Samverustund var haldin í Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra á Sauðárkróki í gær vegna umferðarslyssins alvarlega sem varð í nágrenni Hofsóss á föstudaginn, en þar slösuðust fjórir ungir piltar á aldrinum 17 til 18 ára alvarlega og liggja tveir þeirra enn á gjörgæsludeild. Þrír piltanna eru nemendur við skólann, þar sem fólki gafst í gær kostur á að koma og þiggja upplýsingar um hvar leita megi hjálpar, telji það sig hennar þurfi, svo sem áfallahjálpar. Var þetta megintilgangur stundarinnar, sem um hundrað manns sóttu, og fengu þeir að tjá sig sem það vildu, þótt ekki hafi verið við alla viðstadda heldur í tveggja manna samtölum. Er það mál skólastjórnenda að þeir sem mættu hafi verið ánægðir með að fá tækifæri til þess. Fulltrúar félagsþjónustanna í Húnavatnssýslunum sóttu stundina auk lögreglu og fulltrúa frá Heilbrigðisstofnun Norðurlands og gerðu gestirnir sitt, hverjir af sínum vettvangi, til að leiðbeina þeim sem um sárt eiga að binda eftir þennan alvarlega atburð rétt utan Hofsóss á föstudaginn.