Varsjá Christine Lagarde bankastjóri Seðlabanka Evrópu veifar vísifingri framan í kollega og fjármálaráðherra.
Varsjá Christine Lagarde bankastjóri Seðlabanka Evrópu veifar vísifingri framan í kollega og fjármálaráðherra. — AFP/Wojtek Radwanski
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Óvissa og óstöðugleiki á alþjóðamörkuðum er engu minni nú en í fyrri viku þegar Donald Trump Bandaríkjaforseti kynnti tollaáform sín, sem hafa margbreyst síðan. Sum ríki hafa raunar þegar brugðist við tollunum, en meira er á huldu um viðbrögð við…

Fréttaskýring

Andrés Magnússon

andres@mbl.is

Óvissa og óstöðugleiki á alþjóðamörkuðum er engu minni nú en í fyrri viku þegar Donald Trump Bandaríkjaforseti kynnti tollaáform sín, sem hafa margbreyst síðan.

Sum ríki hafa raunar þegar brugðist við tollunum, en meira er á huldu um viðbrögð við öðrum efnahagsáhrifum, enda eru þau fæst komin fram enn. Í sérhverjum viðbrögðum munu því felast spádómar, en þeir hafa tilhneigingu til að uppfylla sjálfa sig, svo flest ríki hafa farið gætilega út í þá sálma.

Viðbrögð seðlabanka

Seðlabankar heimsins búa hins vegar ekki við sama munað og stjórnmálamenn um að geta beðið og séð til. Hið hefðbundna efnahagslíkan heimsins er þegar gengið úr skorðum, hlutabréfamarkaðir nötra og skuldabréfamarkaðir yggla sig, efnahagsþrengingar vofa yfir ótal löndum og orkumarkaður í uppnámi.

Allra augu eru vitaskuld á Seðlabanka Bandaríkjanna (Federal Reserve), sem Trump hefur átt í nokkrum stælum við, en einskis er að vænta þaðan fyrr en í næsta mánuði. Það er því ekki síður vert að gefa Evrópska seðlabankanum (ECB) gaum, en hann tilkynnir vaxtaákvörðun nú á skírdag.

Tollastríðið, hvernig sem það nú veltist og snýst, hefur þegar haft mikil áhrif á heimsviðskipti, valdið samdrætti í hagvexti og verðbólguþróun aftur í dauðans óvissu. Tollahækkanirnar munu óhjákvæmilega ýta upp verðlagi í Bandaríkjunum, en raunin gæti í bráðina a.m.k. orðið þveröfug í Evrópu. Ef yfir álfuna flæðir kínversk neysluvara sem ekki fer lengur til Bandaríkjanna, olíuverð fellur og aukin samkeppni dregur úr verðbólguþrýstingi.

Vaxtalækkun í Evrópu

Gert er ráð fyrir að Christine Lagarde bankastjóri Evrópska seðlabankans lækki stýrivexti sína úr 2,5% í 2,25%. Það mun hafa bein áhrif á evrusvæðinu (og í Danmörku og Svíþjóð), og skapa þrýsting víðar. Væntingar eru um að vextir ECB verði komnir niður í 1,75% fyrir árslok.

Peningamálastjórnin er hins vegar ekki allt og sannast sagna eru menn mistrúaðir á forystuhæfileika Lagarde. Hún er enginn Mario Draghi.

Vaxtalækkanir kunna að þykja nærtæk ráð til þess að hita undir hagkerfum Evrópu, en það eru fleiri kraftar að verki og sumir mótsagnakenndir.

Aukinn hiti í hagkerfið

Evrópusambandið (ESB) hefur þannig látið í veðri vaka að loksins megi draga úr regluverki og bæta rekstrarumhverfi atvinnulífs til þess að láta markaðsöflin gera það, sem þau gera best.

Ríki ESB hyggjast einnig stórauka útgjöld til varnarmála og innviða, án þess þó að slá neitt af stórkostlega kostnaðarsömum orkuskiptum. Það kynni vel að snúa evrópska hagkerfið í gang svo um muni.

Það verður aðeins gert með lánum hjá framtíðinni og þar ræðir um sameiginlegar skuldbindingar ríkja ESB, sem mun reyna mjög á þýsku stjórnarskrána. Þeir skuldadagar munu hafa sín áhrif löngu áður en til þeirra kemur. Það ættu ESB-löndin orðið að þekkja eftir evrukreppurnar og kostnaðinn af covid, sem enn hefur ekki verið mætt.

Vel má vera að nóg verði af fjármagni í Evrópu vegna aukins vantrausts á Bandaríkjunum sem öruggri höfn. Það er hins vegar ekki vandalaust, því þá eykst verðbólguþrýstingur, kaupmáttur heimila eykst með minnkandi atvinnuleysi og hrávara hækkar í verði, sem aftur ætti að leiða til vaxtahækkana. Lagarde getur hvorki kortlagt það af nokkurri nákvæmni né varast.

Höf.: Andrés Magnússon