Grjótárvatn Skjálftinn er sá stærsti sem mælst hefur þar í fjögur ár.
Grjótárvatn Skjálftinn er sá stærsti sem mælst hefur þar í fjögur ár. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Jarðskjálfti af stærðinni 3,7 mældist við Grjótárvatn í Ljósufjallakerfi í gærmorgun og var hann sá stærsti sem mælst hefur á svæðinu frá því að fyrst varð þar vart við aukna skjálftavirkni árið 2021

Birta Hannesdóttir

birta@mbl.is

Jarðskjálfti af stærðinni 3,7 mældist við Grjótárvatn í Ljósufjallakerfi í gærmorgun og var hann sá stærsti sem mælst hefur á svæðinu frá því að fyrst varð þar vart við aukna skjálftavirkni árið 2021.

Skjálftinn mældist á 18 kílómetra dýpi og fannst hann í byggð, meðal annars inni í Skorradal og í Borgarfirði. Engir skjálftar fylgdu í kjölfarið en Jóhanna Malen Skúladóttir, náttúruvársérfræðingur á Veðurstofu Íslands, segir að ekki sé algengt að svona stór stakur skjálfti mælist á svæðinu.

„Við erum náttúrlega alltaf með auga á þessu svæði og öðrum sem sýna virkni umfram eðlilegan bakgrunn,“ segir Jóhanna. Þarna sé greinilega eitthvað á seyði en aðeins tíminn geti leitt í ljós hvað verði úr því.

„Það er spurning hvernig þetta þróast yfir tíma. Hvort þetta heldur áfram að vera aukin skjálftavirkni og hvort skjálftarnir fara þá að færa sig ofar eða hvort þetta deyr út á endanum,“ segir Jóhanna.

Haldið hefur áfram að draga úr skjálftavirkni við kvikuinnganginn á Reykjanesskaga síðustu daga en undanfarna daga hafa 20-30 skjálftar mælst á svæðinu, flestir undir 2 að stærð. Á sunnudaginn síðasta mældist einn skjálfti, 3,3 að stærð.

Höf.: Birta Hannesdóttir