Aldraðir Læknar meta hæfni eldri borgara og biðin oft löng.
Aldraðir Læknar meta hæfni eldri borgara og biðin oft löng. — Morgunblaðið/Eggert
„Ég fagna því að þingmenn hafi sýnt frumkvæði í því að taka málið upp á Alþingi,“ segir Pétur J. Eiríksson um frumvarp Miðflokksins til breytinga á endurnýjun ökuskírteina eldri borgara. Pétur skrifaði grein í Morgunblaðið í byrjun febrúar sl

Óskar Bergsson

oskar@mbl.is

„Ég fagna því að þingmenn hafi sýnt frumkvæði í því að taka málið upp á Alþingi,“ segir Pétur J. Eiríksson um frumvarp Miðflokksins til breytinga á endurnýjun ökuskírteina eldri borgara.

Pétur skrifaði grein í Morgunblaðið í byrjun febrúar sl. þar sem hann fór yfir hversu langt er gengið á Íslandi í kröfum á hendur eldri borgurum, langt umfram kröfur sem gerðar eru í nágrannalöndunum.

Í grein Péturs kemur fram að samkvæmt mannfjöldaspá Hagstofunnar megi reikna með að á þessu ári þurfi að endurnýja 14.492 ökuskírteini fólks á aldrinum 70 til 90 ára.

„Miðað við vinnustundir opinberra starfsmanna má reikna með að sýslumannsembættin þurfi tæplega tólf starfsmenn til að afgreiða og gefa út þessi óþörfu ökuskírteini sem íslenska blýhúðunin kallar á.“

16.000 læknisvottorð á ári

Til samanburðar tekur Pétur sem dæmi að sænskur borgari þurfi ekki að sanna heilbrigði sitt með læknisvottorði til að endurnýja ökuskírteinið. Sú skylda hvíli á heilbrigðiskerfinu.

„Hjá okkur er þessu öfugt farið. Heilu aldurshóparnir eru dæmdir sjúklingar nema annað komi í ljós. Við þurfum að sanna fyrir læknum og sýslumönnum að við höfum rænu og kraft til að aka bíl. Til þess þarf að panta, bíða og mæta á heilsugæslu og kosta til vottorðs frá lækni um að viðkomandi geti teiknað klukku, sagt hvaða dagur er eða lesið af töflu með sjónglerjum sem augnlæknir hefur þegar ávísað á hann. Á þessu ári má reikna með útgáfu 16.044 læknisvottorða sem væru óþörf hefðum við sama kerfi og Svíar,“ segir Pétur.

Hann tekur sem dæmi að ef viðtal við lækni taki 20 mínútur eyði heilsugæslan 5.348 klukkustundum á ári í slík óþarfa viðtöl.

„Ekki veit ég hve mörgum verðmætum dagsverkum lækna er sóað, en þau eru örugglega það mörg að um munar fyrir þá sem raunverulega þurfa á læknishjálp að halda.“

Pétur segir að það sé dæmigert fyrir þá tilhneigingu í íslenskri stjórnsýslu að flækja málin fyrir bæði neytendum og atvinnulífinu, tími sé til kominn að taka á þessu og hann hefur fulla trú á að dómsmálaráðherra leggist ekki gegn þessari breytingu.

Höf.: Óskar Bergsson