leiðir okkar Friðriks fyrst saman á útmánuðum 1954 þangað sem hann kom ásamt Bjarna Felixsyni bekkjarbróður sínum í opinberum nemendaskiptum. Friðrik, þá kornungur, var orðinn Norðurlandameistari í skák. Ég kunni mannganginn og tók að mig minnir þátt í fjöltefli MA-nemenda við Friðrik dagana sem hann gisti þar nyrðra. Skömmu síðar hittumst við í MR, þangað sem ég fór sömu erinda og hann norður. Eftir það bar fundum okkar sjaldan saman uns hann var ráðinn skrifstofustjóri Alþingis 1984, starf sem hann rækti af samviskusemi þótt áhuginn væri áfram mestur á skákíþróttinni og þrætulist stjórnmálanna að mestu utan hans kjörsviðs.
Svo vildi til að leið okkar lá saman í opinberri heimsókn sendinefndar íslenskra þingmanna til Japans haustið 1991. Friðrik var þar hægri hönd Salome Þorkelsdóttur þá forseta Alþingis, sem fór fyrir nefndinni. Svo sterkur sem hann var við skákborðið gegndi hann starfi sínu fyrir Alþingi af mikilli hógværð. Þannig var og framganga hans hvar sem hann fór. Við minnumst Friðriks sem glæsilegs brautryðjanda á vettvangi skáklistarinnar.
Hjörleifur Guttormsson.
Margir eru kallaðir en fáir útvaldir. Á áratugnum milli 1950 og 1960 varð Friðrik Ólafsson þjóðhetja. Þegar ég horfi aftur til þessara ára virðist mér staða Friðriks ekki ólík því sem staða Bjarkar varð síðar. Afrek Friðriks við skákborðið voru á heimsmælikvarða þrátt fyrir einangrun og erfiðar aðstæður. Árangur hans vakti athygli ekki síður erlendis en hér heima. Margir þættir spunnust saman við að auka þessi áhrif, glæsilegir sigrar, drengileg og hógvær framkoma, myndarlegur og glaðlegur ungur maður með ákveðið aðalsyfirbragð. Sigrar hans vöktu bergmál í hugum yngri kynslóðarinnar og segja má að yngri meistarar okkar standi á herðum hans.
Þegar rætt er um áhrif Friðriks Ólafssonar á íslenskt skáklíf koma margir þættir í hugann. Í fyrsta lagi skákfræðileg áhrif Friðriks, stíll hans, byrjanaval, tækni, rannsóknaraðferðir og skrif hafa haft áhrif á skákstyrk Íslendinga. Í öðru lagi áhrif hans í þá átt að efla áhuga á skák í landinu, jafnvel áhrif hans á þá sem ekki eru gjörkunnugir leikreglum manntaflsins. Í þriðja lagi áhrif hans á skákhreyfinguna sem slíka, þ.e. félagsmál skákmanna, mótahald og félagslíf. Í fjórða lagi áhrif Friðriks á sjálfsmynd Íslendinga sem ég tel að hafi verið veruleg svo skömmu eftir stofnun lýðveldisins og síðast en ekki síst kynning hans á landi og þjóð og frægð hans erlendis. Enginn vafi er að áhrif Friðriks eru mikil á öllum þessum sviðum. Umræða um Friðrik Ólafsson verður óhjákvæmilega öðrum þræði óður til skáklistarinnar. Til þess að ná langt í skák þarf fjölþætta hæfileika. Það þarf einbeitni, öflugt hugarflug og hugsmíðaafl, mikinn viljastyrk og ögun, skynjunarkraft, sterka rúmskynjun sem gerir kleift að skynja og tengja mennina á borðinu, gríðarlega greiningar- og talningarhæfileika svo nokkuð sé nefnt.
Íslenskt mál á sér orð sem lýsa sérstökum hæfileikum, s.s. smiðsauga, læknishendur, tóneyra, Ekkert slíkt orð þekki ég sem lýsir snillingum skáklistarinnar. Næmleika tónsnillingsins fyrir tónum, málarans fyrir litum og línum er við brugðið. Snilli skákmeistarans er samofin úr mörgum eiginleikum hugarflugs og rökhyggju. Skákin á sér kröfu sem er sameiginleg öðrum listum, krafan um sköpunargáfuna, samræmi, einbeitingu, ástríðu, frumleika og viljastyrk.
