Það berast ýmsar fréttir og mjög misgóðar um það hvenær megi ætla að allt muni breytast til betri vegar á vígvöllum í Úkraínu, eftir langt og ömurlegt stríð. Því miður er það þó svo, að þess er ekki endilega að vænta að vonir og óskir Donalds Trumps rætist úr þessu. Sérstaklega ekki þær vonir og spádómar sem Trump, þá frambjóðandi, lét falla í aðdraganda kosninga. Þá orðaði hann það gjarnan svo að yrði hann kosinn forseti myndi hann tryggja frið í Úkraínu „daginn eftir“ þann sigur. Hvorki Trump né aðrir trúðu því.
Það eru raunar mörg dæmi um svipaðar fullyrðingar úr kosningabaráttunni 2024. En flestir Bandaríkjamenn létu sér fátt um finnast um þessar fullyrðingar enda væru þær aðeins áherslur um það að Trump hefði lítinn eða engan áhuga á stríðinu í Úkraínu, ekki frekar en flestir Bandaríkjamenn hefðu og hann taldi einfaldlega að Pútín forseti Rússlands hefði ekki pólitískt efni á því heima fyrir að koma tómhentur úr þessari styrjöld.
Afstaða keppinauta Trumps í bandarísku kosningunum var í rauninni jafn innantóm og þessi, því að Joe Biden, þá forseti Bandaríkjanna, hafði mokað til Úkraínu miklu magni vopna og kostað til þess miklum fjármunum úr ríkissjóði Bandaríkjanna. Það var gert, og Biden forseti leyndi því ekki í persónulegum samtölum, því að Pútín forseti hefði pólitískt alls ekki efni á því að koma buxnalaus úr þessu stríði heim til Moskvu, með miklu meira skráð mannfall en bæði hann og rússneski herinn höfðu gert ráð fyrir í upphafi, þegar hann og stuðningsmenn hans í Kreml lögðu af stað í þennan lánlausa leiðangur.
En Biden var jafnan mjög tregur til að afhenda stjórninni í Kíev þau vopn sem forsetinn og önnur yfirvöld þar kusu helst að fá. En oftast nær, eftir mikil japl, jaml og fuður og allt að því eftir bið í heilt ár, lét Biden gjarnan eftir hluta þess sem forseti Úkraínu og her hans höfðu nuddað í honum að fá. En afstaða Donalds Trumps virtist ekki síst mótast af því að hann teldi að þau samskipti, sem orðið höfðu á milli forsetanna Trumps og Pútíns á fyrsta kjörtímabili Trumps, 2016-2020, á meðan að báðir voru forsetar í hið fyrra sinn, myndu vakna á ný.
Nú var það auðvitað svo að bæði Trump og Bandaríkjamenn, og Pútín og liðsmenn hans í Kreml, tóku ekki bókstaflega slíkar fullyrðingar Trumps um það að styrjöldinni í Úkraínu myndi ljúka daginn eftir að hann yrði kominn í Hvíta húsið á nýjan leik. Eins og margoft síðan voru fyrrgreind orð hans, og önnur þau sem sögð voru um lok styrjaldar í Úkraínu og margt annað sama eðlis, þannig að þau ætti auðvitað ekki að taka alvarlega frá orði til orðs. Allt það tal væri í sjálfu sér skýrt um það að Trump vildi ekkert með þá styrjöld hafa að gera, enda myndi engum takast að vinna hana, þar á meðal hvorki forseta Úkraínu né þeim í Kreml. Talsmátinn væri því eins konar áhersluatriði til að undirstrika hver afstaða Trumps forseta væri til þessa stríðs.
Reyndar er afstaða hans sú að Bandaríkin eigi að vera á móti stríðum, sé slíkt verjandi í hverju tilviki fyrir sig.