María Rut Kristinsdóttir
María Rut Kristinsdóttir
Það er ákveðin eftirvænting sem fylgir dymbilvikunni. Við Íslendingar vitum vel hvað hún boðar. Ekki bara súkkulaði, páskasælu og minningu frelsarans. Heldur líka að nú sé stutt í íslenska vorið. Svo kemur jafnvel sumar (eða einhvers konar vonbrigði sem áttu að kallast sumar)

Það er ákveðin eftirvænting sem fylgir dymbilvikunni. Við Íslendingar vitum vel hvað hún boðar. Ekki bara súkkulaði, páskasælu og minningu frelsarans. Heldur líka að nú sé stutt í íslenska vorið. Svo kemur jafnvel sumar (eða einhvers konar vonbrigði sem áttu að kallast sumar).

Talandi um slík vonbrigði. Sumarið í fyrra var það kaldasta sem við höfum upplifað síðan 1998. Óvenjumikið snjóaði á Norðurlandi í júní. Lægðir gengu endurtekið yfir landið allt með tilheyrandi úrkomu og veseni. Við höfum líklega flest reynt að gleyma þessu sumri en svona var þetta.

Fyrir mörg okkar þýddi það færri útilegur, færri grillveislur og ekkert sólbað. Fyrir mig þýddi það þrjóskukeppni við garðhúsgögnin sem ég hafði sett upp og var mikið þrekvirki. Fjölskyldan varð að þola þá raun að sitja úti með teppi í nístingskulda því að við (eða ég) ætluðum sannarlega að njóta þessara lífsgæða. Sem fljótt varð til þess að við flúðum inn og játuðum okkur sigruð.

En fyrir bændur var þetta ástand langt í frá að vera gamanmál. Búfé var á húsi langt eftir sumri og þó nokkuð var um gripafelli þar sem ekki tókst að koma skepnum á hús. Þá varð verulegur uppskerubrestur hjá grænmetisbændum og kornuppskera var sömuleiðis með minnsta móti.

Á dögunum tilkynnti Hanna Katrín Friðriksson atvinnuvegaráðherra að ríkisstjórnin ætlaði að verja allt að 725 milljónum króna til stuðnings þeim bændum sem urðu fyrir tjóni vegna kuldakastsins „sumarið“ 2024. Stuðningurinn á að mæta tjóni og afföllum af afurðum og gripum sem og tjóni á heyjum og annarri uppskeru.

Samspil mannsins og náttúrunnar er og verður vafalaust alltaf sérstakt og ófyrirsjáanlegt. Við Íslendingar höfum reynslu af þessari sambúð og höfum lært að nýta náttúruna á sjálfbæran hátt sem er ákveðin undirstaða velmegunar þjóðarinnar. En þegar náttúran bítur frá sér á það auðvitað ekki að vera svo að atvinnuvegir sem verða fyrir tjóni sitji uppi með það einir. Samhliða þessari ákvörðun ráðherra um stuðning til bænda á því að endurskoða framtíðarfyrirkomulag sjóða sem eiga að grípa atvinnuvegi þegar óblíð náttúruöflin láta á sér kræla.

Ég náði að sitja tvo fundi í hringferð atvinnuvegaráðherra og Bændasamtakanna í síðustu viku. Annars vegar á Blönduósi og hins vegar í Borgarfirði. Ákallið er skýrt; að bændur fái að stunda búskap í fyrirsjáanlegu og traustu rekstrarumhverfi og að afkomuöryggi þeirra sé tryggt. Það er auðvitað ákveðin forsenda fyrir fæðuöryggi þjóðarinnar og fjölbreyttum búrekstri um allt land. Svo er bara að vona að það komi sumar í sumar.

Höfundur er þingmaður Viðreisnar. mariraut@althingi.is

Höf.: María Rut Kristinsdóttir