Sveinn Kristján Ingimarsson
Sveinn Kristján Ingimarsson
Markmiðið ætti að vera að auka samkeppnishæfni atvinnugreina á Íslandi almennt til hagsældar fyrir land og þjóð.

Sveinn Kristján Ingimarsson

Nú liggur það fyrir að setja á stóraukna skatta á sjávarútveg á Íslandi en mörgum spurningum er ósvarað og það lítur út fyrir að það hafi verið ætt af stað með þessar skattahækkanir án þess að greining hafi farið fram á því hverjar afleiðingarnar verða.

Eru það trúverðug stjórnvöld sem tala fyrir meira gagnsæi og meiri dreifingu auðs en gera svo þveröfugt með því að láta eitt af sínum fyrstu verkum vera að standa fyrir lagasetningu sem hefur óljós áhrif og virðist vera illa undirbúin en mun mögulega auka samþjöppun í einni af undirstöðuatvinnugreinum þjóðarinnar? Margur er þar á orði sem hann er ekki á borði.

Hver verða áhrifin á skatttekjur ríkissjóðs af greininni allri? Hver eru raunveruleg nettóáhrif á afkomu ríkissjóðs? Það hefur enginn getað svarað þessum spurningum, hvorki ráðuneyti né hagsmunaaðilar. Sjávarútvegsráðherra segir að greining á því sé til en enginn hefur fengið að sjá hana og auðvitað leiðir það til tortryggni hjá öllum þeim sem verða fyrir barðinu á þessari skattlagningu. Úr því að enginn fær að sjá greininguna álykta margir auðvitað sem svo að verið sé að leyna einhverju eða að greiningin sé einfaldlega ekki til.

Margir spyrja hvaða áhrif 73% skattahækkun hefur á litlar og meðalstórar útgerðir víðs vegar um landið, fjölskyldufyrirtæki sem eru mikilvæg sínum byggðarlögum. Munu fyrirtækin lifa þetta af eða verða það stóru útgerðarfyrirtækin sem gleypa þau og þannig verður meiri samþjöppun í greininni?

Og ein spurningin enn sem heyrst hefur og er ósvarað er hvort þetta sé landsbyggðarskattur sem veikir landsbyggðina gagnvart höfuðborgarsvæðinu? Þessi ofurskattur verður innheimtur á landsbyggðinni en alla jafna hafa skatttekjurnar svo verið nýttar í Reykjavík, til að mynda í stofnanavæðingu og innviðauppbyggingu á höfuðborgarsvæðinu.

Hver verða áhrifin á byggðaþróun og atvinnulíf í sjávarbyggðum? Sú greining liggur ekki fyrir og mörg sveitarfélög sem byggja afkomu sína á sjávarútvegi hafa lýst áhyggjum sínum af frumvarpinu. Sveitarfélögin óttast að starfsfólki í sjávarútvegi muni fækka og þar af leiðandi verði íbúaþróun neikvæð í sjávarplássum víðs vegar um landið. Eðlilegt er því að spyrja hvort verið sé að gera einstök byggðarlög að brothættum byggðum með hægum kvalafullum dauðdaga. Í það minnsta mun þetta frumvarp mun hafa afdrifarík áhrif á byggðarlög um allt land.

Hvað með vinnumarkaðinn í heild sinni, hvaða áhrif hefur þetta á afleidd störf í sjávarútvegi? Hvað verður um tæknifyrirtækin sem hafa orðið til og vaxið og dafnað við að þjónusta sjávarútveginn? Ekki munu þær atvinnugreinar styrkjast með auknum skattaálögum á greinina. Erum við að slátra mjólkurkúnni vegna skammtímagræðgi stjórnvalda? Munu þau ef til vill hverfa af markaðnum eða flytja úr landi?

Eins og allir vita starfar sjávarútvegur á Íslandi í alþjóðlegu umhverfi. Með aukinni skattlagningu drögum við úr samkeppnishæfni greinarinnar. Það á auðvitað við um allar okkar útflutningsgreinar, en stjórnvöld hafa einmitt talað um að auka skattaálögur á ferðaþjónustuna og eru reyndar byrjuð á því með snaraukinni gjaldtöku á farþega skemmtiferðaskipa.

Þó er spurningunni um fjárfestingu og uppbyggingu svarað. Nú mun hægjast á uppbyggingu og framþróun.

Markmiðið ætti að vera að auka samkeppnishæfni atvinnugreina á Íslandi almennt til hagsældar fyrir land og þjóð, í stað þess að draga úr þeim vígtennurnar, veikja gagnvart alþjóðlegri samkeppni og mögulega leiða til þess að allir tapa.

Já, mörgum spurningum er ósvarað og þegar verið er að tefla með líf og afkomu fólks og fyrirtækja er betra að fara hægar í sakirnar, vanda til verka og gera sér grein fyrir afleiðingunum. Í upphafi skyldi endinn skoða.

Höfundur er fiskeldisfræðingur.

Höf.: Sveinn Kristján Ingimarsson