Sigríður Andersen og nokkrir aðrir þingmenn Miðflokksins hafa dregið fram frumvarp sem Sigríður lagði áður fram sem dómsmálaráðherra en fór ekki í gegnum þingið þá. Ólíklegt má telja að breyting verði á nú, sem er lakara, því að frumvarpið snýr að því að efla tjáningarfrelsið og er ekki vanþörf á.
Frumvarpið er einfalt og gengur út á að bæta við 233. gr. a. almennra hegningarlaga eftirfarandi orðum: „… enda sé háttsemin til þess fallin að hvetja til eða kynda undir hatri, ofbeldi eða mismunun“. Greinin eins og hún er nú fjallar um að hver sá sem „opinberlega hæðist að, rógber, smánar eða ógnar manni eða hópi manna með ummælum eða annars konar tjáningu, svo sem með myndum eða táknum, vegna þjóðernisuppruna eða þjóðlegs uppruna, litarháttar, kynþáttar, trúarbragða, fötlunar, kyneinkenna, kynhneigðar eða kynvitundar, eða breiðir slíkt út, skal sæta sektum eða fangelsi allt að tveimur árum“.
Engum dettur í hug að geðfellt sé að veitast með orðum að fólki fyrir það eitt að tilheyra tilteknum hópi, svo sem þeim sem nefndir eru í lögunum. Það er iðulega skammarleg og fyrirlitleg háttsemi. En það breytir því ekki að fólk þarf að geta tjáð sig og tjáningarfrelsið snýst ekki síst um að tryggja rétt fólks til að viðra óvinsælar skoðanir. Hinar þurfa sjaldnast vernd.