Vandræði Kvikmyndaskóli Íslands fór í þrot í síðasta mánuði. Síðan þá hefur verið reynt að bjarga starfseminni.
Vandræði Kvikmyndaskóli Íslands fór í þrot í síðasta mánuði. Síðan þá hefur verið reynt að bjarga starfseminni. — Morgunblaðið/Ólafur Árdal
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Málefni Kvikmyndaskóla Íslands hafa verið mikið til umræðu síðustu vikur eftir að rekstrarfélag skólans fór í þrot. Síðan tilkynnt var að skólinn væri gjaldþrota og starfsfólk hefði ekki fengið greidd laun hefur allt kapp verið lagt á að tryggja að…

Fréttaskýring

Höskuldur Daði Magnússon

hdm@mbl.is

Málefni Kvikmyndaskóla Íslands hafa verið mikið til umræðu síðustu vikur eftir að rekstrarfélag skólans fór í þrot. Síðan tilkynnt var að skólinn væri gjaldþrota og starfsfólk hefði ekki fengið greidd laun hefur allt kapp verið lagt á að tryggja að hægt verði að halda starfsemi hans gangandi, að minnsta kosti út þessa önn. Samkvæmt upplýsingum Morgunblaðsins er nú komið að ögurstund í þeim tilraunum; mjög er þrýst á lausn mála, meðal annars af skiptastjóra og eiganda skólahúsnæðisins.

Langur og flókinn aðdragandi er að gjaldþroti Kvikmyndaskólans. Í gegnum tíðina hafa margoft verið sagðar fréttir af fjárhagsvandræðum en alltaf hefur tekist að bjarga skólanum fyrir horn. Þessar nýjustu vendingar tengjast áralangri baráttu stjórnenda fyrir því að fá nám við skólann fært upp á háskólastig.

Engin framlög frá ríkinu

Hlín Jóhannesdóttir rektor Kvikmyndaskólans segir í samtali við Morgunblaðið að miður sé að hlutirnir hafi þróast með þeim hætti sem raunin varð. Hún staðfestir að sjálft gjaldþrotið megi rekja til þess að skólinn hafi ekki fengið fjárframlög frá ríkinu síðan á síðasta ári. Þau framlög hafi haldið uppi rekstrinum ásamt skólagjöldum. Umrætt framlag ríkisins er greitt vegna hvers nemanda í skólanum eins og tíðkast í öðrum einkaskólum.

„Mannlegi þátturinn er stór í þessu. Það voru gerð tæknileg mistök á síðasta ári sem leiða til þess að við endurnýjum ekki leyfið okkar hjá mennta- og barnamálaráðuneytinu. Þar er fjárhagsliður sem er eyrnamerktur okkur og hann datt einfaldlega út. Þetta gerist eftir þrotlausa vinnu okkar við að koma skólanum upp á háskólastig.“

Nemendum fækkað mikið

Þetta setti rekstur skólans vitaskuld í uppnám. Hlín segir að þegar reynt hafi verið að snúa þessari þróun við hafi ráðuneytið svo hafnað beiðni um endurnýjun umrædds leyfis. Ástæðan var að hennar sögn að hluta til sú að á þeim tíma voru fjármál skólans ekki á réttum stað.

„Það hafði myndast fjárhagslegt gat á þessum tíma. Þetta varð ein keðjuverkandi hringavitleysa,“ segir Hlín. „Peningarnir læstust inni í mennta- og barnamálaráðuneytinu. Þetta er mjög skrítið mál og snýst um eitthvað annað og meira.“

Rekstrarerfiðleika skólans má líka rekja til fækkunar nemenda síðustu misseri. Þegar yfirvöld tilkynntu árið 2021 að kvikmyndanámi á háskólastigi skyldi komið á í Listaháskóla Íslands en ekki í Kvikmyndaskóla Íslands misstu nemendur Kvikmyndaskólans rétt á námslánum. Við það fækkaði þeim talsvert með tilheyrandi tekjutapi fyrir skólann. Fram kom í aðsendri grein á Vísi í vikunni að nú væru 69 nemendur við skólann en þeir hefðu verið yfir hundrað áður en til þessa kom. Stefna skólans væri að vera með 160 nemendur hverju sinni.

„Með stofnun þessarar fámennu kvikmyndadeildar við Listaháskólann, þá var námslánarétturinn tekinn af nemendum Kvikmyndaskóla Íslands og þar með rekstrargrundvöllur skólans frá árinu 2003,“ sagði Friðrik Þór Friðriksson, kvikmyndaleikstjóri og fyrrverandi rektor Kvikmyndaskólans, í grein um stöðu mála.

Skiptar skoðanir í bransanum

Lengi hefur staðið til að færa starf Kvikmyndaskólans á háskólastig. Ákvörðun um það var tekin árið 2008 og var þá kennsluskrá skólans löguð að þeim áformum. Illa hefur gengið að sannfæra stjórnvöld um að samþykkja þetta og skiptar skoðanir hafa verið innan kvikmyndabransans um að rétt sé að Kvikmyndaskólinn verði gerður að háskóla. Frægt varð árið 2021 þegar 55 nafntogaðir kvikmyndagerðarmenn skrifuðu opið bréf til mennta- og menningarmálaráðherra þar sem þeir mæltu með því að fela Listaháskólanum að annast námið. Sú varð raunin og hófst kennsla í LHÍ árið 2022.

Síðan þá hafa stjórnendur Kvikmyndaskólans reynt að fá úrlausn sinna mála í samvinnu við yfirvöld. Meðal þess sem verið hefur til umræðu er að málefni skólans færist frá ráðuneyti menntamála yfir til ráðuneytis háskólamála. Í þeirri vinnu voru meðal annars ræddar hugmyndir um að Kvikmyndaskólinn yrði færður undir Háskólann á Bifröst.

Eigandinn vildi ekki fara upp á Bifröst

Samkvæmt upplýsingum blaðsins var háskólaráðuneytið búið að hanna og smíða ákveðna leið að þessu í fyrra. Fólst hún í grófum dráttum í því að námið yrði eftir sem áður tvö ár en nemendum gæfist kostur á að taka eitt ár í viðbót og útskrifast þá með háskólagráðu frá Bifröst. Heimildir blaðsins herma að Böðvar Bjarki Pétursson, stofnandi og eigandi Kvikmyndaskólans, hafi slegið þær hugmyndir út af borðinu og sagt að um „óvinveitta yfirtöku“ á skólanum væri að ræða sem ekki yrði gengið að. Ekki náðist í Böðvar Bjarka í gær.

Höf.: Höskuldur Daði Magnússon