Atvinnuþátttaka fólks á aldrinum 20-64 ára var hvergi meiri í fyrra en á Íslandi í þeim 30 Evrópulöndum sem nýr samanburður Eurostat, hagstofu Evrópusambandsins, nær til. Mældist atvinnuþátttaka fólks á þessum aldri 87% á Íslandi og hefur ekki verið meiri frá 2017. Með atvinnuþátttöku er átt við bæði þá sem eru starfandi á vinnumarkaði og þá sem eru atvinnulausir og í atvinnuleit.
Atvinnuþátttaka var að meðaltali 75,8% í löndum Evrópusambandsins og er það hæsta hlutfallið að meðaltali fyrir ESB-löndin frá árinu 2009.
Næsthæsta hlutfallið á eftir Íslandi meðal einstakra Evrópulanda var í Hollandi þar sem atvinnuþátttaka var 83,5%. Annars staðar á Norðurlöndum mældist þátttaka 20-64 ára 81,9% í Svíþjóð, 80,2% í Danmörku, 80% í Noregi og 77% í Finnandi. Lægst var hlutfallið í fyrra á Ítalíu, 67,1%.
Eurostat kannaði einnig hversu stór hluti fólks á vinnumarkaði sem hefur aflað sér háskólamenntunar eða annarrar sérfræðimenntunar eftir framhaldsskóla er með meiri menntun en krafist er af því í starfi. Í ljós kemur að í löndum ESB eru að meðaltali 21,3% þessa hóps ofmenntuð miðað við störfin sem þau gegna, 20,5% karla og 22% kvenna. Hlutfallið er hæst á Spáni, eða 35%, og í Grikklandi, 33%, en lægst í Lúxemborg, 4,7%.
Á Íslandi var hlutfall fólks með menntun umfram starfskröfur 16% í fyrra. Er það svipað hlutfall og á árunum þar á undan en nokkru hærra en á síðasta áratug þegar það var á bilinu 13-14%. Í meirihluta Evrópulanda er hlutfall ofmenntaðra nokkru hærra meðal kvenna en karla en hér á landi er því öfugt farið. Nokkru hærra hlutverk karla en kvenna á Íslandi er með meiri menntun en krafist er af þeim í starfi. omfr@mbl.is