Ríki skáklistarinnar er þar í ríki andans sem saman koma landamæri vísinda, lista og keppnisíþrótta. Þó skákin sé bundin sterkum leikreglum eru það listaverk sem verða til við þetta sextíu og fjögurra reita borð. Fyrst og fremst byggð á hugarflugi og listhæfni. Snillingur við skákborðið þarf að eiga eiginleikann til að gera hverja hugsun að neista, kynda bál í huganum, varðveita þennan demantsharða loga sem stöðugt lýsir allt upp með athugun, undrun og aðdáun.
Goðsögnin lifir. Hún mun lifa svo lengi sem Íslendingar hirða um að muna sögu sína. Meira að segja Guð getur ekki breytt því sem liðið er. Langt fram á ógengna vegi mun slá birtu og glampa af lífi og starfi Friðriks Ólafssonar.
Lengri grein má finna á slóðinni https://www.mbl.is/andlat/minningar/
Guðmundur Þórarinsson.
Mér finnst ég hafa kynnst Friðriki Ólafssyni stórmeistara í skák þegar ég var barn.
Raunar kynntist ég honum bara fyrst í gegnum lestur skákbóka, fór yfir skákirnar hans og heillaðist af töfrandi leikfléttum og einstöku baráttuþreki. Þar kynntist ég skákmeistara sem hafði komist lengst allra Íslendinga, lagt heimsmeistara að velli og orðið forseti alþjóðlega skáksambandsins.
Ég naut þess heiðurs að kynnast Friðriki í eigin persónu löngu síðar. Prúðbúinn heiðursmaður, jákvæður, glettinn, kurteis og brosmildur eru orðin sem koma upp í hugann.
Þrátt fyrir öll sín afrek í skákheiminum var Friðrik Ólafsson hógvær. Hann var stoltur af sinni arfleifð án þess að vera að flagga sínum afrekum. Hann kom vel fyrir og nálgaðist alla af virðingu. Hann var frábær fyrirmynd fyrir ungu kynslóðina og hann hvatti efnileg ungmenni til þess að leggja á sig vinnu við skákæfingar, gefast ekki upp, halda áfram þó að viðfangsefnin væru stundum krefjandi og ekki gleyma því að brosa og hafa gaman.
Friðrik lagði línurnar fyrir íslenska atvinnumenn í skák. Hann veitti þeim aðhald, benti þeim á það sem betur mátti fara, byggði þá upp á jákvæðan hátt.
Sem fyrsti atvinnumaður Íslands í skák lagði Friðrik Ólafsson grunn að því launaumhverfi sem íslenskir atvinnumenn í skák hafa búið að undanfarna áratugi. Hann kom einnig að stofnun Skákskóla Íslands og fyrir það verður skákhreyfingin honum ævinlega þakklát. Það er mikill heiður fyrir mig að fá að koma því starfi og feta í fótspor meistarans.
Fyrr í vetur, þá orðinn níræður, gerði Friðrik sér ferð í húsnæði Skákskóla Íslands og leit inn á æfingu hjá efnilegum ungmennum. Verkefni æfingarinnar voru krefjandi og allir voru niðursokknir.
„Þetta er strembið viðfangsefni,“ sagði Friðrik, „er ekki best að ég hjálpi ykkur?“ Svo settist meistarinn niður og aðstoðaði krakkana.
Ég er fyrst og fremst þakklátur fyrir góð kynni við mikinn heiðursmann.
Fjölskyldu og vinum votta ég innilega samúð.
Björn Ívar Karlsson, skólastjóri Skákskóla Íslands.
Ég byrjaði að fylgjast með skák árið 1977 þegar Spassky og Hort tefldu á Íslandi. Fljótlega lærði ég að aðalmaðurinn var Friðrik Ólafsson. Reykjavíkurskákmótið 1978 var fyrsta mótið þar sem ég sá hann í eigin persónu. Frá honum streymdu persónutöfrar og virðuleiki.
Hann var kjörinn forseti FIDE árið 1978 og ég, litli guttinn, fylgdist með þessu af mikill athygli. Mig óraði ekki fyrir því á þessum tíma að vinátta yrði á milli okkar síðar á lífsleiðinni.
