Veiðigjöld Deilur um stjórn fiskveiða eru langvinnar, en þótt ekki sé mikið rifist um fiskveiðikerfið lengur er þeim mun meira þrefað um skattlagningu.
Veiðigjöld Deilur um stjórn fiskveiða eru langvinnar, en þótt ekki sé mikið rifist um fiskveiðikerfið lengur er þeim mun meira þrefað um skattlagningu. — Morgunblaðið/Óskar Pétur Friðriksson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS) sendu í gær frá sér ítarlega umsögn um frumvarpsdrög Hönnu Katrínar Friðriksson atvinnuvegaráðherra um breytingar á lögum um veiðigjald, sem hún kynnti ásamt Daða Má Kristóferssyni fjármálaráðherra hinn 25

Í djúpsjánni

Andrés Magnússon

andres@mbl.is

Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS) sendu í gær frá sér ítarlega umsögn um frumvarpsdrög Hönnu Katrínar Friðriksson atvinnuvegaráðherra um breytingar á lögum um veiðigjald, sem hún kynnti ásamt Daða Má Kristóferssyni fjármálaráðherra hinn 25. mars.

Í umsögninni er varað við margvíslegum alvarlegum afleiðingum fyrir sjávarútveg, atvinnulíf og sveitarfélög í sjávarbyggðum og þjóðarhag í heild, þar sem breytingin muni óhjákvæmilega veikja samkeppnisstöðu íslensks sjávarútvegs og draga úr verðmætasköpun hans.

Þá telja SFS frumvarpið brjóta gegn stjórnarskrá, að undirbúningi þess hafi verið ákaflega ábótavant og ráðherra vanrækt bæði rannsóknarskyldu sína og samráð.

Meingallað verðviðmið

Frumvarpsdrög ráðherra mæla fyrir um að veiðigjald miðist við markaðsverð á íslenskum fiskmörkuðum fyrir bolfisk eins og þorsk og ýsu, en við uppboðsverð á norskum markaði fyrir uppsjávartegundir svo sem síld, loðnu og makríl.

SFS fullyrða að þessi aðferð endurspegli ekki raunverulegt aflaverðmæti í samþættri virðiskeðju íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja, en svipaðar viðvaranir mátti finna í minnisblaði ráðuneytisins sjálfs í miðri stjórnarmyndun stjórnarflokkanna.

Þá gangi hugmyndin um að reisa íslenska skattheimtu á markaðsaðstæðum í Noregi gegn tilmælum OECD og AGS um að skattlagning skuli taka mið af aðstæðum í hverju landi. Verðmyndun er allt önnur í Noregi með alla sína ríkisstyrki og norskt verðviðmið skapar kostnaðarsama gengisáhættu að óþörfu.

Áform um kerfisbreytingu í sveiflukenndri grein eru ávallt varasöm, en SFS vara við því að frumvarpið geti leitt til allt að 130% hækkunar á veiðigjaldi miðað við árið 2023. Til dæmis hefði gjald á makríl hækkað um 338% árið 2024, sem gæti ýtt virku tekjuskattshlutfalli greinarinnar upp í 75-96%, en slík skattbyrði væri óviðráðanleg.

Hækkun veiðigjalds mun, að mati SFS, auka hráefniskostnað fiskvinnslu, sem nemur nú um 55% af tekjum hérlendis, samanborið við 75-80% í Noregi. Þetta gæti dregið úr fjárfestingargetu, ýtt undir útflutning óunnins afla, veikt samkeppnisstöðu Íslands og ógnað verðmætasköpun.

Orðið „landsbyggðarskattur“ kemur hvergi fyrir í umsögninni, en ljóst er að breytingin leggst að langmestu leyti, um 80%, á byggðarlög utan höfuðborgarsvæðisins. Skattspor greinarinnar nam 87 milljörðum króna árið 2023 og hún er burðarás atvinnulífs í flestum sjávarbyggðum, stendur undir 30-50% atvinnutekna í sveitarfélögum eins og Snæfellsbæ og Vestmannaeyjum.

Samkvæmt greiningu KPMG greiddi greinin 358,6 milljarða króna í skatta og gjöld á árunum 2019-2023, en skattspor sjávarútvegsfyrirtækja er sjöfalt hærra á íbúa á landsbyggðinni en á mölinni. Hækkun veiðigjalds gæti því dregið úr útsvarstekjum sveitarfélaga.

Fátt er svo með öllu fúsk …

SFS gagnrýnir stjórnsýsluna harðlega. Umsagnarfresturinn var aðeins vika, þrátt fyrir að reglur kveði á um 2-4 vikna frest, en ráðherra synjaði beiðnum um gögn, sem samtökin telja nauðsynleg til þess að ræða frumvarpið með málefnalegum hætti. Það átti ekki aðeins við SFS, heldur hafi lögboðið samráð við sveitarfélög einnig verið vanrækt.

Að einhverju leyti virðist ráðherra líka hafa trassað heimavinnuna. Áhöld eru uppi um hvort greining hafi verið unnin um áhrif breytinganna á ríkissjóð, útreikningar á heildarhækkun á veiðigjaldi virðast beinlínis rangir, Deloitte var falið að gera greiningu á áhrifum á rekstur sjávarútvegsfyrirtækja, en frumvarpið samið og kynnt án þess að hún lægi fyrir.

SFS minna á að sátt hafi verið um meginmarkmið verðmætasköpunar og atvinnulífs í blómlegum sjávarbyggðum og því skorað á stjórnvöld að staldra við.

En er þess nokkur von? Hugsanlega má lesa eitthvað í það að frumvarpinu var ekki dreift á Alþingi fyrir páska. Eins að atvinnuvegaráðherra hefur ekki gefið kost á kappræðum um frumvarpið og raunar ekki mörgum viðtölum heldur.

Viðbrögð sveitarstjórnarmanna – líka úr stjórnarflokkunum – virðast meiri en ríkisstjórnin bjóst við og verkalýðshreyfingin er sögð vera farin að brýna kutana. Vill stjórnin fara í stórslag við öll þau hagsmunaöfl fyrir óljósan ávinning?

Þar kann pólitískt dramb að skipta mestu, að ráðherrarnir geti ekki hugsað sér að láta undan og sýnast bíða ósigur. En þá kann fúskið í ráðuneytunum að koma sér vel eftir allt; að vegna þeirra ágalla megi draga frumvarpið til baka og vinna að nýju með þeim hætti sem lög og reglur gera ráð fyrir.

Höf.: Andrés Magnússon