Sigurður Már Jónsson blaðamaður fjallar í pistli á mbl.is um „skattalegan feluleik“ ríkisstjórnarinnar og segir: „Það er viðkvæmt fyrir nýja ríkisstjórn að tala um skattahækkanir. Þess vegna er hækkun á auðlindaskatti kynnt sem „leiðrétting“ á gjaldi en ekki skattstofni og sú skattahækkun sem fjölskyldufólk fær með afnámi samsköttunar hjóna sögð vera „minni eftirgjöf“. Reyndar svo lítil að varla að það taki því að nefna það! Ferðaþjónustan í landinu er líka að upplifa nýjar álögur í formi frekari skattlagningar og gjaldtöku á greinina á sama tíma og hún glímir við dvínandi samkeppnishæfni og óvissu í efnahagsumhverfi og alþjóðasamskiptum.
Það má hafa skilning á því að ríkisstjórnin reyni að beita spunaher sínum í kringum þessar skattahækkanir enda koma þær illa heim og saman við gefin loforð og fyrirheit stjórnarflokkanna í síðustu kosningabaráttu. Það er hins vegar ástæða til að hafa áhyggjur af afleiðingum þessara skattahækkana sem ýmist ganga gegn fjölskyldunni eða grunnatvinnugreinum þjóðarinnar. Það er líka sérstakt áhyggjuefni hve illa undirbúnar þessar aðgerðir eru og á það sérstaklega við um hækkun auðlindaskatts en þar virðast engar greiningar eða sviðsmyndir hafa verið unnar eins og bent hefur verið á áður hér í pistlum. Hótanir atvinnuvegaráðherra um að keyra breytinguna í gegn með góðu eða illu staðfesta að pólitískur ásetningur tekur skynseminni fram á þessari vegferð ríkisstjórnarinnar.“