Sigtryggur Sigtryggsson
sisi@mbl.is
Áform eru uppi um að reisa virkjun í landi sveitarfélagsins Ölfuss í grennd við Fjallið eina norður af Geitafelli.
Virkjunin hefur fengið vinnuheitið Bolaölduvirkjun. Stefnt er að virkjun með framleiðslugetu allt að 100 MW (megavött) af rafmagni og 133 MW af varma. Virkjuninni er ætlað að anna eftirspurn frá iðnaðarsvæðum við Þorlákshöfn.
Fyrstu rannsóknir benda til þess að þarna sé að finna nægjanlegan jarðhita. Þetta kemur fram í skipulagslýsingu sem birt er í skipulagsgáttinni. Hún er unnin af VSÓ Ráðgjöf fyrir Reykjavík Geothermal ehf. sem stendur að framkvæmdinni. Opið er fyrir athugasemdir til og með 22. maí nk.
Orkustofnun gaf út rannsóknarleyfi árið 2018 til Reykjavík Geothermal ehf. til rannsókna á mögulegum jarðhita í Ölfusafrétti í samræmi við lög nr. 57/1998 um rannsóknir og nýtingu auðlinda í jörðu.
Djúpar rannsóknarholur
Næsta stig rannsókna snýst um að afla frekari upplýsinga með borun djúpra rannsóknarhola. Reiknað er með að alls þurfi að gera 5-7 borteiga á svæðinu, bora 20 jarðhitaholur og 6-10 vatnsholur. Ákveðið hefur verið að tilraunaboranir fari fram á þremur borteigum sunnarlega á rannsóknarsvæðinu. Ef rannsóknarholurnar reynast vel verður þeim breytt í vinnsluholur fyrir virkjunina.
Verkefnastjórn rammaáætlunar hefur fjallað um Bolaölduvirkjun og komist að þeirri niðurstöðu að flokka hana í nýtingarflokk.
Niðurstaðan byggist á því að virkjunin hefur fengið fremur lága einkunn fyrir náttúruverðmæti, hefur tiltölulega lítil áhrif á aðra hagsmuni og er metin með almennt jákvæð samfélagsleg áhrif. Þá er efnahagslegt vægi verkefnisins talið mikið.
Afgreitt á vorþingi?
„Nýskipaður ráðherra umhverfis-, orku- og loftslagsmála hefur lagt áherslu á að rjúfa kyrrstöðu í orkumálum og flýta afgreiðslu rammaáætlunar. Hann hefur sérstaklega undirstrikað að virkjunarkostir í nýtingarflokki skuli njóta forgangs. Því má ætla að afgreiðsla Bolaöldu verði til umfjöllunar á komandi vorþingi,“ segir í skipulagslýsingunni.
Þar kemur fram að fyrirhugað virkjunarsvæði sé á hraunbreiðu sem kennt er við Heiðina há sem rann úr Brennisteinsfjöllum fyrir meira en 4.000 árum. Hraun sem runnið hafa eftir að jökull hvarf af landinu á síðjökultíma eru jarðminjar sem njóta verndar skv. 61. gr. laga um náttúruvernd nr. 60/2013.
Landnotkun á fyrirhuguðu breytingarsvæði er skilgreind sem óbyggt svæði í gildandi aðalskipulagi. Um óbyggð svæði gilda eftirfarandi ákvæði:
Óbyggð svæði eru opin svæði til almennrar útiveru eða takmarkaðrar umferðar fólks þar sem ekki er gert ráð fyrir mannvirkjagerð, þ.m.t. skógræktarsvæði önnur en nytjaskógrækt á bújörðum og landgræðslusvæði.
Svæðið er jafnframt vatnsverndarsvæði, nánar tiltekið fjarsvæði vatnsbóla.
Á svæðinu sem til skoðunar er fyrir nýtt iðnaðarsvæði er ekki í gildi deiliskipulag. Tillaga að deiliskipulagi verður unnin fyrir orkuvinnslusvæðið og verður hún auglýst samhliða tillögu að breytingu aðalskipulags. Jafnframt er stefnt að því að auglýsa umhverfismatsskýrslu samhliða skipulagstillögum. Öll orkuver af þessari stærðargráðu eru matsskyld samkvæmt lögum.
Skipulagslýsing er fyrsta skrefið í undirbúningi skipulagsáætlana og er ætlað að upplýsa hagaðila og umsagnaraðila strax í byrjun um fyrirhugaða tillögugerð, viðfangsefni hennar og áherslur í þeirri skipulagsvinnu sem fram undan er.
Kynnt á skipulagsgatt.is
Allir geta kynnt sé skipulagslýsinguna á skipulagsgatt.is. Helstu umsagnaraðilar sem gert er ráð fyrir að lýsing, vinnslutillaga og skipulagstillaga verði send til sérstaklega eru eftirfarandi: Skipulagsstofnun, Kópavogsbær, Umhverfis- og orkustofnun, Heilbrigðiseftirlit Suðurlands, Vegagerðin, Landsnet, Minjastofnun Íslands, Náttúruverndarstofnun Íslands, Veðurstofa Íslands, forsætisráðuneyti og Hveragerðisbær.
Sveitarfélagið Ölfus mun hafa ákveðinn forgang að orku úr virkjuninni, bæði heitu vatni og rafmagni (ef því verður við komið). Samstarf og samráð við Sveitarfélagið Ölfus er höfuðforsenda verkefnisins. Þá er forsenda auðlindanýtingar á svæðinu að sveitarfélagið Ölfus og íbúar þess njóti góðs af auðlindunum.