Viðar Guðjónsson
vidar@mbl.is
Mistök voru gerð þegar Hæstiréttur Íslands tók ákvörðun um að synja stefnanda máls um áfrýjunarleyfi án þess að hafa yfirfarið öll málsgögn. Voru gögnin send réttinum en bárust ekki dómurunum fyrir handvömm.
Athygli vekur að enginn þeirra þriggja dómara sem voru með málið til umfjöllunar áttaði sig á því að gögnin vantaði í málið, þrátt fyrir að fylgigögn þess hefðu verið á lista sem fylgdi áfrýjunarbeiðninni.
Tekið til nýrrar meðferðar
Gögnin sem upp á vantaði voru að stærstum hluta greinargerð sækjenda af fyrri dómstigum. Ítrekað var vísað til hennar í öðrum fylgigögnum sem fylgdu til réttarins.
Við blasir þar með að dómararnir tóku ákvörðun án þess að farið hefði verið yfir öll gögn máls. Niðurstaðan var að hafna beiðni um áfrýjunarleyfi og viðurkenndi Hæstiréttur mistökin eftir að sækjandi í málinu spurði hvort dómurum hefðu borist gögnin sem vantaði.
Á þeim grunni heimilaði Hæstiréttur að taka málið til meðferðar að nýju. Þrír nýir dómarar fengu málið í hendur og höfnuðu upptöku málsins fyrir dóminum en að þessu sinni eftir yfirferð allra gagnanna.
Málið sjálft snýst um áralangar deilur í svokölluðu Gnúpsmáli eftir að Lyfjablóm ehf. höfðaði mál gegn Þórði Má Jóhannessyni, fjárfesti og fyrrverandi forstjóra Gnúps, og Sólveigu Pétursdóttur fyrrverandi dómsmálaráðherra. Töldu hluthafar sig hafa verið hlunnfarna og höfðuðu skaðabótamál. Þórður og Sólveig voru sýknuð í héraðsdómi og Landsrétti.
Benedikt Bogason forseti Hæstaréttar segir að vanalega fylgi ekki fylgigögn áfrýjunarbeiðnum, heldur einungis rökstuðningur fyrir því hvers vegna mál eigi erindi til umfjöllunar við dóminn. Hann taldi ekki efni til þess að tjá sig um meðferð dómaranna á málinu.
„Venjulega berst bara beiðni um áfrýjunarleyfi án þess að henni fylgi gögn. Svo fær gagnaðili tækifæri til umsagnar,“ segir Benedikt. Hann segir þó koma fyrir að aðilar leggi fram gögn og með réttu eigi dómarar við réttinn að fara yfir þau.