Páskaveður Fátt er landanum mikilvægara en veður um páskana. Á Húsavík hefur snjó verið mokað í skafla.
Páskaveður Fátt er landanum mikilvægara en veður um páskana. Á Húsavík hefur snjó verið mokað í skafla. — Morgunblaðið/Hafþór Hreiðarsson
„Við liggjum í einhverri norðanátt næstu daga sem ætti enn þá að vera við lýði á skírdag, þá ætti að vera svöl norðanátt og éljagangur fyrir norðan, en þurrt hérna syðra,“ segir Birgir Örn Höskuldsson, veðurfræðingur á Veðurstofu…

Atli Steinn Guðmundsson

atlisteinn@mbl.is

„Við liggjum í einhverri norðanátt næstu daga sem ætti enn þá að vera við lýði á skírdag, þá ætti að vera svöl norðanátt og éljagangur fyrir norðan, en þurrt hérna syðra,“ segir Birgir Örn Höskuldsson, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands, þegar Morgunblaðið leitar svara um páskaveðrið hjá honum, eitt mikilvægasta veður landsins við hlið sumar- og jólaveðurs.

Í framhaldinu, frá föstudeginum langa og fram að lokum píslargönguhátíðarinnar, kveðst Birgir hins vegar reikna með hæglætisveðri á landinu, hægum vindi og víða léttskýjuðu þótt hann telji lágský geta slæðst inn hér og þar. „Eigum við ekki bara að segja hægur vindur og víða þurrt en talsverð dægursveifla, hiti ætti að geta komist í tvö til átta stig yfir daginn en alveg niður fyrir frostmark á nóttunni,“ segir veðurfræðingurinn.

Þannig að fram undan eru ekta sumarbústaðapáskar með lambalæri og rauðvíni?

„Jú, ég var nú að skoða þetta og það virðast töluverðar líkur á að þetta verði mjög rólegt frá föstudegi og eitthvað áfram. Maður getur ekki alveg slegið því föstu, það er svolítið í þetta en þetta lítur alla vega vel út núna,“ svarar Birgir og kveður aðspurður engan sérstakan landshluta eiga á hættu páskahret.

„Nú er búin að vera hæð yfir landinu, kalt á nóttunni og sæmilega hlýtt yfir daginn. Þessi spá þarf að breytast töluvert til þess að við getum farið að tala um einhver leiðindi, en það eru náttúrulega sex dagar í páska svo maður slær engu föstu,“ segir Birgir Örn Höskuldsson veðurfræðingur að lokum.

Brynjar Helgi Ásgeirsson, forstöðumaður skíðasvæðisins í Hlíðarfjalli á Akureyri, ræddi við mbl.is í gær og sagði ofankomu síðasta sólarhrings hjálpa til við að koma brekkunum í gott stand fyrir hina miklu skíðavertíð páskanna.

Í Hlíðarfjalli verður þétt dagskrá yfir hátíðina, allt frá skírdegi fram á páskadag og nefndi Brynjar páskaeggjamót, plötusnúða og trúbador sem halda myndu uppi almennum glaumi á þessu rómaða skíðasvæði.

Höf.: Atli Steinn Guðmundsson