Ánægjulegt var þegar hann tefldi í liði goðsagna á EM landsliða í Laugardalshöll 2015. Sama ár naut ég þess að fara með honum á alþjóðlegt mót á ítölsku eyjunni Sardiníu.
Hann vissi hvað allir hétu og heilsaði ungum skákkrökkum með nafni, jafnvel þótt hann hefði kannski aldrei hitt þau. Hann þekkti þau af myndum, hældi þeim og gaf góð ráð. Gaf mikið af sér.
Einhvern veginn þróuðust samskipti okkar í vináttu. Við hringdumst reglulega á til að ræða persónuleg málefni en auðvitað mest um skák. Það var aðdáunarvert hversu vel hann fylgdist með skákinni, bæði hér heima og erlendis, og einstökum skákmönnum. Unga kynslóðin var honum sérlega hugleikin og hann hafði mikinn áhuga á Tímaritinu Skák, en hann lagði einnig sitt af mörkum til þess að tryggja áframhaldandi útgáfu þess.
Við ræddum saman þremur dögum áður en hann kvaddi þennan heim. Við spjölluðum meðal annars um Reykjavíkurskákmótið og afmælishátíð Skáksambandsins á Blönduósi í sumar en þangað stefndi hann. Sem fyrr fór ekki fram hjá mér hversu vel Friðrik fylgdist með og gerði góðlátlegt grín að taflmennsku kollega sinna í stórmeistarastétt á Boðsmóti Símans í netskák, sem þá var í gangi. Alltaf með puttann á skákpúlsinum.
Áhrif Friðriks á skák á Íslandi eru ómetanleg. Hann var þjóðhetja sem dró vagninn. Án hans tel ég ólíklegt að einvígi aldarinnar hefði farið fram á Íslandi, og án hans er sömuleiðis ólíklegt að skákin hefði sprungið út á sama hátt og tryggt Ísland í fremstu röð í heiminum. Hvatningarorð hans til unga skákfólksins eru mörgum ómetanleg.
Reykjavíkurskákmótið fer nú fram í Hörpu. Þar er teflt til heiðurs minningu Friðriks.
Ég og Andrea minnumst Friðriks af miklum hlýhug. Fallinn er frá besti skákmaður Íslands fyrr og jafnvel síðar. Hvíl í friði góði vinur.
Ættingjum og vinum færi ég innilega samúðarkveðjur.
Gens Una Sumus – við erum ein fjölskylda.
Gunnar Björnsson, forseti Skáksambands Íslands.
Fyrirmynd og lærimeistari íslenskra skákmanna er fallinn frá, nýlega orðinn níræður. Í tilefni afmælisins ritaði ég grein í tímaritið Skák um þau miklu áhrif sem Friðrik hafði á mig og félaga mína sem hófu taflmennsku upp úr 1970. Þessi greinaskrif veittu mér mikla ánægju og það rifjaðist upp hversu mikil áhrif Friðrik hafði á okkur félagana. Það óraði ekki fyrir mér að nú nokkrum vikum seinna kæmi annað tilefni og það mjög dapurt til að stinga niður penna.
Þrátt fyrir öll sín afrek og frægð var Friðrik ávallt hógvær og lítillátur og stutt í gamansemina. Gagnvart okkur unglingunum sem komumst fljótlega í landslið Íslands með honum var hann afskaplega vinsamlegur. Ég man vel eftir því þegar ég fór í fyrsta sinn í flugvél árið 1974 með sveit Taflfélags Reykjavíkur á leið til Akureyrar. Friðrik var svo vinsamlegur að setjast við hliðina á mér, yngsta keppandanum, og hvarf þá strax öll flughræðsla.
Friðrik var og er góð fyrirmynd ungra skákmanna. Eðlilega minnast menn hans helst fyrir glæsilegar sóknir, leiftrandi snjallar leikfléttur og ævintýralega útsjónarsemi í tímahraki. Hann var þó ekki síður afar vel að sér í skákfræðunum og lagði mikla vinnu í rannsóknir á byrjunum. Það mátti treysta þeim og í æsku hermdi ég mjög oft eftir byrjanataflmennsku Friðriks og sá ekki eftir því. Þessi mikla vinna Friðriks er að mínu áliti meginástæðan fyrir velgengni hans, en auðvitað fékk hann ríka hæfileika í vöggugjöf.
