Reykjanes Tinna varð vör við holuna við Brúna milli heimsálfa.
Reykjanes Tinna varð vör við holuna við Brúna milli heimsálfa. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
Nýjar sprungur hafa komið í ljós í móbergsstapanum Valahnúk við Reykjanestá. Lögreglan á Suðurlandi varar við aðstæðum á svæðinu auk þess sem varað er við jarðsigi eða holumyndun í nágrenni við Brúna milli heimsálfa

Birta Hannesdóttir

Egill Aaron Ægisson

Nýjar sprungur hafa komið í ljós í móbergsstapanum Valahnúk við Reykjanestá. Lögreglan á Suðurlandi varar við aðstæðum á svæðinu auk þess sem varað er við jarðsigi eða holumyndun í nágrenni við Brúna milli heimsálfa.

Tinna Gunnarsdóttir, leiðsögumaður og björgunarsveitarmaður, varð um helgina vör við holu sem hafði nýlega myndast við brúna. Í samtali við blaðamann Morgunblaðsins segir hún að svo virðist sem sprunga sé undir holunni.

Tinna hefur vanið komur sína á svæðið og segir að þegar hún var þar síðast, fyrir viku eða tveimur, hafi hún ekki séð holuna. Á ferð sinni um svæðið um liðna helgi varð hún vör við holuna þegar hún sá lítinn dreng gera sig líklegan til að príla ofan í hana.

„Ég náttúrlega stoppa það, því maður hugsar strax um það sem gerðist í Grindavík þar sem maður hvarf ofan í sprungu, og mér finnst þetta líklegt til að geta hrunið eitthvað meira,“ segir Tinna.

Telur Tinna þörf á að mynda svæðið betur og girða það af. „Ef þetta er að fara að gerast víðs vegar á Reykjanesinu – að einhverjar svona holur séu að myndast undir yfirborðinu og fólk að labba um allt – maður veit aldrei hvenær slysin verða,“ segir hún.

Í tilkynningu sem lögreglan á Suðurnesjum sendi frá sér í gær eru ferðamenn beðnir að fara með gát um svæðið og halda sig á merktum gönguleiðum. Svæðið gæti verið torfært og erfitt að greina holurnar, sérstaklega í myrkri.

Höf.: Birta Hannesdóttir