Akureyri Horft af Búðarhöfða.
Akureyri Horft af Búðarhöfða. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Útkoman var framar vonum og erum við stolt af útkomunni,“ segir Heimir Örn Árnason, formaður bæjarráðs Akureyrar. Árs­reikningar bæjar­ins fyrir árið 2024 eru komnir til umfjöllunar í bæjarráði og bíða afgreiðslu

„Útkoman var framar vonum og erum við stolt af útkomunni,“ segir Heimir Örn Árnason, formaður bæjarráðs Akureyrar. Árs­reikningar bæjar­ins fyrir árið 2024 eru komnir til umfjöllunar í bæjarráði og bíða afgreiðslu. Niðurstaða rekstrar A-hluta var jákvæð um 834 millj. kr. en áætlun gerði ráð fyrir því að niðurstaða yrði 632 millj. kr. í mínus. Sé allur pakkinn tekinn, það er samstæða Akureyrarbæjar, aðalsjóður og fyrirtæki í bæjareigu, eru tölurnar á sömu lund. Þar er niðurstaðan 2,2 milljarða afgangur eftir skatta og fjármagnsgjöld.

Meginskýringar á bættri afkomu eru, segir Heimir Örn, áhrif lækkandi verðbólgu á árinu og hófleg hækkun lífeyrisskuldbindinga ásamt nokkurri hækkun tekna frá Jöfnunarsjóði og þjónustutekna, einkum hjá hafnarsamlagi og veitum. „Einnig náðum við að hagræða í rekstri og halda vel utan um okkar stærstu verkefni.“

Veltufé frá rekstri var í árslok 5.736 millj. kr., 766 millj. kr. umfram áætlun. Handbært fé var 2.951 millj. kr. Launagjöld voru rétt tæpir 20 milljarðar eða um 53% af heildarútgjöldum. Fjárhagur þykir traustur og nam skuldaviðmið samstæðunnar í árslok 75% af ársveltu. Sé A-hlutinn einn skoðaður er viðmið um skuldir 54%.

„Þetta eru góðar tölur sem gefa svigrúm til uppbyggingar,“ segir ­Heimir Örn. Nefnir þar nýjan leikskóla í Hagahverfi, byggingu íbúðakjarna í Hafnarstræti og framkvæmdir á íþrótta­svæðum. Þá séu einkaaðilar að byggja og fólki fari fjölgandi. Akur­eyringar eru nú 20.464. sbs@mbl.is