Friðrik kom í heimsókn til mín eftir að hans ítarlega skákævisaga kom út og áritaði nokkur eintök sem ég gaf síðan vinum mínum, úkraínskum stórmeisturum. Þeir kunnu vel að meta það. Sovéska skáksambandið felldi hann á sínum tíma úr stóli forseta alþjóðaskáksambandsins vegna frumkvæðis hans í mannréttindamálum, en á meðal skákmanna eystra var hann í miklum hávegum hafður. Það lá mjög vel á honum við áritun bókarinnar, sem er bæði Helga Ólafssyni og Hinu íslenska bókmenntafélagi til mikils sóma. Norðmaðurinn Øystein Brekke stóð einnig að útgáfu ágætrar og vel myndskreyttrar bókar á ensku um skákferil Friðriks, saga hans er því ítarlega skráð og það er vel.
Árið 2016 stóð Friðrik fyrir því að við þessir sömu skákmenn sem hann hafði tekið vel á móti sem unglingum hæfum þátttöku á mótum öldungalandsliða. Fyrst keppti hann sjálfur með okkur og þetta framtak hans hefur orðið okkur til mikillar ánægju. Friðrik hafði sjálfur ávallt mikla ánægju af því að tefla og það smitaði út frá sér.
Ég votta fjölskyldu og aðstandendum Friðriks mína innilegustu samúð. Minningin um mikinn afreksmann og góðan dreng lifir.
Margeir Pétursson.
Árið er 1984. Sjö ára mæti ég í tíma hjá Skákskóla Friðriks Ólafssonar sem var á Laugavegi í Reykjavík. Helgi Ólafsson tefldi fjöltefli við nemendur og fór síðan yfir skákirnar. Nafni Helga í alþjóðlega skákheiminum, Ólafsson, Friðrik, var okkur snáðunum í skólanum fjarlægari fígúra.
Fljótlega lærði maður þó að Friðrik Ólafsson gnæfði yfir alla aðra íslenska skákmenn. Hann var óskabarn þjóðarinnar. Sem þjóðhetja átti Friðrik eldheita stuðningsmenn og ef nafn hans var á keppendalistanum urðu götur greiðari fyrir því að halda áhugaverð skákmót.
Á 60 ára afmælismóti hans árið 1995 gerðum við Friðrik stutt jafntefli í lokaumferðinni. Leifur Jósteinsson, einlægur skákáhugamaður og skarpur greinandi, skammaði mig: „Hvenær færðu annað tækifæri til að tefla kappskák við svona goðsögn?“ Svarið við þeirri spurningu er einfalt, ég fékk það ekki.
Það var þó alltaf gaman að tefla hraðskák við Friðrik. Sóknarstíll hans hentaði mér ágætlega. Bíða, bíða og svo svara sókn Friðriks með eitraðri gagnsókn! Það þarf nefnilega að kunna að þjást í skák, rétt eins og á mörgum öðrum sviðum mannlífsins.
Auðvitað gat fokið í Friðrik ef hann tapaði en sem manneskja bar hann af í framkomu. Klassi og kurteisi einkenndi alla hans nærveru. Um langt árabil stýrði ég Félagi stórmeistara og á árshátíðum félagsins glytti oft í lúmskan húmor Friðriks. Á þessum samkundum báru þau hjónin, Friðrik og Auður, ávallt með sér að vera samrýnt og glæsilegt par.
Það var mikilvægt fyrir íslenska skákhreyfingu þegar bók Helga Ólafssonar um Friðrik kom út fyrir nokkrum árum. Við lestur bókarinnar sér maður í hendi sér hversu miklar fórnir Friðrik færði fyrir skákgyðjuna. Þekking Friðriks á skák var umfangsmikil og kynngimagnað ímyndunarafl hans átti sér fáa líka. Friðrik var fyrsti íslenski stórmeistarinn og þeir sem á eftir honum koma munu ávallt standa í þakkarskuld fyrir hans glæsilegu skákir sem og fyrir þau rit um skák sem hann skrifaði.
Um margra áratuga skeið var útlit Friðriks nánast óbreytt, það var líkt og andlit hans væri í formalíni, jafnvel þegar hann var kominn vel yfir áttrætt. Hans mikla ástríða fyrir skák var álíka stöðug, því fann ég áþreifanlega fyrir í síðasta samtali okkar, stuttu fyrir andlát hans. Þá, sem jafnan, orðaði hann hugsun sína um skák á svo tæran og skýran hátt. Allt til síðasta andardráttar var Friðrik einfaldlega skákjöfur, risi.
