Vopnakerfi Freigátan er 140 metra löng og gæti orðið öflug viðbót.
Vopnakerfi Freigátan er 140 metra löng og gæti orðið öflug viðbót. — Ljósmynd/Maxar
Gervihnattamyndir sem teknar voru yfir Norður-Kóreu nýverið sýna það sem sérfræðingar telja víst að sé herskip í skipasmíðastöð. Ef satt reynist er þetta stærsta herskip sem einræðisríkið hefur framleitt til þessa

Gervihnattamyndir sem teknar voru yfir Norður-Kóreu nýverið sýna það sem sérfræðingar telja víst að sé herskip í skipasmíðastöð. Ef satt reynist er þetta stærsta herskip sem einræðisríkið hefur framleitt til þessa. Ýmis vopnakerfi sjást einnig vera í framleiðslu skammt frá. Er það mat sérfræðinga að verið sé að smíða freigátu sem búin verður stýriflaugum til árása á skotmörk á hafi eða í landi.

Freigátan mælist 140 metra löng en til samanburðar eru bandarísku freigáturnar af gerðinni Arleigh Burke rétt tæpir 154 metrar. Sérfræðingar segja smíði skipsins ekki koma á óvart, yfirvöld í Pjongjang hafi undanfarið lagt mikla áherslu á framleiðslu á nýjum vopnakerfum til að styrkja stöðu sína í Asíu enn frekar. Fái einræðisríkið fjölda freigáta á næstunni mun það ógna mjög nágrönnum sínum í suðri.

Eru Rússar að aðstoða?

Alþjóðasamfélagið hefur svo gott sem allt beitt Norður-Kóreu ýmsum þvingunum sl. ár. Úkraínustríðið og heldur slæmt gengi innrásarliðs Rússlands þar hefur hins vegar opnað fyrir nýja aðstoð. Nýlegur varnarsamningur á milli Pjongjang og Moskvu virðist m.a. fela í sér mikla rússneska aðstoð þegar kemur að þróun vopnakerfa fyrir hersveitir Norður-Kóreu. Í staðinn hafa Rússar fengið hernaðaraðstoð gegn Úkraínuher í Kúrsk-héraði. Ekki er útilokað að Rússar séu nú að aðstoða við smíð freigátunnar.

Sérfræðingur á sviði varnarmála segir flestar þjóðir vel getað smíðað skrokk á herskipi. Það sé hins vegar afar flókið að innleiða allan nauðsynlegan hug- og vopnabúnað, raftæki og ratsjár. Séu Rússar að aðstoða við framleiðsluna er líklegast að hjálpin sé á því sviði. khj@mbl.is