Viðtal
Andrés Magnússon
andres@mbl.is
Öryggis- og varnarmál eru mjög í deiglu, sumpart í bland við önnur utanríkismál og því leitaði blaðið til Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur utanríkisráðherra til að inna hana eftir ýmsum þeim álitaefnum. Fyrir helgina nefndi hún t.d. að samstarf Íslands við Evrópusambandið (ESB) á sviði öryggis- og varnarmála væri komið í formlegan farveg, hvað felst í því?
„Ég sat fundi með Kaju Kallas [utanríkismálastjóra og varaforseta framkvæmdastjórnar ESB] og óskaði formlega eftir því að við gætum farið í svipað samstarf og Noregur hefur t.d. gert.
Við erum náttúrulega með þessar tvær grundvallarstoðir í okkar varnarmálum, sem er aðildin að Atlantshafsbandalaginu (NATO) og varnarsamningurinn við Bandaríkin. En eitt útilokar ekki annað og við höfum talið mikilvægt að fjölga stoðunum undir okkar varnar- og öryggisstefnu.
En er eitthvert hald í ESB á þessu sviði? Svíar og Finnar töldu það ekki duga og Pútín er alveg sama þó að Úkraína gangi í ESB …
„Það er alla vega þannig hald, að Danir fóru í þjóðaratkvæðagreiðslu þar sem þeir afgreiddu sérstaklega að þeir vildu ekki lengur hafa fyrirvara á varnarmálum.
Það sem skiptir máli og mín ábyrgð felst í er að fjölga stoðum undir varnir okkar Íslendinga. Ef fólki líður betur að ég telji upp löndin Þýskaland, Frakkland, Holland, Pólland, Ítalía og Austurríki í stað þess að nefna Evrópusambandið, þá get ég það vel.“
Hefur þetta skref verið rætt á vettvangi utanríkismálanefndar?
„Ég sendi minnisblað til utanríkismálanefndar og upplýsti ríkisstjórnina. En þetta er gert í nánu samstarfi við þingið, þvert á flokka, og dómsmálaráðuneytið, og Landhelgisgæsluna og ríkislögreglustjóra og CERTIS … og ég vil undirstrika það að kostur okkar, þessi kraftur sem felst oft í íslensku samfélagi – líka í stjórnsýslunni – að við erum lítið land, en einn af styrkleikum okkar er einmitt stuttar boðleiðir og mjög virkt samstarf.“
Hvað þykir þér um áhyggjur Sigríðar Á. Andersen af því að það gæti misskilnings erlendis um afstöðu Íslands til ESB og aðildarumsóknar að ESB. Er einhver misskilningur í gangi?
„Nei, það er enginn misskilningur í gangi. Það er alveg skýrt hvað stendur í stjórnarsáttmálanum og ég vona að Sigríður sé ekki að segja með þessu að hún sé smeyk við þjóðaratkvæðagreiðsluna. Þetta er risamál, sem við treystum þjóðinni til þess að taka næstu skref í.“
En Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra talaði öðruvísi á sínum landsfundi. Eru deildar meiningar um þetta í stjórnarliðinu?
„Nei, það eru ekki deildar meiningar. En mér finnst áhugavert að upplifa það að þeir flokkar, sem mest eru pirraðir út í þetta stjórnarsamstarf, verða fullir óþreyju þegar nefndar eru leiðir til að styrkja samstarfið. Mér finnst makalaust ef það er þannig að við megum ekki tala við Evrópusambandið, í staðinn fyrir að hugsa: „Hvar liggur hagsmunamatið okkar?“
Hagsmunamatið liggur í því að við þurfum að styrkja varnir landsins. Við gerum það með öflugri þátttöku innan NATO, með góðu samstarfi við Bandaríkin og ég vil undirstrika að það er ekkert sem bendir fram til þessa í okkar samskiptum við Bandaríkin til að það sé eitthvað að breytast, það ágæta og mikilvæga samstarf. En við þurfum samt að fjölga – eins og Evrópuríkin öll eru að gera, innan sem utan Evrópusambandsins – stoðunum undir okkar varnir og öryggi.
En mér finnst nálgun Miðflokksins áhugaverð, að það má sem sagt ekki leita til Evrópusambandsins þegar kemur að öryggi og vörnum af því að þetta er Evrópusambandið. Eins og það séu trúarbrögð. Mér finnst það klént og við erum einfaldlega að einbeita okkur að því að horfa á heildarhagsmuni Íslands í því öryggis- og varnarumhverfi, sem við blasir í dag. Það er ekki – og ég hef margundirstrikað það – það er ekki þannig að við séum að nota umhverfið eins og það er í dag til þess að ýta okkur eitt eða neitt. En við þurfum kalt hagsmunamat og þar eru íslenskir hagsmunir auðvitað í fararbroddi.“
Hvað með sambandið vestur um haf, svona í ljósi áhuga bandarískra stjórnvalda á Grænlandi?
„Ég vil undirstrika að samband okkar við Bandaríkin hefur verið gott og það er gott og ekkert sem bendir til að varnarsamningurinn standi ekki.
Það er hins vegar þannig að við, eins og allar aðrar þjóðir í Evrópu, þurfum að átta okkur á því að heimsmyndin er að breytast. Yfirlýsingar núverandi forystu Bandaríkjanna varðandi Grænland, við höfum svarað því alveg skýrt: Ekkert um Grænlendinga, án þeirra. Það er þeirra að ákveða hvaða leiðir þeir fara. Grænlendingar eru hluti af Atlantshafsbandalaginu og það verður einfaldlega að taka tillit til þess.
Samskipti okkar við Bandaríkin eru enn sem komið er góð, en það þýðir ekki að við getum ekki gert fleira og eflt samstarfið við önnur ríki.“