„Ég sagði já við gigginu,“ segir Soffía Björg Óðinsdóttir söngkona úr Borgarfirði. Með Fríðu Dís af Suðurnesjum verður Soffía á Uppanum á Akureyri að kvöldi föstudagsins langa. Þar ætlar Fríða að syngja og flytja sín eigin lög en Soffía verður henni til halds og trausts með gítarspili og bakraddasöng. Soffíu þekkja eflaust einhverjir eftir að hún flutti í sjónvarpsþætti Gísla Marteins vetur lagið Það er draumur að fara í bæinn sem gerði góða lukku.
„Akureyri er æðislegur staður og ekki ósennilegt að ég stoppi þar 2-3 daga. En svo verður líka gott að bruna aftur í Borgarfjörð og fara í eitthvert hrossastúss. Ég bý skammt fyrir ofan Borgarnes með foreldrum mínum á bænum Einarsnesi. Umhverfið þar er einstakt og mér finnst gott að vera úti í vorinu. Þessir dagar nú, um miðjan apríl, eru nærandi fyrir sálina. Hægt er að líkja dimmum vetri við ofbeldissamband en þegar slíku slotar verður allt gott.“
„Upprisan gefur tilefni til að gleðjast,“ segir
Bergþóra Ragnarsdóttir, djákni í Skálholti. Þar kemur hún að ýmsum athöfnum nú um bænadagana. Einnig að tveimur guðþjónustum á páskadag; meðal annars þá síðdegis þegar fermt verður í kirkjunni.
„Ég byrjaði ung í kirkjustarfi og kórsöng á heimaslóðum mínum austur á Hornafirði og fann mig strax í því. Ég þekki því bókstaflega ekkert annað en að hafa í mörg horn að líta um páskana. Kemst þó ekki í hálfkvisti við manninn minn, Jón Bjarnason, sem er organisti við kirkjur hér í uppsveitum Árnessýslu. Okkur telst svo til að hann verði við hljóðfærið og stjórni söng við alls 13 athafnir um páskana. En vonandi gefast rólegar stundir inni á milli; til dæmis að vera með lambahrygg á páskadag og fara í gönguferðir með hundana okkar þrjá. Við búum á Laugarvatni og hér er afskaplega ljúft að vera. Páskarnir eru tími sem ég hlakka mikið til.“
„Núna er ég kominn út til Svíþjóðar, þar sem ég verð næstu daga að keppa í tennis. Ein af undirgreinum þar er padel, sem ég hef æft í vetur með vinum mínum, og nú ætlum við að sýna hvað í okkur býr. Erum núna í Stokkhólmi á leiðinni til Uppsala á mótið,“ segir Dagur Jónsson, 16 ára Garðbæingur og nemi í Framhaldsskólanum í Mosfellsbæ.
„Við komum heim á laugardag og þá ætla ég með fjölskyldunni í sumarbústað í Skorradal. Væntanlega verður farið þar í eitthvert fjórhjólabrölt, sem mér finnst alltaf mjög skemmtileg iðja. Svo þarf ég líka að stússast með félaga mínum í auglýsingagerð; við höfum lýst okkur sem ungum frumkvöðlum og höfum verið að búa til myndbönd og fleira fyrir fyrirtæki. Nokkur myndbönd sem verða birt á netinu og víðar eru í vinnslu. Þá er fínt að fá tíma til þess að klára þau um páska, sem er annars líka bara skemmtilegur tími til þess að leika sér og vera með vinum sínum.“
„Ef spáin gengur eftir núna lofar veðrið góðu og vonandi kemst ég eitthvað á hestbak. Við fjölskyldan erum með hross í húsi suður í Hafnarfirði. Það þarf að sinna þeim um páskana og svo er líka löng hefð fyrir skírdagskaffi hjá hestamannafélaginu Sörla. Hestamenn fjölmenna jafnan þangað,“ segir Margrét Ágústa Sigurðardóttir, framkvæmdastjóri Bændasamtaka Íslands.
„Eftir annir síðustu mánaða þarf líka að sinna og fara í tiltekt á heimili fjölskyldunnar. Margt má grisja og henda, dóti sem safnast hefur upp í geymslum og bílskúrnum, en ég er arfaslök í því að henda. Ætli páskarnir muni ekki nýtast eitthvað til slíkra verka, jafnhliða öðrum gæðastundum. Á heimilinu eru þrjú börn og við munum sjálfsagt skreppa upp í Leirársveit, þar sem sumarhúsið okkar er. Svo er líka gott að eiga bara rólegar stundir heima, án þess að hafa nokkuð fyrir stafni.“
„Páskar eru frábær tími til útivistar og samvistar með vinum og fjölskyldum. Daginn er tekið að lengja, það birtir í báða enda og tíminn sem nýtist til útivistar lengist,“ segir Bjarni Már Gylfason, hagfræðingur og fararstjóri hjá Ferðafélagi Íslands.
„Hér í nágrenni Reykjavíkur eru margir skemmtilegir möguleikar til útivistar. Til greina kemur til dæmis að keyra Krýsuvíkurleið að Kleifarvatni. Fjöruferðir eru frábærar; svo sem að fara um flæðarmál á Seltjarnarnesi, Álftanesi, í Grafarvogi eða jafnvel uppi í Hvalfirði. Fyrir þau sem vilja virkilega reyna á sig má stinga upp á að ganga fjöruna frá golfvellinum í Þorlákshöfn alveg að ósum Ölfusár.“
Ef fólk vill fara hærra og ganga á fjöll er margt í boði í nágrenni borgarinnar; leiðir við allra hæfi eins og Bjarni Már lýsir.
„Flestallir ráða við að ganga á Úlfarsfellið en líka má mæla með gönguleiðum í Mosfellsbæ. Vont veður er engin ástæða til að fara ekki út að ganga. Í skógarsvæðum við borgina eru dásamlegar gönguleiðir sem skýla fólki vel fyrir veðri og vindum. Heiðmörkin býður upp á endalausa möguleika. Einnig er Hólmsheiðin vel skógi vaxin og fallegar leiðir um breiðurnar þar.“