Steinþór Guðbjartsson
steinthor@mbl.is
Menntaskólinn í Hamrahlíð sigraði Menntaskólann á Akureyri í Gettu betur, nýafstaðinni spurningakeppni framhaldsskólanna. Valgerður Birna Magnúsdóttir var í sigurliði MH en Magnús Teitsson, faðir hennar, var í sigurliði MA 1991 og 1992. Hún ætlaði sér snemma að feta í þessi fótspor föður síns og þótt hún hafi ekki náð að jafna metin er hún ánægð með árangurinn. Gleði föðurins leynir sér heldur ekki.
Dóttirin fékk snemma að heyra af árangri föðurins í keppninni og einsetti sér að gera betur. „Það var planið frá unga aldri og ég fékk mikla hvatningu heima til þess,“ segir hún, en þau hafi oft spilað spurningaspil. „Ég sagði einhverju sinni við hana að ef hana langaði til að sigra í keppninni myndum við vinna í því að láta það gerast,“ bætir Magnús við.
Innst inni vildi Valgerður slá föður sínum við en þegar á reyndi var það óraunhæft. „Nú er menntaskólinn bara þrjú ár,“ útskýrir hún. Hún var í keppnisliðinu á fyrsta ári en þá datt það snemma út. „Við vorum öll ný í liðinu og vissum lítið hvað við vorum að gera,“ segir hún. Lítill agi hafi verið á æfingum en þau hafi tekið sér tak árið eftir. Reynsluboltar hafi þá tekið við keflinu og sigrað og hún verið í varaliðinu. Nú hafi hún, Flóki Dagsson og Atli Ársælsson endurtekið leikinn.
Dýpka viskubrunninn
Þegar Magnús tók þátt í keppninni var nánast enginn undirbúningur en nú er öldin önnur. „Það eru stífar æfingar og við reynum að taka 200 til 300 hraðaspurningar á hverri æfingu,“ segir Valgerður. Byrjað sé á einni æfingu á viku í október, fljótlega sé þeim fjölgað í tvær til þrjár vikulega og æft sé daglega að loknum jólaprófum, tvo til sex tíma hvern virkan dag og fimm til sex tíma á frídögum. „Við erum í sjálfstæðri heimildaöflun, fáum glærukynningar frá ýmsum velunnurum og förum yfir gamlar keppnir á RÚV, búum okkur undir keppnina með því að reyna að svara spurningunum í sjónvarpinu, æfum þannig taktík og að dýpka viskubrunninn.“
Magnúsi bregður við að heyra þessa lýsingu. „Ég held að við höfum verið síðasta liðið til að sigra í keppninni án þess að vera í sérstökum æfingabúðum. Við hittumst í mesta lagi tvisvar fyrir hverja viðureign og aldrei lengi í einu.“
Valgerður er mikil keppnismanneskja og hún sigraði til dæmis í Pangea-stærðfræðikeppninni fyrir grunnskólanema hérlendis þegar hún var í 8. bekk, en keppnin er haldin í 8. og 9. bekk í yfir 20 Evrópulöndum. Hún var í liði MH í Morfís, mælsku- og rökfræðikeppni framhaldsskólanna, 2023 og 2024 og tapaði naumlega fyrir liði MA í úrslitum í fyrra. „Það var því svolítið gott að ná þeim núna,“ segir hún.
Valgerður er á mála- og félagsfræðibraut og verður stúdent í árslok en hefur ekki ákveðið hvað tekur þá við. Hún segir eflandi að vera í keppnisliðinu og ná langt og að sigurliðið verði hugsanlega í þjálfarateyminu á næsta ári. „Við sækjum sennilega um það og sjáum til hvað gerist.“