Öryggisgæsla var ströng á alþjóðaflugvellinum Noi Bai í Hanoi í Víetnam þegar Xi Jinping Kínaforseti mætti þangað í tveggja daga opinbera heimsókn. Á flugvellinum beið forsetans stór hópur fólks sem vildi fagna komu hans til landsins og voru margir þeirra með þjóðfána Kína á lofti.
Kínaforseti gaf sér tíma til að ræða stuttlega við blaðamenn um heimsóknina og samskipti Kína og Víetnam. Blaðamenn voru þó sumir forvitnir út í stöðu mála þegar kemur að tollastríði Kína og Bandaríkjanna, en ekkert útlit er fyrir að leiðtogar ríkjanna muni bakka í deilunni.
Enginn mun græða á þessu tollastríði, sagði Kínaforseti og deilan mun ekki skila neinu gagnlegu.
Dagskrá heimsóknarinnar er þétt og fundarhöld á dagskrá við ráðamenn í Víetnam.