Nýgerðir kjarasamningar starfsmanna hjá Norðuráli og Elkem Ísland á Grundartanga eru tengdir við launavísitölu Hagstofunnar. Eru þeim tryggðar hækkanir samkvæmt 95% af launavísitölu sem verða á hverju ári á vísitölunni frá 1. janúar 2026 og út samningstímann. Hið sama á við um aðra kjaraliði á borð við orlofs- og desemberuppbætur. Hækkun launataxta skv. launavísitölu á að tryggja starfsmönnum það launaskrið sem verður á vinnumarkaðinum.
Atkvæðagreiðslur í stéttarfélögum starfsmanna um báða samningana eru að hefjast. Fram kemur í kynningu Verkalýðsfélags Akraness (VLFA) á samningnum við Norðurál að laun starfsmanna hækki afturvirkt frá 1. janúar sl. um 6,15%. Orlofs- og desemberuppbætur hækka sömuleiðis.
Tenging launa við launavísitöluna hefur verið í samningum starfsmanna frá 2015. Vilhjálmur Birgisson formaður VLFA segir í kynningu á Norðurálssamningnum að hann skili starfsmönnum „umtalsvert meira en aðrir samningar sem gerðir hafa verið í þessari samningslotu“. Hækki vísitalan um 6,1% fái starfsmennirnir 28,5% eftir hækkanir í fjögur ár og minnir á að kennarar náðu 24% á fjórum árum eftir átta vikna verkfall.
Samningurinn við Norðurál gildir í fimm ár en samningur við Elkem í fjögur ár. Uppsagnarákvæði er í Elkem-samningnum vegna óvissu með endurnýjun raforkusamnings fyrirtækisins við Landsvirkjun og er miðað við að tilkynnt verði fyrir 15. desember ár hvert hvort samningurinn verður framlengdur. omfr@mbl.is