Fólk sem neyddist til að flýja flóttamannabúðir í Zamzam í Súdan bíður hér eftir matvælum á nýjum áningarstað í flóttamannabúðum í nágrenni Tawila í Darfúr-héraði. Sameinuðu þjóðirnar áætla að um 400 manns hafi fallið og um 400.000 hafi neyðst til að flýja eftir að RSF-hraðsveitirnar hófu sókn að Zamzam-búðunum, en þar hafðist allt að milljón manns við.
Ástandið í Zamzam er einungis eitt dæmi af mörgum um hörmungarnar í Súdan, en tvö ár voru liðin í gær frá því að RSF-sveitirnar hófu uppreisn gegn súdanska stjórnarhernum.
SÞ og önnur alþjóðasamtök segja að í landinu ríki nú eitt mesta neyðarástand veraldar. Alþjóðleg ráðstefna var haldin í Lundúnum í gær um leiðir til að koma á friði, en fulltrúar stríðandi fylkinga héldu sig fjarri.