Æðstiklerkur Írans, Ali Khamenei, sagði í gær að hann væri ánægður með hinar óbeinu viðræður sem Íransstjórn átti við Bandaríkjamenn í Óman um helgina. Khamenei sagði í yfirlýsingu sinni að hann væri þó „mjög svartsýnn“ á fyrirætlanir Bandaríkjastjórnar, en að viðræðurnar gætu mögulega skilað árangri.
Sagði Khamenei jafnframt að Íranir væru með „skýr rauð strik“, en útskýrði það ekki nánar. Talsmaður íranska byltingarvarðarins sagði hins vegar fyrr um daginn að hernaðargeta og varnir Írans hefðu ekki verið ræddar á fundinum í Óman og yrðu ekki á borðinu.
Gert er ráð fyrir að Rafael Grossi, framkvæmdastjóri alþjóðakjarnorkumálastofnunarinnar IAEA, fundi með fulltrúum Íransstjórnar í dag.