Vettvangur
Andrés Magnússon
andres@mbl.is
Hin eitt sinn friðsæla Svíþjóð breyttist á nokkrum árum í vígvöll glæpagengja, en hvergi í Evrópu eru sprengjuárásir, íkveikjur, skotárásir og opinber banatilræði algengari. Sérstakar áhyggjur vekur að glæpagengin beita börnum og unglingum fyrir sig í auknum mæli til alls kyns glæpaverka, þar á meðal við sprengjutilræði og leigumorð.
Gengjastríðið í Svíþjóð er hvað harðast í helstu borgunum eða jaðarbyggðum þeirra, í Stokkhólmi, Gautaborg, Málmhaugum og Uppsölum. En það teygir sig miklu víðar og vandinn er fyrir allra augum. Ekki þó nándar nærri allt.
Fréttamaðurinn Diamant Salihu hjá sænska ríkissjónvarpinu SVT og áður blaðamaður á Expressen hefur vakið mikla athygli fyrir umfjöllun sína um glæpaölduna, sem hófst að miklu leyti í tengslum við innflytjendahópa, en hefur breiðst út svo ræða má um samhliða neðanjarðarsamfélag.
Tilboðsmarkaður glæpa
Mörgum brá hins vegar í brún þegar hann sýndi skjáskot af tilboðsmarkaði glæpaverka í Svíþjóð.
Við fyrstu sýn líta þau út eins og hversdagslegur ruslpóstur – litríkt letur, peningatákn og loforð um skjótfenginn gróða – en hauskúpur og byssur gefa vísbendingu um að þetta sé ekkert venjulegt netskrum í gigg-hagkerfinu, heldur morðauglýsingar, sendar í lokuðum hópum á félagsmiðlum og dulkóðuðum skilaboðaskjóðum.
„Allar tegundir verkefna í boði,“ segir í einni slíkri auglýsingu, allt frá sendlastörfum til böðulsverka. Og í annarri: „Aldur og reynsla engin fyrirstaða.“ Launin eru góð og allt gert upp í samræmi við verkin: skjótt, hljótt og án spurninga.
Það sem þó vekur ekki síst óhug er sú staðreynd að morðverktakarnir eru iðulega á barnsaldri – alveg niður í 12 eða 13 ára gamlir.
Það er engin tilviljun. Í Svíþjóð má ekki gera börnum undir 15 ára aldri refsingu fyrir alvarlega glæpi og það notfæra glæpagengin sér.
„Það eru svo margir barnahermenn á götunum að við höfum enga tölu á þeim,“ segir Salihu.
„Og þeir eru orðnir hluti af kerfinu – ódýrir, hlýðnir og vita vel að þeir munu ekki fá neina refsingu svo heitið geti.“
Salihu hefur undanfarinn áratug skrásett sívaxandi skipulagða glæpastarfsemi í Svíþjóð, þar sem hryllingsfréttir af skotárásum, sprengjum og aftökum virðast nánast hversdagslegar, margir virðast orðnir ónæmir fyrir þeim.
Hann lýsir því hvernig unglingar eru gripnir vikulega í tengslum við morðtilraunir eða skotárásir, oft án nokkurs sakaferils – aðeins með vopn, síma með fyrirmælum og kort af staðsetningu fórnarlambsins.
Glæpamenn án landamæra
Í bókum sínum tveimur, sem báðar urðu metsölubækur í Svíþjóð, hefur Salihu grafist fyrir um rót vandans. Fyrri bókin, Tills alla dör (Uns allir deyja), fjallar um blóðugt stríð tveggja sómalskra gengja, þar sem níu ungmenni féllu. Seinni bókin, När ingen lyssnar (Þegar enginn hlustar), tekur fyrir skipulag glæpasamtakanna og dregur upp mynd af Svíþjóð í þjóðbraut alþjóðlegrar glæpastarfsemi.
Þar er Evrópuhugsjónin í góðu gildi og vel það, en hugmyndir um frjálst flæði vöru, fólks, þjónustu og fjármagns enda ekki við útjaðar Evrópska efnahagssvæðisins, heldur ná til Albaníu, Asíu og Afríku.
Salihu segir þó ekki aðeins sögur af botnlausri glæpaöldu. Þetta er Svíþjóð, svo auðvitað fjallar hann einnig um samfélagslega firringu, barnaskap og brostnar vonir, tvískinnung og tálsýnir.
Svíþjóð hefur lengi verið upptekin af sjálfsmyndinni um víðtækt velferðarsamfélag og verið með fádæmum gestrisin og örlát gagnvart flóttafólki, nánast upptekin af öfugri nýlendustefnu þar sem koma á þjóðum heims til manns með því að leyfa þeim að koma til Svíþjóðar.
En einmitt þessu lýsir Salihu sem stórum hluta vandans, Svíar hafi verið svo uppteknir við að lofsyngja stefnuna vegna fagurra fyrirheita og markmiða að þeir hafi lokað augunum fyrir því sem miður fór. Bæði stjórnmálamenn og blaðamenn hafi orðið uppvísir að því að gera lítið úr vargöldinni af ótta við að umræða um augljós tengsl glæpagengja við tiltekin innflytjendasamfélög yrði vatn á myllu þjóðernisöfgafólks.
Sú þöggun hefur svo auðvitað sópað fylgi að Svíþjóðar-Demókrötum.
„Þetta er ekki einfalt. Það eru margir þættir sem spila saman,“ segir Salihu. Hann vill ekki skella skuldinni eingöngu á innflytjendur eða kerfið.
„En ef við tölum ekki um þetta leysum við ekki neitt.“
Hann þekkir báðar hliðar málins. Hann kom sjálfur til Svíþjóðar sem barn flóttamanna frá Kósovó. Fyrir vikið hefur hann sérstakan trúverðugleika til þess að fjalla um þessi mál, hann þekkir þau og getur sagt ýmislegt sem innfæddir Svíar að langfeðgatali myndu veigra sér við að segja upphátt.