Núna þegar síðasti leikur Friðriks hefur verið leikinn í þessu jarðlífi þá þakka ég honum kærlega fyrir samfylgdina.
Auði og öðrum aðstandendum Friðriks votta ég samúð mína.
Helgi Áss
Grétarsson.
Við fráfall Friðriks Ólafssonar stórmeistara lýkur löngum og stórfenglegum kafla í íslenskri skáksögu enda var hann fyrirmynd margra kynslóða íslenskra skákmanna. Það var ótrúlegt afrek að Friðriki tækist á unga aldri að komast í röð bestu skákmanna heims, komandi frá litlu landi sem bjó að takmarkaðri skákhefð miðað við stórþjóðirnar. Friðrik var að sönnu brautryðjandi sem fyrsti atvinnumaður okkar í skák. Þá hafði hann til að bera fágaða framkomu heimsborgarans og aflaði sér vinsælda hvar sem hann kom, auk þess sem fjörug og leiftrandi taflmennskan vakti aðdáun. Því kom það ekki á óvart að lagt var að Friðriki að bjóða sig fram til forseta FIDE 1978. Eins og svo oft hafði hann sigur. Síðar þurfti hann að lúta í lægra haldi fyrir frambjóðanda sem tefldi ókræsilega refskák en slíka skák kunni Friðrik ekki. Kasparov lýsti Friðrik síðar sem „síðasta heiðursmanni FIDE“. Glæsilegum skákferli Friðriks eru gerð góð skil í skákævisögunni sem hann ritaði með Helga Ólafssyni. Sem ungur drengur fylgdist ég með af miklum áhuga í hvert skipti sem Friðrik tefldi á stórmótum. Sama átti við um skákþætti hans í sjónvarpinu. Á þeim tíma óraði ritara ekki fyrir því að verða þess heiðurs aðnjótandi að kynnast þessu átrúnaðargoði jafn vel og raun varð á síðar. Þau kynni hófust í lok 8. áratugarins og náðum við að brúa kynslóðirnar og tefla saman í landsliði Íslands á Ólympíumótinu á Möltu 1980, þegar skákferli Friðriks var að ljúka en minn að hefjast. Friðrik sýndi þeim sem tóku við kyndlinum af honum einstakt vinarþel og stuðning. Þegar góðir sigrar unnust var hann sjaldnast langt undan. Þótt af mörgu sé að taka af góðum kynnum ber þó einvígið við Viktor Kortsnoj í Kanada 1988 hæst. Þar veitti Friðrik ómetanlegan liðstyrk enda búist við því að Viktor grimmi kynni að beita brögðum, vel sjóaður úr einvígjum hatursins við Karpov. Það kom líka á daginn og Viktor gerði það sem hann gat til að trufla skákmanninn unga og óreynda sem var við það að kikna undan álaginu. Auk þess að stappa í mig stálinu, hélt Friðrik fast á málum sem varð til að Kortsnoj var settur stóllinn fyrir dyrnar og sigur vannst á endanum. Óhætt er að fullyrða að þau úrslit hefðu orðið önnur ef liðsinnis Friðriks hefði ekki notið við. Það atvikaðist líka þannig að við stúderuðum heilmikið saman, fyrir og á meðan á einvíginu stóð. Aldrei varð ég þess betur áskynja en þá, að hve djúpri þekkingu Friðrik bjó um innstu leyndardóma skáklistarinnar. Síðar ferðuðumst við skákfélagarnir og Friðrik nokkrum sinnum saman til útlanda í skáktengdum erindum, heimsóttum aðdáendur í Portoroz sem ennþá mundu eftir afrekum hans þar 1958, tefldum saman á HM öldunga 2016, svo eitthvað sé nefnt. Síðast hittumst við Friðrik í níræðisafmælinu í Hörpu í janúar sl. þar sem aðdáendur fjölmenntu og honum var sómi sýndur úr ýmsum áttum.
Ég kveð nestor íslenskra skákmanna, sem nú hefur teflt sína síðustu skák, með djúpri þökk fyrir ómetanlega leiðsögn og vináttu um leið og Auði og fjölskyldu eru færðar innilegar samúðarkveðjur.
Jóhann Hjartarson.