Sérfræðingar á vegum breska hersins hafa verið kallaðir út til að aðstoða bæjaryfirvöld í Birmingham á Englandi, en sorphirðufólk þar lagði niður störf hinn 11. mars sl. og hefur rusl legið óhirt í borginni síðan. Er nú svo komið að heilbrigðisyfirvöld hafa áhyggjur af stöðunni og var því ákveðið að leita til hersins eftir aðstoð. Herinn mun þó ekki koma að því að hirða ruslið, hlutverk hans verður eingöngu að skipuleggja og samræma aðgerðir þeirra sem ganga í störf sorphirðufólks, að sögn BBC.
Deilan snýst um skipulagsbreytingar sem eiga sér fyrirmynd á öðrum svæðum Bretlandseyja. Sorphirðufólk óttast hins vegar tekjuskerðingu í kjölfarið og lagði því niður störf. Engin lausn virðist í sjónmáli og hafa deiluaðilar ekki fundað síðan 8. apríl sl.