Steinþór Guðbjartsson
steinthor@mbl.is
Grafíski hönnuðurinn og listamaðurinn Jón Ingiberg Jónsteinsson, gítarleikari og söngvari í hljómsveitinni CC Fleet Blues Band, hefur séð um útlit á öllu markaðsefni fyrir Blúshátíð Reykjavíkur undanfarin 20 ár. Nýjasta hönnunin vegna yfirstandandi hátíðar er afrakstur hugljómunar sem hann fékk í ferð bandsins á blúshátíðir í Bandaríkjunum á liðnu hausti.
Tónlist heillaði Jón Ingiberg snemma og þegar hann fór í gítarnám til Halldórs Bragasonar heitins leið ekki á löngu þar til hann var farinn að vinna fyrir Blúshátíðina. „Þegar Dóri komst að því að ég væri grafískur hönnuður og teiknari fékk hann mig til að hanna plakat fyrir hátíðina 2005 og síðan hef ég gert það í sjálfboðavinnu fyrir blúsinn, til að leggja mitt af mörkum til að halda blúsnum lifandi á Íslandi.“
Liðsmenn CC Fleet Blues Band kynntu sér blús í Bandaríkjunum í október síðastliðnum og spiluðu meðal annars á blúshátíðinni Pinetop Perkins Homecoming í Clarksdale í Mississippi og á Ground Zero Blues Club. Einnig sóttu þeir King Biscuit-blúshátíðina í Helena í Arkansas. „Ég fékk innblástur í ferðinni og hannaði plakat Blúshátíðarinnar núna með hliðsjón af því sem ég sá í kynningarmálum.“ Hann bætir við að ferðin hafi verið mjög áhugaverð og gaman hafi verið að upplifa innlifun gesta. „Þeir sitja ekki bara og hlusta, því að í Bandaríkjunum er blús líka danstónlist.“
Jón Ingiberg gerði myndband um ferðina, „Blús í suðri“, og er það aðgengilegt á Youtube og facebook-síðu Blúsfélags Reykjavíkur. „Myndbandið varpar ljósi á andrúmsloftið, sem við kynntumst, og hefur fengið góðar viðtökur.“
Snillingar á hátíðinni
Tónlistarferill Jóns Ingibergs hófst í pönkbandi með vinum hans en fljótlega fór hann að spila og syngja blús. Hann spilaði fyrst á Blúshátíð Reykjavíkur 2005 og hefur spilað þar nokkrum sinnum einn með kassagítarinn undir eigin nafni og sem Uncle John Jr. Hann gaf út sólóplötuna All the Way to Santa Fe undir síðarnefnda nafninu 2014 og væntanleg er önnur sólóplata sem hann tók upp í Nashville í Tennessee í fyrra.
Flestir meðlimir CC Fleet Blues Band hafa verið sjálfboðaliðar á Blúshátíð Reykjavíkur um árabil. „Þetta byrjaði sem góður félagsskapur og þróaðist í hljómsveitina fyrir nokkrum árum,“ segir Jón Ingiberg, sem er jafnframt stjórnarmaður í Blúsfélagi Reykjavíkur, en bandið kemur fram á hátíðinni á Hilton Reykjavik Nordica á fimmtudagskvöld. Blúsdagurinn var síðastliðinn laugardag og þá var hátíðin sett með kynningu. Hún heldur áfram með blúsdjammi í Djúpinu í Hafnarstræti í kvöld, en þar hefur Blúsfélag Reykjavíkur staðið fyrir tónleikum á þriðjudagskvöldum í vetur. Annað kvöld og á skírdag verður hátíðin á Nordica. Á meðal þeirra sem koma fram má nefna LeBurn Maddox, Carolyn Wonderland og Shelly King frá Bandaríkjunum og Bubba Morthens.