Sigalda Sigalda er eitt þeirra orkuvera sem mala ríkissjóði gull.
Sigalda Sigalda er eitt þeirra orkuvera sem mala ríkissjóði gull. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
Öllum stjórnarmönnum í stjórn Landsvirkjunar var skipt út á aðalfundi fyrirtækisins sem haldinn var í gær. Þá var tillaga stjórnarinnar um að greiða 25 milljarða króna arð í ríkissjóð samþykkt á fundinum

Ólafur E. Jóhannsson

oej@mbl.is

Öllum stjórnarmönnum í stjórn Landsvirkjunar var skipt út á aðalfundi fyrirtækisins sem haldinn var í gær. Þá var tillaga stjórnarinnar um að greiða 25 milljarða króna arð í ríkissjóð samþykkt á fundinum.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Landsvirkjun þar sem segir enn fremur að samanlagður arður vegna rekstraráranna 2021 til 2024 nemi um 90 milljörðum króna.

Hin nýja stjórn fyrirtækisins er skipuð fimm manns, en fjármála- og efnahagsráðherra gerði tillögu um aðalmenn og varamenn í stjórnina, í samræmi við reglur um val á einstaklingum til stjórnarsetu í ríkisfyrirtækjum. Brynja Baldursdóttir er nýr formaður stjórnar Landsvirkjunar, en aðrir stjórnarmenn eru Berglind Ásgeirsdóttir, Sigurður Magnús Garðarsson, Hörður Þórhallsson og Þórdís Ingadóttir.

Varamenn í stjórn Landsvirkjunar eru þau Agni Ásgeirsson, Björn Ingimarsson, Elva Rakel Jónsdóttir, Eggert Benedikt Guðmundsson og Stefanía Nindel.

Í fráfarandi stjórn voru Jón Björn Hákonarson, formaður, Gunnar Tryggvason, varaformaður, Álfheiður Ingadóttir, Halldór Karl Högnason og Soffía Björk Guðmundsdóttir.

Aðalfundurinn staðfesti skýrslu fráfarandi stjórnar og reikning fyrir síðasta reikningsár, auk þess að samþykkja ofangreinda tillögu stjórnar um arðgreiðslu til eigenda. Segir í tilkynningunni að arðgreiðslur Landsvirkjunar séu ákveðnar á grundvelli arðgreiðslustefnu fyrirtækisins. Þá var Deloitte ehf. kosið endurskoðunarfyrirtæki Landsvirkjunar.

Höf.: Ólafur E. Jóhannsson