Íranski stórmeistarinn Parham Maghsoodloo varð efstur á Reykjavíkurskákmótinu í Hörpu, sem lauk í gær. Hlaut hann 7½ vinning af 9 mögulegum og tryggði sér sigurinn í lokaumferðinni.
Á skak.is segir að sigurinn hafi verið einstaklega glæsilegur í ljósi þess að hann tók sér hjásetu og hefði tapað á oddastigum hefði einhver náð honum. Af þeim sem komu í 2.-11. sæti með 7 vinninga varð Vasyl Ivanchuk hæstur á oddastigum.
Af íslenskum keppendum stóðu Vignir Vatnar Stefánsson, Bragi Þorfinnsson og Jón Viktor Gunnarsson sig best, allir með 6½ vinning. Þeir enduðu í efri hluta mótsins og geta kvatt mótið þokkalega sáttir, eins og segir í frétt á skak.is.