Sigurður Bogi Sævarsson
sbs@mbl.is
„Hér þarf að bregðast við svo að hræðilegir atburðir geti ekki endurtekið sig,“ segir Hlynur Hafberg Snorrason, yfirlögregluþjónn á Vestfjörðum. Við eftirlit lögregluþjóna í Súðavík á sunnudagskvöld kom í ljós að fólk dvaldist í að minnsta kosti fimm húsum í eldri hluta byggðarlagsins, þeim sem varð fyrir snjóflóðinu sem féll á þorpið í janúar 1995. Í kjölfar þeirra atburða tóku yfirvöld ákvörðun um að kaupa upp öll húsin í gömlu byggðinni, fyrir utan þau sem flutt voru á öruggari stað, innar í Álftafirði. Húsin, alls um 40, voru svo aftur seld fyrir lítið en með því skilyrði að viðvera þar væri bönnuð frá 1. nóvember og út apríl, í ljósi reynslunnar.
Vetrarríki hefur verið fyrir vestan síðustu daga og því er allur varinn góður í Súðavík. „Þetta með kvöðina ætti öllum sumarhúsaeigendum í Súðavík að vera ljóst. Tímaramminn er ákveðinn af sérfræðingum um snjóflóð. Mér finnst að okkur beri öllum að virða það mat, en vera ekki að setjast í dómarasætið,“ segir Hlynur.
Lögreglumenn töluðu við það fólk sem dvaldist á sunnudagskvöld í húsunum í Súðavík, segir yfirlögregluþjónninn. „Einhverjir héldu á brott, en aðrir fóru hvergi. Veruleikinn er sá að við getum ekkert gert nema gera fólki alvöru málsins ljósa. Núverandi aðstæður eru ótækar, samanber að fyrir ofan þessi hús er fjallið þar sem snjóflóðið féll fyrir 30 árum og 14 fórust,“ segir Hlynur. Bætir hann við að bókstafurinn í þessum aðstæðum sé skýr og hættan augljós. Raunar telji hann að enginn hafi séð fyrir sér, í kjölfar þeirra hörmunga sem urðu í Súðavík í ársbyrjun 1995, að einhverjum dytti í hug að storka örlögunum með því að dveljast í gamla þorpinu.
Hugsa með hryllingi
„Ég hugsa með hryllingi til þess tíma þegar veðuraðstæður verða verri og snjóflóðahætta eykst; ef hver og einn fer að meta hættuna. Yfirvöld þurfa að taka ákvörðun um hvað eigi að gera til að tryggja að sama og gerðist í janúar 1995 hendi ekki aftur. Hvort það sé að kaupa aftur upp þessi hús og rífa eða fylgja þessari kvöð á hverju húsi betur eftir, til dæmis með lagabreytingu og sektarheimild eða öðru. Lögreglan er ekki sérstaklega áfjáð í að beita sektum, en ef ekkert annað gagnast til að stöðva þessa óheillaþróun þarf að fara þá leið,“ segir Hlynur Hafberg Snorrason yfirlögregluþjónn.