Gunnlaugur Snær Ólafsson
gso@mbl.is
Ekki er víst að mikil fækkun vesturevrópskra ferðamanna til Bandaríkjanna í mars síðastliðnum borin saman við fjölda ferðamanna í mars í fyrra gefi rétta mynd af þróuninni í ferðabransanum. Er því ekki öruggt að fækkunin hafi umfangsmikil áhrif hér á landi þótt Ísland sé vinsæll viðkomustaður eða millilendingarstaður fyrir ferðalanga á leið yfir Atlantshafið.
Guðni Sigurðsson upplýsingafulltrúi Icelandair bendir á að páskarnir séu á þessu ári í apríl en hafi í fyrra verið í mars. Hann segir vel þekkt að páskarnir séu hefðbundið ferðatímabil fyrir marga ef ekki flesta í Evrópu og því kannski ekki óeðlilegt að sjá þessar sveiflur milli ára.
Síðastliðinn föstudag fjallaði Financial Times um 17% samdrátt í fjölda vesturevrópskra ferðamanna til Bandaríkjanna í mars borið saman við sama mánuð í fyrra. Var þróunin sett í samhengi við vaxandi spennu á sviði alþjóðastjórnmála og milliríkjaviðskipta, auk aukins ótta vegna hertra landamærareglna vestra.
Ef rýnt er í farþegatölur skrifstofu alþjóðaviðskipta hjá viðskiptaráðuneyti Bandaríkjanna sést að fleiri Vestur-Evrópubúar lögðu leið sína vestur um haf í mars á þessu ári en í mars 2023, en það ár voru páskarnir einnig í apríl. Það er því erfitt að fullyrða um hver þróunin er fyrr en gögn um apríl liggja fyrir.
Guðni segir ekki fært að gefa út yfirlýsingar um bókunarstöðu Icelandair þar sem það styttist í ársfjórðungsuppgjör félagsins sem kynnt verður 29. apríl, sama dag og uppgjör Play.
Í tilkynningu 7. apríl sagði Icelandair frá því að félagið flutti metfjölda farþega í mars og voru þeir 312 þúsund, sem er 14 þúsund fleiri farþegar en í sama mánuði í fyrra. Hlutfall millilendingarfarþega jókst úr 34% í mars í fyrra í 37% á þessu ári.
Í mars síðastliðnum flutti Play 111 þúsund farþega en tæplega 143 þúsund í sama mánuði í fyrra. Var þetta í tilkynningu flugfélagsins sagt „bein afleiðing af ákvörðun PLAY um að leigja eina af farþegaþotum sínum til GlobalX í Miami og aðlaga framboðið eftir árstíðabundnum sveiflum“.