— Morgunblaðið/Eggert Jóhannesson
Ekki eru allir rótgrónir íbúar Borgarness sáttir við örnefnið Englendingavík þar í sveitarfélaginu, myndin sem hér birtist er þaðan. Frá þessum örnefnaríg greinir á facebook-síðunni Saga Borgarness sem er þrútin fróðleik

Ekki eru allir rótgrónir íbúar Borgarness sáttir við örnefnið Englendingavík þar í sveitarfélaginu, myndin sem hér birtist er þaðan.

Frá þessum örnefnaríg greinir á facebook-síðunni Saga Borgarness sem er þrútin fróðleik. Segir þar að Borgnesingar sem komnir eru af léttasta skeiði kunni betur við að tala um Kaupfélagsfjöruna, segjast ekki hafa heyrt nafnið Englendingavík fyrr en á síðari árum.

Engum sögum fer af skoðunum fólksins á myndinni um þetta efni, en Jón Helgason segir í bókinni Hundrað ár í Borgarnesi að farið hafi verið að kalla víkina Englendingavík eftir að Englendingurinn Meadow frá Hull byggði þar íshús og flutti þaðan út lax eitt sumar.