Viðræður eru hafnar á milli Bandaríkjanna og Írans um kjarnorkuáætlun síðarnefnda ríkisins. Þetta var löngu tímabært enda hefur Íran haldið áfram að auðga úran og er komið hættulega nálægt því að eiga úran sem nota má í kjarnorkuvopn, og það í nokkrar sprengjur. Engum dettur í hug að heimurinn verði öruggari með kjarnorkuvopnavætt Íran, ríki sem stutt hefur hryðjuverkasamtök og stuðlað að ófriði víða um Mið-Austurlönd.
Íran er þegar stórhættulegt undir klerkastjórninni sem þar ríkir og hefur stjórnað harðri hendi í hátt í hálfa öld. Það stuðlar að ófriði í sínum heimshluta og hefur gert lengi, en hefur til dæmis einnig vígvætt Rússa svo að þeir geti náð meiri árangri í innrás sinni í Úkraínu.
Vígvæðingin og stuðningurinn við hryðjuverkasamtök á borð við Hamas, Hesbolla og Húta hefur kostað sitt þó að himinháar upphæðir sem Obama forseti og síðar enn frekar Biden forseti afhentu klerkastjórninni hafi vissulega auðveldað þessi illvirki. En það breytir því ekki að efnahagur landsins er í molum, meðal annars vegna efnahagsþvingana, verðgildi gjaldmiðilsins hefur hrunið, verðbólgan er há og almenningur verður að neita sér um varning sem víða þykir sjálfsagður.
Þetta, ásamt áralangri harðstjórn, þar með talið sérstakri kúgun kvenna, hefur ýtt undir ólgu innanlands sem stjórnvöld hafa beitt valdi til að berja niður. Það breytir því ekki að þau óttast án efa það sem getur gerst ef ástandið batnar ekki, sem kann að skýra að þau hafa loks samþykkt að setjast að samningaborðinu, þó að það sé fyrst um sinn aðallega í gegnum millilið, utanríkisráðherra Ómans, þar sem viðræðurnar áttu sér stað um helgina.
Önnur ástæða fyrir því að Íranar settust að samningum er að Bandaríkin hafa sett mikinn þrýsting á þá, meðal annars með því að koma nokkrum af öflugustu sprengjuflugvélum sínum fyrir á eyju á Indlandshafi, í færi við Íran, og raunar einnig skjólstæðinga þeirra, Húta, sem Bandaríkjamenn hafa þegar gert loftárásir á. Þær árásir eru mikilvægar til að hemja Húta í árásum þeirra á skipaferðir og á Ísrael, en um leið eru þær áminning til klerkanna í Teheran um að Bandaríkin séu reiðubúin að beita vopnavaldi gerist þess þörf.
Viðræðunum á að halda áfram um næstu helgi og fallist klerkarnir ekki á að hætta kjarnorkuvígvæðingu sinni, sem þeir neita að eigi sér stað en blasir þó við, er fátt annað í stöðunni en að beita því valdi sem nauðsynlegt er til að eyða möguleikum þeirra til að halda vígvæðingunni áfram. Bandaríkjaforseti hefur sagt að hann vilji ná samningum um kjarnorkumál Írana, en ef staðan kalli á hernaðaraðgerðir þá verði gripið til þeirra. Það væri fjarri því óskastaða, en það að leyfa írönskum stjórnvöldum að eignast kjarnorkuvopn er óhugsandi.