Elliðaey Þriðja stærsta eyjan í Vestmannaeyjaklasanum, Elliðaey, var ekki látin ósnortin í kröfugerð ríkisins.
Elliðaey Þriðja stærsta eyjan í Vestmannaeyjaklasanum, Elliðaey, var ekki látin ósnortin í kröfugerð ríkisins. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Kostnaður ríkissjóðs, vegna aðkeyptrar lögfræðiþjónustu í tengslum við kröfur sem ríkið gerði um að eyjar og sker við landið yrðu þjóðlendur, nemur rúmum 96 milljónum króna á þriggja ára tímabili sem tekur til áranna 2023, 2024 og 2025

Ólafur E. Jóhannsson

oej@mbl.is

Kostnaður ríkissjóðs, vegna aðkeyptrar lögfræðiþjónustu í tengslum við kröfur sem ríkið gerði um að eyjar og sker við landið yrðu þjóðlendur, nemur rúmum 96 milljónum króna á þriggja ára tímabili sem tekur til áranna 2023, 2024 og 2025. Þetta kemur m.a. fram í svari fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn Bergþórs Ólasonar alþingismanns Miðflokksins sem birt hefur verið á vef Alþingis.

Bergþór spurði um þann kostnað sem fallið hefur á ríkið við þessa kröfugerð sem og hverjir hefðu fengið greitt fyrir viðvikið.

Fram kemur í svarinu að stærsti hluti upphæðarinnar hafi runnið til Juris lögmannsstofu, rúm 91 milljón króna, en ríflega 5 milljónir voru greiddar teiknistofunni Landform vegna kortavinnu.

Í fyrirspurninni var og beðið um svör um hvernig umræddur kostnaður skiptist, annars vegar kostnaður við upphaflega kröfugerð og hins vegar kostnaður við endurskoðaðar kröfur.

Ásældust hólma í Borgarfirði

Svo sem fram hefur komið vakti upprunaleg kröfugerð ríkisins nokkra undrun ýmissa þar sem m.a. var gerð krafa um að eyjar sem sannarlega voru í einkaeigu yrðu gerðar að þjóðlendum og einnig var dæmi um að landskiki sem var fjarri sjó yrði þjóðlenda. Þar var um að ræða 11 hektara tún í landi Brekku í Norðurárdal sem svo óheppilega vill til að ber nafnið Kerlingarhólmi og er sú nafngift talin hafa valdið ásælni ríkisins í „hólmann“.

Í svari ráðuneytisins við spurningu um kostnað við upphaflega kröfugerð ríkisins kemur fram að hann hafi numið ríflega 48 milljónum. Lá sá kostnaður fyrir í byrjun febrúar 2024, en eftir þann tíma var tekið til við að endurskoða kröfugerðina. Var endurskoðuð kröfulýsing lögð fram í október og nam kostnaður við þá vinnu um 46,5 milljónum. Segir enn fremur í svarinu að eftir þann tíma hafi fallið til kostnaður við að fara yfir kröfulýsingar gagnaðila og vegna svara við fyrirspurnum óbyggðanefndar og nemur hann rúmum 1,7 milljónum. Fram er tekið að þar sem málsmeðferð fyrir óbyggðanefnd vegna eyja og skerja sé ólokið megi gera ráð fyrir að frekari kostnaður muni falla til, uns óbyggðanefnd hafi lokið störfum sínum sem verður fyrir næstu áramót skv. lögum.

Enginn afsláttur veittur

Spurningu Bergþórs um hvort ríkissjóður hafi fengið einhvern afslátt vegna vinnu við að útfæra kröfur um þjóðlendur sem taka til eyja og skerja og „voru augljóslega byggðar á misskilningi þar eð gerð var krafa um svæði sem voru inni í landi“ er svarað á þann veg að ekki hafi verið veittur sérstakur afsláttur vegna þess. Nefnt er að í einhverjum tilvikum hafi verið talin upp nöfn á svæðum í kröfulýsingu sem síðar hafi reynst vera uppi á landi. Flest hafi verið með landfyllingu eða tengingu við land sem ekki mátti sjá á kortum eða er hólmar í ósum. Þar sem þau svæði innan meginlandsins hafi verið utan afmörkunar óbyggðanefndar á svæðinu hafi þau í reynd verið undanskilin kröfu íslenska ríkisins.

Kostnaður við kröfugerð

Lögfræðiþjónusta og kortagerð

Árið 2023: 34.313.933 krónur

Árið 2024: 55.159.116 krónur

Árið 2025: 6.878.539 krónur

Juris lögmannsstofa, 91.281.076 krónur

Teiknistofan Landform, 5.070.512 krónur

Bergþór Ólason alþingismaður Miðflokksins

Vegferð sem stöðva ætti strax

„Ég reiknaði með að búið væri að setja töluvert af skattpeningum í þessa vegferð, en það verður að segjast eins og er að það kemur á óvart að fjárhæðin er hartnær 100 milljónir króna sem farið hefur einungis í þennan þátt málsins,“ segir Bergþór Ólason alþingismaður í samtali við Morgunblaðið.

Leitað var viðbragða hans við svari fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn hans um kostnað ríkisins vegna þjóðlendumála sem varðar kröfugerð ríkisins í eyjar og sker við landið.

Kröfur ríkisins í eyjar og sker við landið hafa vakið hörð viðbrögð fjölmargra landeigenda sem gripið hafa til varna til að verjast ásælni ríkisins í eyjar og sker sem þeir telja réttmæta eign sína. Óbyggðanefnd hefur þau mál til meðferðar og vænta má niðurstöðu áður en árið er úti.

„Kröfugerð ríkisins í þetta svæði 12, en undir það svæði falla eyjar og sker, sem að mínu mati og flestra þeirra sem ég hef talað við hefði aldrei átt að verða, er auðvitað vegferð sem ætti að stöðva strax. Þannig mætti spara okkur viðbótartjón, bæði skattgreiðendum sem og þeim sem þurfa að verjast óeðlilegum kröfum ríkissjóðs í þessum eignaupptökuleiðangri ríkisins,“ segir Bergþór.

Höf.: Ólafur E. Jóhannsson