Klakkseyjar Eyjarnar eru á Breiðafirði, en löngum hefur verið sagt að eyjarnar á Breiðafirði séu óteljandi.
Klakkseyjar Eyjarnar eru á Breiðafirði, en löngum hefur verið sagt að eyjarnar á Breiðafirði séu óteljandi. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
Það er mat óbyggðanefndar að ríkið eigi ekki tilkall til þeirra eyja og skerja sem fyrir landi liggja og eru innan 2 kílómetra fjarlægðar frá fastalandinu, en slíkar eyjar og sker séu hlutar þeirra jarða sem næst liggja, svo framarlega sem staðhættir eða aðrar aðstæður mæli ekki gegn því

Ólafur E. Jóhannsson

oej@mbl.is

Það er mat óbyggðanefndar að ríkið eigi ekki tilkall til þeirra eyja og skerja sem fyrir landi liggja og eru innan 2 kílómetra fjarlægðar frá fastalandinu, en slíkar eyjar og sker séu hlutar þeirra jarða sem næst liggja, svo framarlega sem staðhættir eða aðrar aðstæður mæli ekki gegn því. Þá telur óbyggðanefnd hugsanlegt að eignarréttur þeirra jarða sem hér um ræðir kunni að ná lengra frá landi en 2 kílómetra, en það þarfnist frekari rannsóknar.

Niðurstaða óbyggðanefndar var kunngjörð í álitsgerð sem send var lögmönnum sem eru í fyrirsvari fyrir þá landeigendur sem ríkið sótti að í málinu og krafðist þess að eyjar og sker fyrir löndum þeirra yrðu gerð að þjóðlendum. Hún tekur mið af greinargerð sem Jón Jónsson hæstaréttarlögmaður, lögmaður nokkurra landeigenda, sendi nefndinni og rannsóknin hefur einnig verið birt í Tímariti Lögréttu.

Þar bendir Jón á að lokamálsliður 2. kafla í svonefndum rekabálki Jónsbókar sé gild löggjöf um eignarrétt á eyjum og skerjum.

„Óbyggðanefnd hefur fallist á að reglan sé gild löggjöf, en hún hefur litla sem enga umfjöllun fengið í fræðiskrifum lögfræðinga frá árinu 1950. Það var „djúpt á henni“ eins þeir sem lagt hafa það á sig að reyna að lesa greinargerðina hafa séð,“ segir Jón í samtali við Morgunblaðið.

„Þetta er auðvitað sigur fyrir landeigendur en varpar einnig merkilegu ljósi á þróun byggðar og jarðaskipulags á Íslandi,“ segir hann.

Jón telur að landfræðilegt gildissvið Jónsbókarákvæðisins nái lengra frá landi en 2 kílómetra. Möguleg takmörk reglunnar miðist fremur við það hvort eyja eða sker sjáist frá landi eða hvort land, þ.e. það meginland sem eyja eða sker liggur næst, sjáist frá viðkomandi eyju eða skeri.

„Miðað við þessa stöðu virðist þó ljóst að óbyggðanefnd muni almennt hafna þjóðlendukröfu ríkisins þegar eyjar og sker eru nær landi en 2 kílómetrar og þ.a.l. muni eyjar og sker teljast eign þeirrar jarðar sem á næstliggjandi meginland, nema til séu sannanir um að t.d. kirkjustofnun hafi eignast tilteknar eyjar fyrir landi jarðar. Óbyggðanefnd hyggst taka til rannsóknar hverju sinni hver sé staða eyja og skerja sem liggja fjær landi en 2 kílómetra,“ segir Jón.

„Ég tel þessa afstöðu geta leyst úr um 80-90% deilumála hringinn í kringum landið, þ.e. að í 80-90% tilvika liggi eyjar og sker innan við 2 kílómetra frá landi jarðar á meginlandi Íslands. Fyrirséð er að óbyggðanefnd mun þá hafna kröfu ríkisins,“ segir hann og nefnir að nefndin beini því til lögmanna og annarra fulltrúa aðila að kanna hvort færi séu á að sætta mál í heild eða að hluta með hliðsjón af þeim sjónarmiðum sem fram koma í álitinu.

„Þetta þýðir í raun að óbyggðanefnd er að skora á lögmenn ríkisins að takmarka kröfugerð ríkisins um þjóðlendur. Það stendur því upp á lögmenn íslenska ríkisins að meta hvort íslenska ríkið muni endurskoða kröfugerð sína miðað við þessar almennu niðurstöður óbyggðanefndar,“ segir Jón og bendir á að ríkið geti sparað sér mörg hundruð milljónir með því að fara að þeirri ábendingu.

Frá því var greint í Morgunblaðinu í gær að kostnaður ríkisins við kröfugerð á hendur landeigendum, sem hafa eyjar og sker fyrir landi sínu, hafi þegar kostað ríkið ríflega 96 milljónir króna. Það kom fram í svari fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn Bergþórs Ólasonar alþingismanns, sem sagði í samtali við blaðið að vegferð ríkisins á hendur landeigendum í þessu máli ætti að stöðva strax og spara þannig fjármuni.

Lög frá þjóðveldisöld

Grágás í gildi

Afstaða til eignarréttarlegrar stöðu eyja og skerja við Ísland var tekin með lagasetningu á þjóðveldisöld og má finna ákvæði þess efnis í Grágás sem síðan var tekið upp í Jónsbók árið 1281. Það ákvæði hefur enn lagagildi hér á landi og er svohljóðandi: „Ef sker eða eyjar liggja fyrir landi manns, ok á sá þat ok reka þann, er fylgir, er meginland á næst, nema með lögum sé frá komit.“

Höf.: Ólafur E. Jóhannsson