Forseti Vigdís sat í sextán ár.
Forseti Vigdís sat í sextán ár. — Ljósmynd/Forseti Íslands
Á 95 ára afmæli sínu, sem hún fagnar í dag, á Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti Íslands, enga ósk heitari en þá, að þjóðin beri gæfu til þess að standa vörð um náttúru landsins og íslenska tungu um ókomin ár

Á 95 ára afmæli sínu, sem hún fagnar í dag, á Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti Íslands, enga ósk heitari en þá, að þjóðin beri gæfu til þess að standa vörð um náttúru landsins og íslenska tungu um ókomin ár.

„Rétt eins og andrúmsloftið sem við öndum að okkur hættir okkur til að líta á óspillta náttúru landsins og íslenska menningu sem sjálfsagðan hlut. En svo er um hvorugt. Þessi verðmæti geta glatast með andvaraleysi á skömmum tíma,“ segir Vigdís í stuttu ávarpi í blaðauka sem fylgir Morgunblaðinu í dag í tilefni af stórafmæli hennar.

Vigdís fær kveðjur víða að, m.a. frá núverandi forseta og forsætisráðherra Íslands og fyrrverandi forsetum, auk þess sem rætt er við ýmsa samferðamenn um arfleifð hennar og kynni þeirra af henni.