Ógn Úkraína hefur lengi óskað eftir Taurus-flugskeytum en til þessa hafa þýsk stjórnvöld verið hikandi. Nú virðist staðan þó vera að breytast.
Ógn Úkraína hefur lengi óskað eftir Taurus-flugskeytum en til þessa hafa þýsk stjórnvöld verið hikandi. Nú virðist staðan þó vera að breytast. — AFP/Varnarmálaráðuneyti Þýskalands
Leiðtogi kristilegra demókrata og næsti Þýskalandskanslari, Friedrich Merz, segist opinn fyrir því að senda Úkraínuher langdræg flugskeyti af gerðinni Taurus. Kænugarður hefur lengi kallað eftir vopnakerfinu sem sprengt getur upp skotmörk í allt að 500 kílómetra fjarlægð

Kristján H. Johannessen

khj@mbl.is

Leiðtogi kristilegra demókrata og næsti Þýskalandskanslari, Friedrich Merz, segist opinn fyrir því að senda Úkraínuher langdræg flugskeyti af gerðinni Taurus. Kænugarður hefur lengi kallað eftir vopnakerfinu sem sprengt getur upp skotmörk í allt að 500 kílómetra fjarlægð. Með vopni þessu verður hægt að sprengja upp mikilvæg hernaðarleg skotmörk djúpt inni í rússnesku landi. Moskvuvaldið hefur þegar brugðist við tíðindunum, segir þetta alvarlega stigmögnun.

Merz lýsti þessu yfir í samtali við þýska fjölmiðilinn ARD. Sagði hann nauðsynlegt að veita Úkraínu áframhaldandi hernaðaraðstoð og ný vopnakerfi sem breytt geta gangi stríðsins. Með Taurus væri hægt að stórskaða getu Rússlands til árása. Nefndi kanslarinn sérstaklega Kertsj-brú, sem tengir Rússland við Krímskaga, sem mikilvægt skotmark. En einnig Krímskaga sjálfan, þar eru hernaðarlega mikilvæg skotmörk sem Rússar mega ekki við því að missa í árásum. Fari Krímskagi í uppnám mun það hafa miklar og alvarlegar afleiðingar í för með sér fyrir innrásarlið Rússa.

Banvæn viðbót í vopnabúrið

Taurus-flaugar eru sérstaklega hannaðar með þann tilgang í huga að sprengja upp mannvirki á borð við stjórnstöðvarbyggingar sem þola hefðbundnar loftárásir. Flaugunum er komið fyrir á orrustuþotu sem skotið getur vopninu í allt að 500 kílómetra fjarlægð. Þetta stórminnkar líkur á því að loftvarnarsveitir geti ráðist á þotuna áður en hún sleppir vopninu. Flaugin sjálf er rúmir 5 metrar að lengd, rétt rúmlega einn metri að breidd og vegur nærri 1,5 tonn. Útlit hennar og hönnun gerir hana torséða á ratsjá. Sjálf sprengihleðslan er 400 kíló og getur Taurus m.a. grandað sprengjuheldum byggingum og mannvirkjum neðanjarðar.

Bæði Bandaríkin og Bretland hafa sent Úkraínuher langdræg flugskeyti sem valdið hafa miklu tjóni á stríðsvél Rússlands, þ. á m. á Krímskaga.

Talsmaður Rússlandsforseta segir afhendingu þessa vopnakerfis nú vera alvarlega stigmögnun á stríði sem staðið hefur yfir í þrjú ár.

Höf.: Kristján H. Johannessen