Ragnar Árnason
Ragnar Árnason
Aukin skattheimta á grunnatvinnuvegina minnkar þjóðartekjur, skerðir lífskjör og rýrir opinberar skatttekjur þegar til lengdar lætur.

Ragnar Árnason

Í stefnuskrá ríkisstjórnar Kristrúnar Frostadóttur eru fögur orð um að efla atvinnulífið og auka verðmætasköpun. Þar er því lýst þegar í upphafi að ríkisstjórnin muni „vinna að aukinni verðmætasköpun í atvinnulífi“ og í aðgerðalista því m.a. lofað að ríkisstjórnin muni stuðla að aukinni framleiðni (aðgerð 5) og hagstæðum rekstrarskilyrðum fyrirtækja (aðgerð 10).

Þessi stefnumið eru skynsamleg, enda er aukin verðmætasköpun forsenda þess að unnt sé að bæta hag þjóðarinnar, svo ekki sé minnst á að draga úr fátækt, efla velferðarkerfið, styrkja menntakerfið og greiða hina svokölluðu innviðaskuld sem einnig er á stefnuskrá ríkisstjórnarinnar.

Efndir þveröfugar við stefnumið

Því miður virðast ekki allir ráðherrar ríkisstjórnarinnar hafa lesið þessa stefnuskrá eða tekið hana alvarlega, því fyrstu aðgerðir þeirra einkennast af viðleitni til að draga úr verðmætasköpun, hindra framleiðniaukningu og veikja grunnatvinnuvegi þjóðarinnar.

Í sjávarútvegi hefur atvinnuvegaráðherra kynnt áform sín um að stórauka sérstaka skattheimtu, sem þó er ærin fyrir, og flytja stærri hluta mögulegs þorskafla yfir í hið þjóðhagslega óhagkvæma og ríkisstyrkta strandveiðikerfi.

Í landbúnaði, þar sem svo sannarlega er ekki vanþörf á hagræðingu, hyggst atvinnuvegaráðherra koma í veg fyrir að unnt sé að lækka vinnslukostnað á kjöti með því að láta afnema lagaákvæði sem heimilar samvinnu og samruna kjötvinnslustöðva, en hefur á hinn bóginn látið kyrrt liggja að kornmölun hrekist úr landi með tilheyrandi atvinnumissi, kostnaðarauka og skerðingu á fæðuöryggi landsmanna.

Í ferðaþjónustu hefur atvinnuvegaráðherra lýst áformum ríkisstjórnarinnar um að leggja á það sem hún kallar auðlindagjöld á ferðaþjónustuna, sem geta verið bæði víðtæk og margvísleg eins og fram kemur í minnisblaði ríkisstjórnarinnar um þetta efni (sjá Morgunblaðið 11. apríl síðastliðinn).

Áhrif á atvinnulíf og þjóðarframleiðslu

Hærri skattar á atvinnuvegi draga óhjákvæmilega úr umsvifum þeirra miðað við það sem að öðrum kosti hefði orðið. Bæði sjávarútvegur og ferðaþjónusta eiga í harðri samkeppni við erlend fyrirtæki á alþjóðlegum mörkuðum. Augljóst er að hærri skattar á þessar greinar veikja samkeppnisstöðu þeirra gagnvart hinum erlendu samkeppnisaðilum. Umrædd skattahækkun er því til þess fallin að flytja hluta af verðmætasköpun þessara greina til útlanda og minnka þannig verðmætasköpun þeirra en ekki auka sem ríkisstjórnin segist vilja vinna að í stefnuskrá sinni.

Hærri skattar á ferðaþjónustu hækka verð innlendrar ferðaþjónustu og fækka þannig þeim ferðamönnum sem koma til landsins. Hærri skattar á sjávarútveg stuðla að því að greinin tapi í samkeppninni um bestu fiskmarkaðina og verði að sætta sig við lægra afurðaverð en áður. Hærri skattar þýða jafnframt að greinin hefur minna fé til fjárfestinga, rannsókna og þróunar og verður því einnig undir í samkeppninni um vöruþróun og gæði á fiskmörkuðum heimsins. Afleiðingin er lægra útflutningsverð sjávarafurða en ella hefði verið og því lægri útflutningstekjur þjóðarinnar jafnvel þótt fiskafli breytist ekki.

Minna framleiðsluverðmæti í ferðaþjónustu og sjávarútvegi þýðir að sama skapi minni þjóðartekjur. Minni þjóðartekjur þýða minna ráðstöfunarfé til neyslu og því minni hagsæld landsmanna. Einnig verður minna ráðstöfunarfé til fjárfestinga og því minni hagvöxtur. Þjóðartekjur í framtíðinni dragast því enn frekar saman og þar með hagsæld. Því mun koma að því, að öllum líkindum innan tiltölulega fárra ára, að opinberar skatttekjur dragist saman þrátt fyrir þyngri skattbyrði á sjávarútveg og ferðaþjónustu.

Hverjir bera þyngstu byrðarnar

Samdráttur atvinnutekna verður auðvitað mestur þar sem viðkomandi atvinnuvegir eru staðsettir. Nálægt 90% sjávarútvegsins eru staðsett utan höfuðborgarsvæðisins. Því eru það íbúar landsbyggðarinnar, ekki síst á Snæfellsnesi, Vestfjörðum, Austfjörðum og Vestmannaeyjum, sem munu verða fyrir mestu skakkaföllunum af aukinni skattheimtu af sjávarútvegi.

Samdrátturinn í ferðaþjónustu verður að líkindum miklu jafnari yfir landið. Hann mun þó auðvitað verða mestur á þeim stöðum þar sem gjaldtakan verður hæst. Framkvæmd skattheimtunnar ræður því miklu um hvar hún kemur þyngst niður.

Til hvers er leikurinn gerður?

Aukin skattheimta á grunnatvinnuvegina, sama hvaða nafni hún er kölluð, dregur úr umsvifum þeirra og minnkar þjóðartekjur og hagvöxt. Hún rýrir því lífskjör landsmanna bæði í bráð og lengd. Vegna minni þjóðartekna munu opinberar skatttekjur jafnframt óhjákvæmilega minnka er fram í sækir.

Því er eðlilegt að spurt sé hví ríkisstjórnin hafi kosið að leggja í þessa vegferð. Er ekki hlutverk hennar að bæta lífskjör landsmanna? Telji hún að vandinn sé að brúa fjárhalla ríkissjóðs, hefði ekki verið miklu nær lagi að minnka ónauðsynlegustu ríkisjóðsútgjöldin? Þar er vissulega af nægum útgjaldaliðum að taka sem lítt eða ekki nýtast fyrir íslenska ríkisborgara.

Höfundur er prófessor emeritus.

Höf.: Ragnar Árnason