Almenningur er þvingaður í húsnæðisform sem hann vill ekki

Árum saman hefur vinstri meirihlutinn í Reykjavík fylgt þeirri stefnu í skipulags- og húsnæðismálum að byggja helst aðeins á þegar byggðum svæðum. Þessi stefna felur í sér að lóðum er helst ekki úthlutað nema í þéttri byggð með það að markmiði að þétta byggðina enn frekar. Þessa sjást merki víða í vesturhluta borgarinnar og ófá skipulags- og byggingarslysin sem þar hafa orðið í nafni þéttingar.

Allt er þetta gert til að réttlæta svokallaða borgarlínu, sem krefst þess að byggð sé sem þéttust og sem næst línunni til að einhver von sé um að fólk muni nýta sér þann ferðamáta. En afleiðingarnar af þessari stefnu hafa orðið þær að verulegur húsnæðisskortur hefur myndast í höfuðborginni, enda tekur mun lengri tíma að byggja inni í þéttum hverfum en á óbrotnu landi þar sem byggingaframkvæmdir geta gengið greiðlega. Dæmi um það er uppbygging Grafarvogs á sínum tíma, þar reis mikil byggð á skammri stundu og kom í veg fyrir húsnæðisskort í borginni og tryggði um leið þúsundum eigið húsnæði.

Húsnæðisskortur er þó ekki eini vandinn sem þéttingarstefnan hefur valdið, ört hækkandi húsnæðisverð er hin hliðin á þeim peningi, því að skorturinn hefur keyrt upp húsnæðisverðið og gert fjölda fólks erfitt fyrir um að fjármagna íbúðakaup.

Það tekur tíma að eyðileggja húsnæðismarkað, en löng seta vinstrimanna í meirihluta borgarstjórnar nægði í þeim efnum og nokkuð er um liðið síðan hækkanir á húsnæðismarkaði urðu óhóflegar og erfiðleikar íbúðakaupenda mögnuðust. En vinstrimenn dóu ekki ráðalausir, fyrst skortstefna þeirra á húsnæðismarkaði hafði valdið slíkum vanda var rétta lausnin að þeirra mati að auka inngrip hins opinbera á húsnæðismarkaðnum og stýra uppbyggingu í „réttar“ áttir, sem fól í sér að stórauka framboð á félagslegu húsnæði í ýmsum myndum á kostnað hefðbundinnar húsnæðisuppbyggingar. Í stað þess að almenningur gæti keypt sér húsnæði á viðráðanlegu verði var komið upp kerfi sem tryggði sumum leiguhúsnæði í boði opinberra eða hálfopinberra fyrirtækja með beinum og óbeinum niðurgreiðslum frá hinu opinbera.

Ný skýrsla Viðskiptaráðs um húsnæðisstefnu stjórnvalda fjallar um þessa þróun almennt, en þó einkum í Reykjavík þar sem vandinn er mestur. Skýrslan er sláandi lesning um hve illa er komið í þessum málaflokki og ekki síst um hve staðráðin stjórnvöld, bæði í landsstjórninni og í borgarstjórn, eru í að viðhalda núverandi ófremdarástandi og bæta fremur í en að vinda ofan af vandanum.

Viðskiptaráð nefnir að af þeim íbúðum sem fyrirhugað er að reistar verði í höfuðborginni næsta áratuginn eigi aðeins 55% að fara á almennan markað en 45% eigi að fara í niðurgreidd húsnæðisúrræði af ýmiskonar félagslegum toga. Reykjavíkurborg og ríkið hafa gert rammasamning um uppbyggingu til ársins 2032, sem felur í sér að 30% íbúða skuli vera „hagkvæmt húsnæði á viðráðanlegu verði“, sem með almennum orðum er einhvers konar niðurgreitt félagslegt húsnæði. En eins og áður segir hyggst Reykjavíkurborg fara langt umfram þessi 30% og miða þess í stað við 45%. 30% hlýtur að teljast mjög hátt hlutfall, en 45% er augljóslega alveg yfirgengilegt og er farið að minna ískyggilega á allt annars konar samfélagsgerð en þá íslensku eða þær sem Íslendingar hafa haft áhuga á að horfa til sem fyrirmyndar.

Eitt af því sem sumir hafa talið þessari ýktu félagshyggjuleið til tekna er að svokölluð „óhagnaðardrifin“ félög byggi fleiri íbúðir en ella væri. En þá ber að líta til þess að því fylgir kostnaður, sem að vísu er falinn að stórum hluta, en kostnaður engu að síður. Í skýrslu Viðskiptaráðs kemur fram að niðurgreiðslur hins opinbera til þessarar félagslegu íbúðauppbyggingar muni nema 69 milljörðum króna á árunum 2024-2033. Niðurgreiðslurnar felast meðal annars í stofnframlögum og ódýrari lóðum en öðrum standa til boða og jafngilda þessar niðurgreiðslur 46% af stofnkostnaði íbúðar. Augljóst er að með þessu er búið að skekkja húsnæðismarkaðinn stórkostlega í þeirri viðleitni vinstrimanna að draga úr einkaeign á húsnæði og fjölga þeim sem búa í leiguhúsnæði.

Nú er ekkert að því að búa í leiguhúsnæði, kjósi fólk þá leið, en vandinn er sá að fæstir búa í slíku húsnæði af því að þeir velji það umfram eigið húsnæði. Fólk neyðist oftast til að velja leiguhúsnæði vegna þess að búið er að skekkja markaðinn. Þetta má til dæmis sjá á könnun sem Viðskiptaráð vitnar í og er gerð á meðal þeirra sem búa í leiguhúsnæði. Einungis 8% leigjenda velja þann kost af því að þeir vilji hann umfram það að búa í eigin húsnæði og hefur þetta hlutfall farið lækkandi á sama tíma og stjórnvöld hafa lagt ofuráherslu á að fjölga leigjendum og fækka kostum á almenna húsnæðismarkaðnum.

Húsnæðismarkaðurinn hér á landi er kominn í algerar ógöngur vegna langvarandi skortstefnu og skaðlegra aðgerða til að bregðast við hinum tilbúna skorti. Afar brýnt er orðið að stjórnvöld hverfi frá þessari stefnu. Það verður helst gert með því að stórauka framboð lóða á óbyggðu landi og gefa almenningi þannig kost á að kaupa sér húsnæði á viðráðanlegu verði.